17.03.1987
Neðri deild: 67. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4461 í B-deild Alþingistíðinda. (4244)

391. mál, fæðingarorlof

Frsm. heilbr.- og trn. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég tel skylt að ræða bæði 391. mál og 392. mál nú við þessa framsögu og mæli því fyrir báðum málunum. Ekki bara til þess að flýta fyrir afgreiðslu mála í deildinni, heldur vegna þess að málin eru svo samtvinnuð.

Varðandi frv. til laga um fæðingarorlof mælum við í heilbr.- og trn. hv. deildar einróma með því að það verði samþykkt óbreytt. Ég vil sérstaklega leyfa mér að benda á í framhaldi af þeirri umræðu sem hér var s.l. nótt, vegna fsp. frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, að í 8. gr. frv. er úr því skorið að þeim verkalýðsfélögum sem kunna að hafa samið um eitthvað umfram það sem í lögum þessum greinir verður það ekki til trafala í því að ná fram þeim áföngum sem um getur í þessu frv.

Í ítarlegu nál. nefndar okkar varðandi breytingu á lögum um almannatryggingar, sem er næsta mál á dagskrá, tökum við fram eins og félagar okkar, hv. þm. í Ed. gerðu, að við vitnum til að sjálfsögðu ágætrar nefndar sem vann að þessum frv. og þá sérstaklega fæðingarorlofinu en þar áttu sæti Ingibjörg Rafnar, sem var formaður nefndarinnar, Salome Þorkelsdóttir, Jóhanna Sigurðardóttir, Jón Ásbergsson og Steinunn Finnbogadóttir.

Í Ed. voru gerðar nokkrar breytingar á frv. og það sem kannske er þýðingarmest er það að gert er ráð fyrir sama dagvinnustundafjölda og gildandi lög gera ráð fyrir, að í stað 1700 vinnustunda komi 1032 stundir til að fá fulla greiðslu fæðingardagpeninga og 516-1031 stund til þess að njóta hálfra dagpeninga. Við í nefndinni í Nd. tökum heils hugar undir það með heilbr.- og trn. Ed. að það beri að leggja mikla áherslu á það að reglur sem settar voru skv. reglugerð nr. 261 1983, um fæðingarorlof, varðandi greiðslur til bændakvenna, námsmanna og dagmæðra, haldist óbreyttar við mat á vinnuframlagi þótt það snerti ekki sjálft lagafrumvarpið. Lagaákvæði verða óbreytt hvað þennan þátt snertir. Þó þykir rétt að undirstrika þetta því að það er alls ekki ætlunin að þessir aðilar missi nein réttindi hlutfallslega þegar fæðingarorlof lengist úr þremur í sex mánuði á næstu þremur árum.

Heilbr.- og trn. deildarinnar telur líka rétt og nauðsynlegt að vekja athygli á því að í sambandi við lagafrv. þetta þá er nauðsynlegt að tryggja að lífeyrisréttindi foreldra skerðist ekki, t.d. með því að heimila foreldrum að greiða lífeyrissjóðsframlag þann tíma. Kallar þetta að sjálfsögðu á breytingu á lögum um lífeyrissjóði. Á sama hátt er nauðsynlegt að gera breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins varðandi lánsrétt svo foreldrar missi ekki réttindi í fæðingarorlofi. Þetta eru mikilsverð mál en þau eiga ekki að þurfa að tefja framgang þeirra mála sem hér eru til umræðu og endurtek ég þá að ég er að ræða um bæði málin, 391. og 392. mál.

Ég vil taka það fram að ein af þeim breytingum sem gerðar voru í Ed. mun víkja fyrir þeim breytingum sem við leggjum til í heilbr.- og trn., nefndin samhljóða. Við höfum haft samráð við einstaka nefndarmenn í hv. heilbr.- og trn. Ed., þar á meðal þá sem beittu sér fyrir brtt. þar, og þeir einstaklingar ásamt formanni nefndarinnar hafa fallist á þær breytingar sem við höfum nú lagt hér fram.

Og með þeim orðum, herra forseti, legg ég til að brtt. okkar á þskj. 1029 við 392. mál verði samþykktar og frv. vísað til 3. umr. og þar aftur til Ed.