17.03.1987
Neðri deild: 67. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4452 í B-deild Alþingistíðinda. (4227)

342. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls flutti ég á þskj. 817 brtt. sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Við 10. gr. Við 1. mgr. A-liðar bætist: Persónuafsláttur skv. þessari mgr. skal þó vera breytilegur eftir sveitarfélögum eða landsvæðum með sambærilegan framfærslukostnað. Skal afslátturinn breytast hlutfallslega í samræmi við vísitölu framfærslukostnaðar í hverju umdæmi tvisvar á ári og skulu breytingar taka gildi 1. janúar og 1. júlí ár hvert, sbr. 121. gr. Hagstofa Íslands reiknar framfærsluvísitölu skv. þessari mgr. Ráðherra setur með reglugerð nánari fyrirmæli um útreikning framfærsluvísitölu og persónuafsláttar skv. þessari mgr., skiptingu landsins í umdæmi o.fl.“.

Ég óskaði eftir því að fjh.- og viðskn. tæki þessa till. til umfjöllunar, en viðbrögð hennar við þeirri beiðni mun ég koma inn á síðar. Ástæðuna fyrir þessari till. má rekja til þess sem ég mun nú frá greina. Ég ætla að lesa, með leyfi forseta, innganginn að skýrslu hinnar svokölluðu byggðanefndar, en inngangurinn hefst þannig:

„Byggðanefnd þingflokkanna var skipuð í kjölfar afgreiðslu Alþingis á frv. til breytinga á stjórnarskrá lýðveldisins á 105. löggjafarþinginu vorið 1984. Markmið nefndarstarfsins er að gera tillögur í samræmi við samkomulag þeirra stjórnmálaflokka sem þá áttu fulltrúa á Alþingi. Í grg. frv. segir: „Þingflokkar sem að frv. þessu standa hafa orðið ásáttir um að beita sér fyrir aukinni valddreifingu og virkara lýðræði samhliða afgreiðslu nýrrar stjórnarskrár. M.a. fái sveitarfélögin meira sjálfsforræði og þannig verði völd og áhrif landsmanna allra í eigin málum aukin óháð búsetu þeirra. Jafnframt munu þingflokkarnir beita sér fyrir sérstökum aðgerðum til þess að jafna félagslega og efnalega aðstöðu manna þar sem mismununar vegna búsetu gætir helst.“

Og enn segir: „Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra beitti sér fyrir því að þingflokkarnir tilnefndu menn í nefnd til þess að fylgja þessari samþykkt eftir“ o.s.frv.

Þegar málið var svo til 2. umr. kom fram að frsm. nefndarinnar, hv. 2. þm. Reykv., minntist ekki á að þessi brtt. hefði einu sinni komið fram. En það sem ég var að lesa upp er úr greinargerð sem fylgdi frv. um stjórnarskrá lýðveldisins. Og hverjir ætli hafi verið flm. að því? Það voru formenn þeirra stjórnmálaflokka sem þá áttu fulltrúa á Alþingi, það var hæstv. forsrh., það var Geir Hallgrímsson, fym. forsrh., það var hv. þm. Kjartan Jóhannsson og það var hv. þm. Svavar Gestsson. Hv. þm. Svavar Gestsson og Kjartan Jóhannsson eiga einnig sæti í fjh.- og viðskn. ásamt þingflokksformönnunum hv. þm. Páli Péturssyni og Ólafi G. Einarssyni.

Það kom fram í ræðu sem var flutt hér út af vegáætlun að af því að hv. fjvn. hefði gefið fyrirheit í sambandi við ákveðinn vegarkafla í vegáætlun væri það einhver trygging fyrir því að það mundi verða séð um að útvega fjármagn. Það var einnig gefið fyrirheit þegar stjórnarskráin var afgreidd, m.a.s. af formönnum allra þessara flokka. Og hvernig hefur það fyrirheit reynst?

Ég vil af þessu tilefni leyfa mér að leggja fyrirspurnir fyrir hæstv. forsrh. vegna þeirrar tilvitnunar sem ég las upp áðan. Í fyrsta lagi: Telur hæstv. ríkisstjórn að búið sé að einhverju leyti að uppfylla þau fyrirheit sem gefin voru og felast í þeirri tilvitnun sem ég las upp áðan? Í öðru lagi: Hefur t.d. verið aukin valddreifing í þjóðfélaginu og er virkara lýðræði en áður var? Í þriðja lagi: Hafa sveitarfélögin meira sjálfsforræði? Hafa aukist völd landsbyggðarinnar á þessu tímabili? Og í fjórða lagi: Till. mín sem ég las upp áðan er fyrst og fremst flutt af tilefni yfirlýsingar sem var þannig, með leyfi forseta:

„Jafnframt munu þingflokkarnir beita sér fyrir sérstökum aðgerðum til þess að jafna félagslega og efnalega aðstöðu manna þar sem mismununar vegna búsetu gætir helst.“ Og ég vil spyrja: Hvað hafa þingflokkarnir gert í því máli að jafna aðstöðu manna vegna búsetunnar? Það er eðlilegt að spurt sé vegna þeirrar mismununar sem ég tel að hafi farið vaxandi að mörgu leyti. Ég vil t.d. geta þess að það hefur farið fram mikil umræða í sambandi við mismunun á hitunarkostnaði íbúðarhúsnæðis. Það hefur verið rætt um að gera eitthvað í þeim málum. Það hefur kannske farið fram hjá mér, en ég veit ekki til þess að það sé nokkur niðurstaða komin í því máli. Í sambandi við þá kerfisbreytingu sem er verið að gera í sambandi við tekjuskattinn er alveg upplagt að framkvæma það sem heitið var. Og þó ég sé ekki neinn spámaður eða vilji spá nokkru um framgang mála í komandi kosningum er það ekki víst, það liggur ekki á borðinu, að það verði á valdi t.d. hæstv. forsrh. að efna þetta fyrirheit eftir kosningar. Það gæti farið svo að það sé eina tækifærið sem þeir flokkar sem nú ráða ferðinni hafi til að efna þessi fyrirheit. Þess vegna legg ég ríka áherslu á að fá svör við þessum spurningum. Þetta er kannske eitt alvarlegasta málið sem nú er verið að fjalla um í þjóðfélaginu.

Allir vita um þá fólksflutninga sem eiga sér stað utan af landsbyggðinni. Þó það sé jafnvel næg atvinna á hinum ýmsu stöðum fer fólkið fyrir því, vegna þess að framfærslukostnaðurinn er langtum meiri en t.d. er hér. Það munar t.d. um hitunarkostnaðinn. Hann er þrisvar sinnum meiri á Akureyri en hér. Hann er enn meiri á Akranesi. Og vöruverð er verulega miklu hærra. Það þarf að borga söluskatt og flutningskostnað. Allur framfærslukostnaður er að vísu misjafnlega mikið hærri úti á landsbyggðinni, en það á að verða auðvelt að jafna þennan mun með þessum hætti eða þá með öðrum. Því óska ég eftir því að það komi fram í sölum Alþingis hvort hæstv. forsrh. og raunar fjmrh., formaður Sjálfstfl., ætla eitthvað að gera. Þó hann flytti ekki það frv. sem ég vitnaði í heldur forveri hans á hann sem formaður flokksins að efna þetta fyrirheit því það var gefið í nafni flokksins á sínum tíma. Og ég verð að segja að þeir hv. þm. Svavar Gestsson og hv. þm. Kjartan Jóhannsson, sem var formaður Alþfl. þegar þetta fyrirheit var gefið, sáu heldur ekki ástæðu til þess að minnast á þessa till. eða koma með einhverjar aðrar. Þeir fluttu margar till. báðir tveir í sambandi við frv. sem við erum að ræða um, en hvorugum þeirra datt í hug að fylgja fram þessu fyrirheiti sínu eða koma fram með aðrar till. til að standa við gefið heit. Þetta er hörmuleg niðurstaða og er ekki nokkur vafi á því að hvort sem það er fjvn. eða hver annar sem skrifar undir og heitir einhverju er það marklaust. Það er algerlega marklaust ef ekkert gerist í þessu máli og það nú fyrir kosningar.

Ég ætla ekki að fara að tala lengra mál hér, það hefur ekki nokkra þýðingu, en ég vil að þetta komi fram og ekki síst vegna þess að svona loforð, sem gefin eru í sambandi við afgreiðslu mála, eru ekki til að auka hróður Alþingis eða þeirra sem gefa þau ef það er bara pappírsgagn og engum dettur í hug að standa við það sem lofað er.