17.03.1987
Efri deild: 69. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4419 í B-deild Alþingistíðinda. (4178)

318. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég er að sjálfsögðu sammála þeim leiðréttingum sem hér er verið að gera á heildarlöggjöfinni um Húsnæðisstofnun og er nauðsynleg fyrir margra hluta sakir. Við fengum á okkar fund, eins og frá hefur verið greint, ágæta fulltrúa frá Húsnæðisstofnun, sem upplýstu okkur um margt, reyndar ekki kannske nógu margt en ýmislegt af því sem við vildum vita um þessi mál. Óneitanlega eru sumir hlutir þar í nokkurri óvissu og óvíst um framgang þeirra þó við verðum að vona hið besta við þessar kringumstæður.

Ég hef gerst meðflm. að brtt., sem hv. þm. Stefán Benediktsson er 1. flm. að og hefur þegar gert grein fyrir, tveimur réttlætismálum. Ég vil aðeins geta þess til viðbótar við það sem hann sagði varðandi síðari liðinn að á fundi nefndarinnar í morgun kom það í ljós að ákveðið hafði verið að veita 100 millj. kr. á þessu ári til þess verkefnis sem hér er verið að fara fram á til þessa misgengishóps eða þess hóps sem illa hefur orðið úti varðandi sínar húsbyggingar eða húsakaup. Það var einnig upplýst af hálfu fulltrúa húsnæðismálastjórnar að þar væri um algert lágmark að ræða, þessar 100 millj. Og ekki var nú vandi að lesa í það mál þeirra að ekki mundi af veita að þar yrði myndarlega við bætt, sérstaklega vegna þess að þessum fjármunum, þessum 100 millj. á að ráðstafa núna til þeirra sem þegar hafa sótt um til stofnunarinnar í trausti þess að hún veiti þeim úrlausn, þrátt fyrir að tilkynning hafi komið frá henni um það áður að lokað væri á það að slík lán yrðu afgreidd. Og engin ný auglýsing hefur komið og stendur ekki til að komi frá stofnuninni til fólks um að það geti sótt um þessi lán. Þar af leiðir auðvitað að ef það yrði gert, sem er það eðlilega í þessu máli, þá mundi örugglega ekki veita af þeirri upphæð sem hér er verið að leggja til.

Að öðru leyti vísa ég til þess að að sjálfsögðu hefðum við viljað sjá hér meiri breytingar á þessum lögum, sérstaklega að við það yrði staðið að breyta og bæta hið félagslega kerfi. Í því tilefni vísa ég til frv. sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur flutt varðandi búseturéttarmálið og þær úrbætur sem þar eru fyrirhugaðar, en tef ekki umræðuna að öðru leyti um það mál, svo mikil ástæða sem þó væri til þess að taka það til ítarlegrar umfjöllunar hér.