04.11.1986
Sameinað þing: 11. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í B-deild Alþingistíðinda. (435)

105. mál, endurmat á störfum kennara

Menntamálaráðherra (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég vil nú ekki kalla að skýrsla sem skilað er í febrúar 1985 geti kallast rykfallin og þar við bætist að mér er fullkunnugt um að í allri umræðu um kjör kennara hefur þessi skýrsla verið hið verðmætasta plagg og eins og ég sagði geri ég fyllilega ráð fyrir því að hún hafi haft sitt að segja þegar kjör kennara voru bætt eða laun þeirra hækkuð svo sem raun ber vitni um. Ég var ekki þar með að segja að þau væru viðhlítanleg, kjör kennara og kaup þeirra. Það er öðru nær. Það hefur verið margrætt hér og það er leitað ýmissa leiða. Nýlega, í svari við fsp. frá hv. 5. þm. Austurl., fjölluðum við um þetta mál þar sem menntmrn. vill að sínu leyti leggja málefnum kennarastéttarinnar lið og inun leita til þess ýmissa ráða í samvinnu við kennarasamtökin. Ég minnti að vísu á að beinir samningar um kaup og kjör heyra ekki til míns friðar, en ég mun þó eftir bestu getu reyna að leggja þessum málum lið með vísan til þess að ástand þeirra er fjarri því að geta verið þolanlegt.