04.11.1986
Sameinað þing: 11. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í B-deild Alþingistíðinda. (433)

105. mál, endurmat á störfum kennara

Menntamálaráðherra (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Með bréfi dags. 12. des. 1984 skipaði þáverandi menntmrh. Ragnhildur Helgadóttir nefnd til að vinna að endurmati á störfum kennara. Nefndin var skipuð þrem fulltrúum frá Bandalagi kennarafélaga og þremur fulltrúum frá menntmrn. Nefndin hóf störf þegar og skilaði áliti sínu þann 28. febrúar 1985 eins og til var ætlast.

Eins og flestum mun kunnugt komst nefndin að þeirri niðurstöðu að kennarastarfið hefði breyst mikið á undanförnum einum og hálfum áratug, kröfur til kennara aukist og starf þeirra orðið fjölþættara. Í niðurstöðum nefndarinnar segir m.a. að hún dragi mjög í efa að mat frá 1970 á störfum kennara hafi verið réttmætt. Veigamiklir þættir í kennarastarfinu hafi ljóslega verið vanmetnir, þar á meðal sjálfstæði og frumkvæði, ábyrgð og áreynsla. Enn fremur segir í niðurstöðum að nefndin telji að þær breytingar sem orðið hafi á kennarastarfinu frá 1970 hafi verið mun meiri en hækkun á launum kennara gefi til kynna og virðist breytingarnar á starfinu því ekki hafa skilað sér sérstaklega í launum kennara.

Í ræðu hæstv. fjmrh. Þorsteins Pálssonar, er hann mælti fyrir frv. til fjárlaga í s.l. viku, kom fram að á þessu ári hafa laun kennara hækkað meira en laun opinberra starfsmanna innan BSRB og BHMR. Ætla má að umrædd endurmatsskýrsla hafi greitt fyrir í þeim efnum. En með leyfi forseta vil ég vitna til ræðu hæstv. fjmrh. þar sem hann segir: „Frá janúar til október á þessu ári hefur vísitala framfærslukostnaðar hækkað um rétt 7%. Á sama tíma hafa meðallaun ríkisstarfsmanna í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja hækkað um 18,6%, um 21,8% hjá háskólamönnum og um 28% hjá kennurum í Bandalagi kennarafélaga.“ Svo mörg eru þau orð. Það er álit þeirra sem til þekkja að endurmatsnefndin hafi skilað verki sínu vel og því ekki ástæða til að láta fara fram frekara mat á störfum kennara að sinni.