18.03.1987
Sameinað þing: 65. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4471 í B-deild Alþingistíðinda. (4292)

421. mál, stofnsamningur Evrópustofnunar fjarskipta um gervitungl

Frsm. utanrmn. (Haraldur Ólafsson):

Herra forseti. Þáltill. þessi kveður á um að ríkisstjórninni sé heimilt að fullgilda fyrir Íslands hönd stofnsamning Evrópustofnunar fjarskipta um gervitungl, „EUTELSAT“, sem lagður var fram til undirritunar í París 15. júlí 1982.

Hér er um að ræða mál sem Póst- og símamálastofnun leggur þó nokkra áherslu á að nái fram að ganga. Það gervitungl sem hér er um að ræða veitir svæðisbundna fjarskiptaþjónustu í Vestur-Evrópu, en geislar gervitunglanna ná einnig um hluta Austur-Evrópu og Norður-Afríku.

Þátttaka Íslands er fjárhagslega hagkvæm og áhættulítil. Gert er ráð fyrir að hlutafjáreign verði tengd notkun hvers ríkis á fjarskiptatunglunum, þar með talinn sjónvarpsflutningur milli landa. Lágmarkshlutafjáreign er 0,05% og stofnfé Íslands, sem lagt var fram sem hlutafé árið 1985, var rúmlega 614 000 kr., en arðsemin er áætluð um 14% á ári. Póst- og símamálastofnun telur að það sé fjárhagslegur ávinningur að því að koma á sambandi við önnur Evrópulönd um fjarskiptatungl þetta, m.a. vegna þess að afnotagjöld „EUTELSAT“ eru lægri en gjöld Alþjóðastofnunar fjarskipta um gervihnetti eða „lNTELSAT“ fyrir sambærilega þjónustu.

Utanrmn. hefur fjallað um þessa till. og leggur einróma til að hún verði samþykkt.