15.10.1986
Efri deild: 3. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í B-deild Alþingistíðinda. (42)

24. mál, lánsfjárlög 1987

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1987 sem lagt hefur verið fram sem 24. mál á þskj. 24. Þetta er eitt þeirra frumvarpa sem líta ber á sem hluta af ríkisfjármálum í heild og allri stefnumótun í opinberum fjármálum fyrir árið 1987 auk fjárlagafrumvarpsins sjálfs og nokkurra annarra frumvarpa sem lögð verða fram á næstunni og lúta einkum að tekjustofnum ríkissjóðs.

Frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1987 er skipt í þrjá kafla. Í þeim fyrsta er leitað heimilda til innlendrar og erlendrar lántöku ríkissjóðs, opinberra fyrirtækja og sjóða. Í II. kafla eru skerðingarákvæði um framlög ríkissjóðs til sjóða og ýmissa verkefna. Loks er í III. kafla frv. ákvæði um skuldbreytingar lána og lántökuheimildir vegna ársins 1986. Alls er áformað að til ríkissjóðs verði aflað lánsfjár að fjárhæð 4850 millj. kr. Þar af verða um 1370 millj. kr. endurlánaðar til fyrirtækja og sjóða í B-hluta. Tveir aðilar í B-hluta fjárlaga skipta hér langmestu máli. Það er flugstöðin í Keflavík með 520 millj. kr. og Lánasjóður ísl. námsmanna með 750 millj. kr. Ég ætla ekki á þessu stigi að fjalla sérstaklega um þessa aðila, en læt það bíða framsögu með fjárlagafrv.

Með lánsfjárlagafrv. er sótt um heimild til að afla 3150 millj. kr. innanlands, þar af 1650 millj. kr. með sölu verðbréfa til innlánsstofnana og 1500 millj. kr. með sölu nýrra spariskírteina. Áætluð innlausn eldri spariskírteina nemur um 1000 millj. kr. á næsta ári. Hrein fjáröflun með spariskírteinum er því áætluð 500 millj. kr. á árinu 1987.

Þá er ráðgert að ný erlend lán nemi 1700 millj. kr., en afborganir af erlendum lánum ríkissjóðs eru taldar nema 1300 millj. á árinu 1987.

Auk beinnar lántöku ríkissjóðs er sótt um heimild til þess að gangast í ábyrgð fyrir 3140 millj. kr. erlendri lántöku á árinu 1987. Hér eiga í hlut fyrirtæki með eignaraðild ríkissjóðs, Landsvirkjun þar af með 400 millj. kr. og Þróunarfélag Íslands með 100 millj. kr. Hitaveitur eiga margar hverjar í miklum fjárhagsörðugleikum svo sem fram hefur komið í umræðum að undanförnu. Að einhverju leyti eiga þessir erfiðleikar rætur að rekja til gengisþróunar liðinna ára og tiltölulega skammvinnra lána, en að öðru leyti til óarðbærra fjárfestinga.

Í þessu frv. er sótt um heimild til að veita ríkisábyrgð fyrir 350 millj. kr. lántöku þessara fyrirtækja sem nær þó eingöngu til skuldbreytinga en ekki nýrra framkvæmda. Fyrir afgreiðslu þessa frv. þarf að athuga sérstaklega hvernig þessar ábyrgðir koma til með að skiptast til einstakra hitaveitna, en á þessu stigi málsins hefur ekki verið gerð tillaga þar um.

Opinberir aðilar í heild munu nú í fyrsta skipti í mjög langan tíma grynnka á skuldum gagnvart útlöndum. Þar er um að ræða að afborganir umfram ný lán nema nú 380 millj. Alls nema lántökur opinberra aðila um 2550 millj. kr., en afborganir 2930 millj. Hér er því um merkan áfanga að ræða þegar tekst að koma málum á þann veg fyrir þrátt fyrir halla á ríkissjóði að erlendar lántökur ríkissjóðs minnka þannig að afborganir eru nú meiri en ný erlend lán og það eru að mínu mati merk tímamót.

Til lánastofnana er alls áformað að taka lán að fjárhæð 2230 millj. kr. Þetta eru eingöngu fjármunir sem endurlánaðir yrðu til atvinnuveganna. Þetta er hærri fjárhæð en á þessu ári, en hún er talin verða um 1350 millj. og mismunurinn skýrist fyrst og fremst af því að öllum skuldabréfakaupum lífeyrissjóðanna er nú beint til húsbyggingasjóðanna eða að langstærstum hluta til.

Að síðustu er leitað heimildar til þess að ábyrgjast lántöku til undirbúnings og smíði tveggja ferjuskipa, þ.e. Breiðafjarðarferju og nýrrar ferju til flutninga til og frá Vestmannaeyjum í stað Herjólfs sem verið hefur í notkun um árabil.

Lánastarfsemi innanlands er nú ekki síður en á undanförnum árum æði umfangsmikil. Fjárhæðir breytast eðlilega frá einum tíma til annars, en allar horfur eru nú á að lánsfjármarkaðurinn og streymi fjárins breytist venju samkvæmt á árinu 1987. Út frá því er gengið að 55% af ráðstöfunarfé lífeyrissjóða renni óskipt til húsbyggingasjóðanna, alls 3440 millj. kr., auk þess sem 40 millj. kr. fara til Stofnlánadeildar landbúnaðarins skv. lögum. Hér er breyting frá því sem verið hefur. Aðalnýbreytni verður þó að telja þá að nú ráðgerir ríkissjóður sölu spariskírteina fyrir 1500 millj. og sölu verðbréfa til skamms og lengri tíma til bankakerfisins fyrir 1650 millj. kr. A-hluti ríkissjóðs tekur því á innlendum markaði 3150 millj. kr. að láni, en þetta jafngildir um 2% af vergri landsframleiðslu. Vextir á innlendum markaði hafa þokast niður á við á síðustu mánuðum. Óvissa ríkir óhjákvæmilega um hvaða áhrif lántökur ríkissjóðs munu hafa hér á. Samningar náðust nýlega um vaxtakjör á skuldabréfum við lífeyrissjóðina og gefur það tóninn um að vextir fari þrátt fyrir allt áframhaldandi niður á við.

Ég tók þá ákvörðun í haust að draga spariskírteini ríkissjóðs út af almennum markaði. Þar var vissulega nokkur áhætta tekin vegna þess að ýmis önnur sparnaðarform hafa staðið almenningi til boða. En með því móti tel ég ótvírætt að vaxtastigið hafi komist í meira jafnvægi en áður var og því er vafalaust að þessi ákvörðun var nauðsynleg og hefur haft jákvæð áhrif. Það er þrátt fyrir þetta enn svo að við höfum borð fyrir báru skv. áætlun fjárlaga um sölu spariskírteina umfram innlausn. En hjá því fer auðvitað ekki að vextir og lántökur verða þeir þættir lánsfjármálanna þar sem ríkissjóður þarf að leggja sitt af mörkum til að hafa áhrif þó að framboð og eftirspurn leiki þar auðvitað aðalhlutverk hér eftir sem hingað til.

Sparnaður í bankakerfinu hefur sem betur fer tekið stakkaskiptum. Breytt stefna í peningamálum hefur leitt til þess að sparnaður í bankakerfinu hefur aukist verulega á undanförnum árum og á þessu ári verulega umfram útlán. Ráðstöfunarfé bankakerfisins fer því ört vaxandi og bankarnir munu því verða færari en áður um að veita opinberum aðilum og atvinnulífinu nauðsynlega lánsfjárfyrirgreiðslu. Í þessu efni hafa orðið mikil umskipti vegna breyttrar stefnu í peningamálum. Innlendur lánsfjármarkaður hefur tekið verulegum breytingum í kjölfar verðtryggingar og hærri raunávöxtunar og gegnir nú vaxandi hlutverki varðandi útvegun lánsfjár til langs tíma. Jákvæð þróun í þá veru mun án nokkurs vafa halda áfram á næstu árum.

Ný lög og reglur setja nú sterkan svip á lánsfjármál og starf peningastofnana og banka. Á miðju ári 1985 voru settar reglur um verðbréfaþing Íslands og ný lög nr. 86 og 87 frá 1985, um viðskiptabanka og sparisjóði, tóku gildi í ársbyrjun. Þá ganga í gildi ný lög nr. 36 1986, um Seðlabanka Íslands, frá og með 1. nóv. n.k. og ný lög um Húsnæðisstofnun og fjármögnun byggingarsjóðanna tóku gildi 1. sept. á þessu ári.

Nýju lögin um bankakerfið færa meðal annars vaxtaákvarðanir að fullu til banka og sparisjóða, en svigrúm þeirra til vaxtaákvörðunar hefur verið smám saman aukið á undanförnum árum. Frjálsræði til vaxtaákvörðunar ásamt hjöðnun verðbólgu mun væntanlega verða til þess að fjárskuldbindingar til skamms tíma beri raunvexti ekki síður en fjárskuldbindingar til lengri tíma svo sem verið hefur.

Ríkisstjórnin hefur sett það að markmiði að ná því sem næst hallalausum viðskiptum við útlönd á árinu 1987. Til þess að þetta markmið náist er alveg ljóst að stefnan í peningamálum má ekki verða til þess að auka þenslu í landinu og tefla í tvísýnu þeim árangri sem náðst hefur í hjöðnun verðbólgunnar. Að þessu þarf að hyggja á næstunni bæði af hálfu stjórnvalda og bankastofnana. Nú er talið að heildarlántökur erlendis 1986 geti numið 10,1 milljarði kr. og hefur þá verið tekið tillit til skuldbreytinga á lánum. Sambærileg upphæð í lánsfjáráætlun 1987 er 8,2 milljarðar kr.

Þar sem nú er fastlega stefnt að því að ná því sem næst jöfnuði við útlönd þarf ekki að auka skuldsetningu þjóðarinnar út á við vegna fjármögnunar á viðskiptahallanum. Þjóðhagsáætlun fyrir árið 1987 gerir ráð fyrir 700 millj. kr. halla á viðskiptunum við útlönd og er það um 0,4% af áætlaðri landsframleiðslu. Hreint innstreymi erlendra lána er talið verða ríflega 1,5 milljarðar kr. þar sem áætlaðar lántökur eru 8,2 milljarðar kr. og afborganir 6,7. Af þessu leiðir að gjaldeyrisstaða Seðlabankans gæti batnað um 1 milljarð kr. á árinu 1987.

Skuldahlutfall langra erlendra lána reis hæst á árinu 1985 er það var 55,1% af vergri landsframleiðslu. Horfur eru á að þetta hlutfall verði um 52,1% á þessu ári og lækki niður í 49,4% á næsta ári. Þá er rétt að nefna að greiðslubyrði af erlendum lánum fer lækkandi sem fyrst og fremst skýrist af lækkun vaxta á erlendum mörkuðum. Vaxtalækkunin hefur í fyrstu áhrif á lán með breytilegum vaxtakjörum, en þau eru um helmingur langra erlendra lána. Reiknaðir meðalvextir erlendra lána voru 9% á árinu 1985, en verða um 8,5% á þessu ári og eru áætlaðir um 8% á næsta ári.

Í II. kafla frv. til lánsfjárlaga eru venju samkvæmt ýmis skerðingarákvæði. Ég geri þau ekki sérstaklega að umtalsefni við framsögu þessa frv., enda tengjast þau efnislega fjárlögunum og umræðum um fjárlagafrv. Ég vil þó nefna ákvæði 28. gr. um framlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, en skil til sjóðsins eru skert sem nemur 307 millj. kr. Þessar fjárhæðir tengjast ákvörðunum um tilflutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga, en ég vænti þess að fyrir afgreiðslu fjárlaga og lánsfjárlaga liggi fyrir niðurstaða þessa máls.

Þá vil ég nefna að í 31. gr. frv. er sótt um heimild til þess að tekið verði 700 millj. kr. lán til að fjármagna halla ríkissjóðs á þessu ári. Jafnframt er sótt um heimild til að skuldbreyta umsömdum lánum ríkissjóðs í Seðlabankanum til að létta á afborgunum á árinu 1987. Þessar skuldir nema nú um 2200 millj. kr. og miðað við núverandi lánskjör nema afborganir um 45% af skuldinni árið 1987 og um 35% árið 1988. Áætlunin miðar við að skuldbreyta lánum þannig að ekki komi til afborgana á árinu 1987.

Að lokum vil ég geta þess að fjárhags- og viðskiptanefndir beggja þingdeilda hafa beint þeim tilmælum til fjmrh. að ríkisábyrgðir fengju skýrari meðhöndlun og þrengri skorður en verið hefur. Við þessu hefur verið orðið með því að birta í frv. til fjárlaga greinargott yfirlit um hverjar ábyrgðir eru og einnig er lagt til að heimildir falli niður að tilteknum tíma liðnum hafi ekki eftir þeim verið kallað. Þetta kemur fram í 32. gr. frv. og athugasemdum með þeirri grein.

Frú forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um frv. á þessu stigi máls, en legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.