17.03.1987
Neðri deild: 67. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4457 í B-deild Alþingistíðinda. (4231)

342. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það er alkunna að af fyrirtækjum eru yfirleitt reiknaðir skattar af nettótekjum, en ekki brúttótekjum. Með þessu er ekki verið að segja að fyrirtæki sem hefur hærri skatta greiði ávallt hærri skatta væri miðað við brúttótekjur. Það sama hlýtur að vera spurning varðandi reksturskostnað einstaklinganna. Greiðir sá aðili hærri skatta sem greiðir af sínum nettótekjum eða af sínum brúttótekjum? Það hefur aldrei fengist viðurkennt í þessu sambandi að það er misdýrt að búa í landinu. Hins vegar er sá galli á þessu að það er misdýrt innan hvers einasta kjördæmis að búa í landinu. Stærsti þátturinn sem veldur þessum ójöfnuði er upphitunarkostnaðurinn. Hann er langstærsti þátturinn. Og í öllum kjördæmum á Íslandi er þetta misjafnt eftir svæðum. Þetta er það sem gerir erfitt í framkvæmd að fara út í að hafa ákveðna vísitölu til grundvallar fyrir heil svæði.

Hugmyndin um hvort það eigi að leyfa að draga upphitunarkostnaðinn frá, þ.e. að gera hann frádráttarbæran frá skatti, hefur aftur á móti strandað á því að þá hafa menn spurt hvort þeir sem hafa stærstu húsin fengju þá ekki mestan frádráttinn og hvort það væri rökrétt í þessu sambandi.

Ég vil aftur á móti vekja athygli á því að við stöndum frammi fyrir því sem þjóð að sú skekkja sem er í kostnaðinum við að lifa í landinu hefur skapað verðfellingu á íbúðarhúsnæði mjög víða á Íslandi og við getum ekki annað en hugleitt hvaða aðgerðir við eigum að fara út í til að jafna þetta. Mér er ljóst að það er ekki hægt að varpa þeirri sök á einhvern einstakan mann, hvorki forsrh. né annan, að við erum í þessari stöðu. Á því bera allir íslenskir stjórnmálaflokkar ábyrgð. En ég undirstrika alveg sérstaklega í þessu sambandi að ef tekjuskatturinn á að jafna tekjur manna í reynd, lífstekjur manna, framfærslutekjur manna, hlýtur með einhverju móti að verða að taka tillit til framfærslukostnaðarins. Hvort hægt er að gera það eftir svæðum eða hvort leggja verður þar á persónulegt mat í miklu þrengri skilningi en áður hefur þekkst ætla ég ekki að dæma hér um, en tekjuskatturinn er ekki tekjujöfnunartæki nema hann horfi á þessa þætti einnig.