18.03.1987
Sameinað þing: 65. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4499 í B-deild Alþingistíðinda. (4349)

283. mál, sérkennsla

Menntamálaráðherra (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Að gefnu þessu tilefni vil ég taka það fram að ég skal verða við þessum tilmælum svo fljótt sem kostur er. Það er ekki fyrir það að synja að þetta er auðvitað viðamikið og vandasamt mál og menn eru ekki á eitt sáttir um hvernig úr hendi skuli fara. Auðvitað er þetta fyrst og fremst spurning um fjármagn. Það er ekki þjáningalaust að búa við það, þegar þörfin er mikil, að hafa ekki nóg fé handa í milli og vera svo kennt um að vilja ekki sinna þörfum barna og ungmenna. Þetta er spauglaust. Það má þó taka fram að okkur hefur skilað hratt fram á veg. Það hefur stóraukist fjármagn sem til þessara hluta hefur verið varið.

En ég skal, þegar menn eru á eitt sáttir um samsetning nýrrar reglugerðar, senda hana til þingflokksformanna og án þess að ég þori neinu að lofa nú í aðdrögum kosningabaráttu skal ég reyna að sjá svo til að undinn verði hinn bráðasti bugur að því.