17.03.1987
Efri deild: 69. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4416 í B-deild Alþingistíðinda. (4172)

430. mál, framleiðsla og sala á búvörum

Frsm. 1. minni hl. landbn. (Skúli Alexandersson):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom við 1. umr. þessa máls hér í gærkvöldi er ég hlynntur þeim breytingum á búvörulögum eða þeirri leið til þeirrar áttar sem lagt er til í frv. og í nál. meiri hl. nefndarinnar, en ég tel þær ganga of skammt.

Sex þm. Alþb. hafa flutt till. til þál. þar sem lagðar eru til ýmsar aðgerðir í landbúnaðarmálum, þar með talið að lengja aðlögunartímann, þ.e. gildistíma ákvæða VIIl. kafla um aðlögun búvöruframleiðslunnar um fimm ár.

Í samræmi við þetta hafa þm. flokksins hér í Ed. flutt brtt. á sérstöku þskj. þar sem lagt er til að ákvæði 36. og 37. gr. um greiðslur útflutningsbóta og framlög til Framleiðnisjóðs gildi til ársins 1995. Það er auk þess stefna Alþb. að því fé, sem skv. 37. gr. laganna á að renna til Framleiðnisjóðs, eigi eingöngu að verja til hvetjandi aðgerða og til eflingar byggðar í sveitum. Fjárskuldbindingar af því tagi sem lagðar voru á sjóðinn s.l. ár ganga þvert gegn því að fé Framleiðnisjóðs eigi á aðlögunartímanum að renna til uppbyggingar. Þar var Framleiðnisjóður notaður handahófskennt til að kaupa upp framleiðslurétt jarða og auk þess að taka að hluta til verðábyrgð á samningum ríkisvaldsins við bændur. Til að fyrirbyggja að slíkt gerist áfram flytjum við þm. Alþb. brtt. við ákvæði 37. gr. sem kveða skýrar á en áður var um það hvernig fara skuli með fé Framleiðnisjóðs.

Alþb. mótmælti á sínum tíma þeim vinnubrögðum sem voru viðhöfð þegar búvörulögin voru sett sumarið 1985. Það hefur síðan margoft komið í ljós og sérstaklega viðurkennt með þeim breytingum sem nú á að gera að æskilegt hefði verið að vanda betur til þeirrar lagasetningar og stefnumörkunar í landbúnaðarmálum.

Tillaga Alþb, er sú að komið verði á fót starfsnefnd til að endurskoða lögin um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum og leggja tillögur um nýja og heilsteypta stefnumörkun um skipan landbúnaðarmála til langs tíma fyrir næsta Alþingi. Því flytjum við þm. Alþb. tillögu um ákvæði til bráðabirgða um endurskoðun laganna.

Nefndarálit 1. minni hl. landbn. Nd. frá því við afgreiðslu laganna vorið 1985 og 1. minni hl. landbn. Ed. eru birt hér með þessu nál. mínu sem fskj., svo og tillögur okkar Alþýðubandalagsmanna um stefnumörkun í landbúnaðarmálum.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara frekar yfir brtt. Þær eru á þskj. 991 og vil ég ekki lengja þessa umræðu, en samkomulag hefur verið um það að hafa hana sem stysta.