18.03.1987
Sameinað þing: 65. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4492 í B-deild Alþingistíðinda. (4341)

Verkfall framhaldsskólakennara

Menntamálaráðherra (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Með tilliti til þess, sem staðreynd er, að opinberir starfsmenn, þar á meðal kennarar, hafa fengið meira í sinn hlut en flestir aðrir í tíð núverandi hæstv. ríkisstjórnar er alveg augljóst mál að ríkisstjórn sem hv. 5. þm. Austurl. átti sæti í hefur ekki skilið alveg sérstaklega vel við, án þess að ég ætli að fara fleiri orðum um það. - Þar er einn félaginn úr þeirri ríkisstjórn sem ætlar nú að bæta um betur og afsanna orð mín sjálfsagt og gefst honum þá tækifæri til þess.

En ég ætla ekki að fara mörgum orðum um það heldur ítreka það, sem ég hef áður sagt, að ég tel að hina brýnustu nauðsyn beri til að gera kennarastarfið aftur að eftirsóknarverðu starfi eins og það vissulega var og til þess þurfum við að bæta kjör kennara.

Ég held á hinn bóginn að við munum ekki með löngum orðræðum og ströngum á hinu háa Alþingi bæta stöðuna í viðkvæmum viðræðum nú þótt ekki standi þennan klukkutímann yfir viðræður.

Ég verð að segja að ég hef sjaldan orðið fyrir meiri vonbrigðum en þeim þegar það upplýstist, eftir að mönnum höfðu verið gefnar góðar vonir að afloknum næturfundi kl. 5 að morgni, að þegar tekið var til daginn eftir skyldu kennarar bæta um betur og hækka verulega kröfur sínar. Ég held að hernaðarlistin sé eitthvað með öðrum hætti en maður hefur kynnst og kynntist hér áður fyrr hjá verkalýðshreyfingunni. Ég kannast ekki við þá hernaðarlist í samningaviðræðum þegar þannig stendur á að koma til baka örfáum klukkustundum síðar og tala um allt aðra hluti og hefur ekki styrkt að mínum dómi stöðu kennarasamtakanna.

En ég kom hér upp vegna fsp. frá hv. 5. landsk. þm., hvaða ráðstafanir ég hefði gert til að bæta mönnum upp, nemendum, það sem þeir verða nú af í námi. Ég hef engar ráðstafanir enn gert í þeim efnum og trúi því ekki fyrr en ég tek á að þetta verkfall verði langætt. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á. Ef því lýkur senn, og vika er auðvitað langur tími, treysti ég kennurum og skólastjórum til að taka þannig á málum að námsfólk fái það upp bætt.

Ég verð að segja að það væri skelfilegt til þess að hugsa ef verkfall nú þyrfti að dragast á langinn vegna fjölda námsmanna vegna þess að þetta gæti beinlínis haft hin alvarlegustu áhrif á, þótt stórt sé að orði kveðið, lífshlaup þeirra ef þeir ná ekki fram þeim áfanga sem þeir hafa stefnt að í námi sínu.