18.03.1987
Sameinað þing: 65. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4487 í B-deild Alþingistíðinda. (4333)

315. mál, varnir gegn mengun hafsins við Ísland

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Ég mæli fyrir brtt. við tillgr. á þskj. 1045. Breytingin felur í sér að sú ráðstefna sem tillögugreinin fjallar um að haldin verði hér um varnir gegn mengun við Ísland taki ekki eingöngu til þeirrar hættu sem fiskistofnum er búin af mengun af þessu tagi heldur einnig þeirrar hættu sem mannvist á norðurslóðum er búin af þessari mengun. Ef halda á ráðstefnu af því tagi sem hér um ræðir er nauðsynlegt að hún nái til þeirra sem á þurru landi búa en ekki eingöngu þess lífs sem í sjónum þrífst.

Hér er svo sannarlega um alvarleg mál að ræða. Ég hef áður á þessu þingi gert fyrirhugaða stækkun kjarnorkuversins í Dounreay á Skotlandi að umræðuefni og eins og fram kom í þeirri umræðu er ekki aðeins um lífsskilyrði í hafinu að tefla heldur einnig í þeim löndum sem í Norður-Atlantshafi liggja. Því er lagt til á þskj. 1045 að fyrirhuguð ráðstefna um þessi efni fjalli einnig um þá hættu sem mannvist á norðurslóðum er búin af þessari mengun.

Auk mín flytja þessa brtt. hv. þm. Haraldur Ólafsson, Eyjólfur Konráð Jónsson, Kjartan Jóhannsson og Hjörleifur Guttormsson og ég vil láta þess getið að 1. flm. upphaflegu till., hv. þm. Gunnar G. Schram, er einnig samþykkur þessari breytingu.