17.03.1987
Neðri deild: 67. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4463 í B-deild Alþingistíðinda. (4246)

391. mál, fæðingarorlof

Frsm. heilbr.- og trn. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Það er erfitt að gera frú Guðrúnu til hæfis. Ég tek heilshugar undir þau orð hennar að það er náttúrlega engin mynd á því að vera að láta þingnefnd 40 þm. fá slíka lagabálka á síðustu dögum þingsins. Hitt er svo annað mál að við skulum hafa það í huga, a.m.k. hefur það verið í þau 28 ár sem ég hef setið hér á þingi að þá höfum við oft og tíðum treyst því að kollegar okkar í hinni deildinni, sem hafa haft slík mál til lengri tíma til skoðunar, geri það vel og vandlega. Hins vegar höfum við komist að því jafnvel þó á þessum fáu klst. sem við höfum haft til þess að skoða þetta mál að betur mætti gera. Og við vorum sammála um það að við vildum breyta til í sambandi við fæðingarstyrk þeirra sem fæða andvana barn. Meginbreytingar okkar í því sambandi voru varðandi bæði fæðingarstyrk til slíkra og einnig um fæðingardagpeningana. Um þetta erum við öll sammála þótt ekki tæki nema 1 klst. að komast að þessari niðurstöðu formlega. Hins vegar tók það margar fleiri klst. að ná samstöðu um þetta meðal allra aðila og líka félaga okkar í Ed. sem voru búnir að afgreiða málið frá sér. Ég er afskaplega ánægður með að þetta skyldi takast og ég veit að hv. síðasti ræðumaður er það líka, enda var hún mjög jákvæð í sambandi við þessa breytingu eins og allir aðrir sem komu að og við umræðu þessara mála, bæði formlega og óformlega og fyrir það þakka ég.