17.03.1987
Neðri deild: 67. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4449 í B-deild Alþingistíðinda. (4225)

342. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Þegar þessi mál voru til meðferðar hér í gær, þ.e. frumvörpin um staðgreiðslu opinberra gjalda og fleiri frv., þá óskaði ég eftir því að umræðunni yrði frestað þar til fyrir lægju niðurstöður frá Þjóðhagsstofnun í sambandi við áhrif þessara skattkerfisbreytinga á einstaka tekjuhópa. Þetta gagn frá Þjóðhagsstofnun barst svo um síðir í dag og þar koma fram býsna athyglisverðar niðurstöður og þess vegna ákvað ég að dreifa þessu plaggi hér til þm. sem er merkt sem þskj. 1000, framhaldsnál. frá 1. minni hl. fjh.- og viðskn.

Þar kemur m.a. fram að samkvæmt þeim forsendum sem byggt er á í frv. um tekjubreytingar á milli ára er yfirleitt um að ræða lækkun á sköttum milli kerfa, mesta lækkun neðst og efst í tekjuskalanum, minnsta lækkun um miðbikið, af því sem kalla mætti almennar launatekjur. Þar kemur einnig fram að þó virðist sem einn hópur sé þarna undanskilinn en það eru einstæðir foreldrar sem eiga eitt barn, 7 ára eða eldra.

Í töflu 8 í þessu þskj. kemur fram að þessi hópur hækkar í sköttum við kerfisbreytinguna miðað við þær forsendur sem þar er gert ráð fyrir í tekjum. Af þessu tilefni lagði ég hér fram í dag brtt. við 11. gr. frv. þar sem gert var ráð fyrir því að barnabætur til einstæðra foreldra yrðu hækkaðar þannig að ekki yrði um að ræða skattahækkun á þessu fólki. Meiri hl. fjh.- og viðskn. tók þessa till. síðan til athugunar og niðurstaðan varð sú að fjh.- og viðskn. flytur á þskj. 1030 sameiginlega brtt. þar sem gert er ráð fyrir því að hækka barnabætur frá frv. þannig að barnabætur verði þær sömu og eru í gildandi lögum. Þetta er brtt. á þskj. 1030, breyting sem flutt er af fjh.- og viðskn. sameiginlega.

Í grg. Þjóðhagsstofnunar kemur það fram að í forsendum hennar er byggt á því að tekjubreytingar milli áranna 1986 og 1987 séu 20%. Nú er hins vegar gjarnan í þessu efni miðað við hærri tölu og m.a. lýsti hagfræðingur Alþýðusambandsins því fyrir okkur á fundi í fjh.- og viðskn. fyrir nokkrum dögum að miðað við 221/2% hækkun tekna á milli ára mundu skattar hækka um 900 millj. kr. frá því sem áætlað er í frv. Hins vegar kemur það fram í þessu plaggi frá Þjóðhagsstofnun að ef tekjuhækkunin er 221/2%, þá sé hækkun skattanna á milli kerfa 800-900 millj. kr.

Á töflunum sem fylgja þessu skjali frá Þjóðhagsstofnun kemur það greinilega fram hvernig skattar breytast eftir tekjuflokkum en það ber hins vegar að taka fram að auðvitað liggur engin úttekt fyrir á því hvaða áhrif þessar breytingar kunna endanlega að hafa, fyrst og fremst vegna þess að það er ekki ljóst hvaða áhrif það hefur að fella niður alla frádráttarliðina og hvernig það kemur síðan út í tekjum ríkissjóðs. Í öðru lagi auðvitað vegna þess að það liggur ekkert fyrir um það hver verður tekjubreytingin á milli ára. Þar eru menn að giska á 221/2% í dag og getur orðið eitthvað annað á morgun og enn annað þegar skattarnir verða lagðir á í sumar. Þess vegna er það alveg augljóst mál að hvaða tölur svo sem kunna að standa inni í þessum frumvörpum, þá verður að endurskoða þær síðar á þessu ári, fyrir haustþingið og um það hefur mér skilist að sé algjör samstaða í fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar.

Ég reyndar spái því að það verði fast verkefni Alþingis á hverju hausti næstu árin að ákveða annars vegar persónuafsláttinn og hins vegar skattaprósentuna í tekjuskatti eftir að álagning hvers árs liggur fyrir og að það verði pólitísk togstreita næstu ára hversu mikið eða lítið eigi að breyta þessum tölum. En ég held að það sé mjög mikilvægt að það liggi hér fyrir að upplýsingar fengust um áhrifin af þessari kerfisbreytingu. Ég tel mikilvægt að þessar upplýsingar Þjóðhagsstofnunar liggi þrátt fyrir allt fyrir þó að þær segi auðvitað ekki alla sögu í þessum málum.

Ég endurtek svo það sem áður hefur komið fram af okkar hálfu að við teljum það slæmt að ekki skuli tekið á fyrirtækjunum. Við teljum það slæmt að ekki skuli tekið á frádráttarliðum þeirra. Við bendum á að fyrir þinginu liggur frv. um virðisaukaskatt sem er sennilega meiri hluti fyrir hér í þinginu, meiri hluti sem ekki þorir að sýna sig fyrir kosningar. Við bendum á að hallinn á ríkissjóði er 3000 millj. kr. og það verður bersýnilega eitt af verkum næstu ríkisstjórnar að taka á þeim málum, hvernig svo sem hún gerir það, hvort sem hún gerir það með því að hækka skatta á fyrirtækjum eða breyta sköttum á fyrirtæki, hvort hún gerir það með því að leggja á óbeina skatta eða þá með því að skera niður enn frekar en gert hefur verið, nú eða með því að taka erlend lán upp í hallann vegna þess að spariskírteini ríkissjóðs seljast ekki. Ríkissjóðsdæmið er sem sagt í uppnámi og það er eitt af hinum stóru leyndarmálum þeirrar kosningabaráttu sem nú stendur yfir að Sjálfstfl. hefur ekki fengist til að lýsa því yfir hvernig hann hugsi sér að taka á þessu máli. Tillögur okkar í Alþb. liggja fyrir um þau efni.

Herra forseti. Ég vildi gera grein fyrir þessu framhaldsnál., áætlun Þjóðhagsstofnunar og þeirri brtt. sem fjh.- og viðskn. flytur sem þýðir það að ég dreg þá til baka brtt. 1016 sem ég hafði flutt hér fyrr í dag þar sem samkomulag hefur náðst um efni hennar á vegum fjh.- og viðskn.