18.03.1987
Sameinað þing: 65. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4499 í B-deild Alþingistíðinda. (4350)

80. mál, fíkniefnamál

Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Reyndar hef ég ákaflega litlu við það að bæta sem fram kemur í þeirri skýrslu sem hér hefur verið lögð fram. Skýrslan er tekin saman að ósk hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og átta annarra þm. Alþfl. og er í samræmi við 30. gr, laga um þingsköp Alþingis.

Ég fól aðstoðarmanni mínum og þeirri nefnd sem ég hef skipað til að fjalla um fíkniefnamálin að taka saman þessa skýrslu og vona að þar sé svarað eins og frekast er unnt á þessari stundu þeim ýmsu spurningum sem óskað var svara við. Ég vil því fyrst og fremst í þessari stuttu umræðu, sem hér verður um þetta mál, leggja áherslu á að sú nefnd sem ég skipaði vinnur mjög ötullega að þessum málum. Það virðist vera ríkur skilningur hjá öllum þeim fjölmörgu aðilum sem hún hefur leitað til um aðstoð og upplýsingar, en því er ekki að neita að þetta er á æðimörgum höndum. Ég hef rætt þetta ítarlega við formann nefndarinnar og verð var við að sú staðreynd tefur dálítið fyrir störfum. Alls ekki það að ekki sé vel unnið og ekki það að áhugi sé ekki mikill. Hann er það eins og ég sagði áðan. En það eru æðimörg sjónarmið áhugasamra aðila sem þarf að samræma.

Ég hafði gert mér vonir um að tillögur nefndarinnar lægju fyrir áður en þessi skýrsla kæmi hér til umræðu. Því miður er það ekki enn. Mér er tjáð að þær tillögur sem nefndin hyggst senda ríkisstjórninni séu í síðustu yfirferð hjá meðlimum nefndarinnar og komi alveg á næstu dögum. Að sjálfsögðu verða þær þá þegar ræddar í ríkisstjórninni. Ég geri mér vonir um að í ríkisstjórninni verði tekin afstaða til þeirrar nefndar án nokkurrar tafar svo að ég, herra forseti, læt nægja hér að leggja þessa skýrslu fram til upplýsinga um þau mikilvægu atriði sem þarna eru og legg áherslu á að á þessum málum þarf að taka af miklu meiri festu en gert hefur verið, og miklu samræmdara en gert hefur verið kannske fyrst og fremst, því að þó að það séu margir aðilar að vinna að þessum málum finnst mér, af því sem ég hef séð, vera skortur á að átakið sé samræmt.