04.11.1986
Sameinað þing: 11. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í B-deild Alþingistíðinda. (425)

60. mál, erfðafjárskattur

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. svör hans, en ég hefði gjarnan viljað að hann hefði gefið yfirlýsingu um hvernig með þetta mál skyldi farið. Það er ljóst að hann vill standa við 18. gr. lánsfjárlagafrv. eins og það er, að þessar tekjur verði má segja gerðar upptækar í ríkissjóð, þessar umframtekjur, 41 millj. Það er býsna mikill peningur sem þar er á ferð og í raun og veru meiri peningur en ég átti von á að hefði verið tekinn af þeirri upphæð sem á að renna í Framkvæmdasjóð fatlaðra óskipt að mínu viti og allra þeirra sem um þessi mál hafa fjallað.

Það verður ekki hjá því komist, þó að það sé ekki tími til þess í knöppum fyrirspurnatíma, að minna á það hversu Framkvæmdasjóður fatlaðra hefur verið hart leikinn á undanförnum árum. Það er því ekki að ófyrirsynju að svona mál sé tekið upp þegar á að taka af sjóðnum eftir á svo háa upphæð sem svarar uppbyggingu líklega átta sambýla a.m.k., en það er talið að uppbygging hvers sambýlis kosti milli 5 og 6 millj. kr. í byggingu. Það er býsna mikið vegna þess að það er hátt í það jafnhá tala og sambýlin öll eru á landinu í dag.

Ég minni enn á að nýlega er komin fram skýrsla sem unnin var á vegum Þroskahjálpar um þessi mál sem sannar ótrúlega skerðingu síðustu ára þó þessi ósköp, sem hæstv. ráðh. upplýsti núna, kæmu ekki til ofan á allt annað. Ég minni á að 1980-1983, þegar viss skerðing var þó á og mun minni verkefni hvíldu á sambærilegum sjóðum, að raungildisupphæð á ári var 155 millj. á verðlagi 1. des. 1985, en Framkvæmdasjóður fatlaðra 1984-1986, með mun fleiri verkefni og mun hagstæðari lögboðin framlög og hærri ef lög hefðu verið haldin, er með raungildisupphæð á ári síðustu þrjú ár 94 á móti 155 á árunum áður. Ekki á hún að hækka eftir því sem fjárlagafrv. segir til um. Þetta allt veldur því að fólkið í Þroskahjálp, foreldrar hinna þroskaheftu, spyrja eðlilega hvers vegna í ósköpunum svo megi til takast um ótvíræða lagaskyldu, hvers vegna í ósköpunum Alþingi ógildi þannig svo sín eigin lög.

Ég hlýt enn þá að skora á hæstv. ráðh. og samráðherra, sem þessi mál snerta alveg sérstaklega, að leiðrétta nú og bæta í einhverju fyrir fyrri verk. Og eins og ég sagði áðan: Ef það er algerlega útilokað að hæstv. fjmrh. vilji skila þessum peningum á þann stað sem þeir eiga að fara að sjá þá til þess að Framkvæmdasjóður fatlaðra verði á næsta ári með sambærilega miklu hærra framlag en hann er í frumvarpinu í dag.