17.03.1987
Neðri deild: 67. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4424 í B-deild Alþingistíðinda. (4198)

197. mál, veiting prestakalla

Kristín S. Kvaran:

Herra forseti. Ég hafði hug á því að koma með nokkur atriði inn í þessa einkennilegu umræðu sem átti sér stað í gærkvöldi en langaði fyrst af öllu til að víkja að orðum hv. 3. þm. Vestf. sem hann hafði um þetta frv. í gær. Þá taldi hann það vera aðalrökin fyrir því að ekki mætti velja sóknarprest á þann hátt sem getið er í frv. að það væri verið að svipta fólk lýðræðislegum réttindum, eins og hann orðaði það, til þess að velja sér presta, til þess að velja sér sálusorgara. Það yrði fámenn klíka sem mundi ráða þessu, sagði hann, og þar með væri verið að fótumtroða lýðræðislegar hugmyndir og sjónarmið. Ég held að ég hafi haft þetta nokkurn veginn rétt eftir hv. þm.

Hæstv. menntmrh. hafði hér nokkur orð um þetta frv. einnig og hafði mikið á móti því í því formi sem það liggur fyrir, og hafði uppi sömu orð nánast og hv. 3. þm. Vestf., endurtók það svona nokkurn veginn. Hann talaði um að m.a. væri mikil fljótaskrift á þessu frv. en ég verð nú samt að segja að mér finnst ekki vera mikil fljótaskrift á frv. sem hefur verið að flækjast hér á annan áratug auk þess sem það kom mjög snemma fram á þessu þingi, en það er nú annað mál. Það sem mig langaði til þess að koma með inn í þessa umræðu hér er það að mér finnast prestskosningar alls ekki vera sambærilegt atriði við það að það þurfi að viðhafa alþingiskosningar eins og báðir þessir ræðumenn höfðu hér í frammi í gær og mér finnast það fremur langsótt rök.

Ef svo er að nauðsynlegt reynist að viðhafa prestskosningar áfram eins og verið hefur, þá finnst mér að við þurfum að spyrja okkur sjálf: Hvað þá með kennara? Við höfum alls enga möguleika til þess í dag að velja kennara fyrir börnin okkar. Og það er í flestum tilfellum einn maður sem ræður kennara fyrir hvern bekk sem þarf að ráða kennara fyrir, í besta falli fimm manna klíka, svo ég noti sömu skilgreiningu yfir skólanefnd og hv. 3. þm. Vestf. notaði yfir sóknarnefnd, þ.e. skólanefnd, sem mundi ráða kennara. Maður getur ekki einu sinni losnað við þennan kennara frá barninu sínu þó að maður feginn vildi, þó að um framtíð barnsins og alla þess framtíðarheill sé að ræða og þó svo að maður sjái fram á það að það sé verið að eyðileggja allar líkur þess til að geta virkilega notið náms í framtíðinni. Sá eini möguleiki sem maður hefur til þess er að flytja úr hverfinu og þá er það happ og glapp hvað maður fær í staðinn. Framtíðarhorfur barnsins eru auðvitað í veði þarna, en maður hefur ekkert um það að segja. En það er mikið talað um það af þessum þm. sem hér hafa talað, að maður þurfi að geta valið sér sálusorgara.

Ef hv. 3. þm. Vestf. og raunar hæstv. menntmrh. meina það sem þeir eru að segja hér við þessa umræðu um mannréttindi, þá finnst mér að það hefði átt að flytja um það tillögu að við gætum kosið okkur kennara einnig. Þá yrðu kennarar að fara í framboð við þá skóla sem þeir hefðu sótt um starf í, þeir yrðu að halda sýnikennslu fyrir foreldra og börn og þeir yrðu að koma í heimsóknir á öll heimili. Þeir yrðu auðvitað að gefa út bæklinga þar sem þeir lýstu eigin ágæti og þeir þyrftu að greina frá hvaða ágætu hæfileikum þeir væru búnir. Það mætti að sjálfsögðu kjósa í fleiri embætti en þetta sem ég er að nefna hér eins og t.d. læknaembætti.

Ég verð að segja það að ég hef engin rök heyrt enn þá sem mæla gegn því að prestskosningar verði lagðar niður í núverandi mynd og a.m.k. ef við erum að miða vægi starfs presta við vægi starfs kennara barna okkar, þá held ég að við þurfum virkilega að hugsa okkur um hvað það er sem við erum að tala um.

Ég álit að sú skipan mála sem lögð er til í þessu frv. sé ágæt, en hefði reyndar kosið að það hefði verið gengið enn lengra. Ég hefði viljað að biskupi hefði verið falið þetta vald alfarið í hendur, að ráða eða skipa presta. En ég tel að það megi mjög vel við una eins og hér er lagt til í frv.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta neitt frekar. Ég sagði hér í upphafi, herra forseti, að ég ætlaði ekki að hafa mörg orð um þetta mál en tel að það sé mjög vel hægt að una við það að sóknarnefnd geti ráðið presta.