17.03.1987
Neðri deild: 67. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4456 í B-deild Alþingistíðinda. (4229)

342. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég þakka forsrh. fyrir svörin. En ég hélt að hæstv. ráðh. væri minnugri en kom fram í hans svari. Sú tilvitnun sem ég kom með, þó það sé upp úr inngangi byggðanefndar, er tekin beint upp úr grg. að því frv. sem hann var m.a. flm. að. Það var sett þar til að friða menn sem voru því andvígir að breyta vægi atkvæða. Það var komið fram með tillögu, t.d. af þeim sem hér stendur og hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni, til að reyna að jafna þennan aðstöðumun. Það var tillaga við stjórnarskrána sjálfa. Hér var atkvæðagreiðsla um þessa till. Ég lít svo á að það sé ekki rétt munað hjá hæstv. forsrh. að það hafi ekki verið m.a. hann sem setti þetta inn í grg. Og þetta er fyrirheit, að þetta skuli gert. Hitt er annað mál að það var ekki fyrirheit um hvernig það skyldi gert.

Það er alveg rétt sem hæstv. forsrh. segir t.d. með símann, en ég vil minna hann á það afturhvarf sem hefur orðið í sambandi við þá vegáætlun sem var verið að afgreiða áðan.

Ég ætla ekki að fara að halda uppi neinu málþófi um þetta mál. Það var ekki meiningin. Ég vildi vekja athygli á að það stendur upp á þá formenn alla sem ég nefndi að gera eitthvað í þessum málum raunhæft. Það er enginn vafi á því að þetta er aðalvandamálið í þjóðfélaginu. Það er ekki verið að tala um að hafa skattinn misjafnan. Þá hefur hæstv. forsrh. ekki skilið till. Það er verið að tala um að persónufrádrátturinn sé misjafn eftir því hver framfærslukostnaðurinn er. Þetta er hægt að gera eins og ýmislegt annað sem er verið að gera í sambandi við skattalög ef menn hafa vilja. En ég er ekki að segja að þetta sé eina leiðin, alls ekki. Ég vil þá fá till. um það eins og ég tel að heitið hafi verið. Ég læt máli mínu lokið, en vil aðeins árétta þetta.