04.11.1986
Sameinað þing: 11. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í B-deild Alþingistíðinda. (437)

110. mál, framkvæmdir við Egilsstaðaflugvöll

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Með bréfi dags. 6. febrúar 1984 var skipuð sérstök nefnd til að vinna að tillögugerð um framkvæmdir í flugmálum og var nefndinni falið auk slíkrar áætlunargerðar að gera tillögur um tekjustofna og fjárframlög til flugmálaframkvæmda og starfsemi flugmálastjórnar. Í skipunarbréfi nefndarinnar var getið nokkurra verkefna, þar með talinn Egilsstaðaflugvöllur, sem nefndin skyldi athuga sérstaklega. Lokaskýrsla flugmálanefndar hefur nú nýverið borist ráðuneytinu og er þar til athugunar, en áfangaskýrsla um Egilsstaðaflugvöll var send ráðuneytinu í febr. 1985.

Í áfangaskýrslunni eru raktar helstu athuganir og úrbótatillögur sem fram hafa komið vegna flugvallar við Egilsstaði og er nefndin sammála um að einu raunhæfu úrbæturnar felist í flutningi núverandi brautar. Flutningurinn ræðst m.a. af því að ella

þyrfti að skipta um yfirborð flugbrautarinnar sem nú er, en slíkt er afar kostnaðarsamt og lokar vellinum um langan tíma án þess að úrlausn fengist á verulegum blindflugsannmörkum. A.m.k. tvær megintillögur hafa verið á lofti um legu hinnar nýju brautar. Leggur nefndin til að lögð verði braut vestan við núverandi braut nær Lagarfljóti með það einkum í huga að þannig fáist verulegar flugöryggisúrbætur með sem minnstri röskun fyrir byggðina umhverfis flugvöllinn. Stefnt verði að því að hin nýja braut verði 2000 m og malbikuð. Nefndin lét kanna kostnað við þessa flugbrautargerð og varð niðurstaðan um 150 millj. kr. miðað við verðlag í janúar 1986. Nefndin taldi að hægt yrði að takmarka sig við 1500 m braut í byrjun sem kostaði ca. 115 millj. kr. miðað við verðlag í janúar 1986, en vildi láta útboð ráða hvor leiðin yrði farin. Æskilegur framkvæmdahraði var talinn þrjú ár.

Nefndin velti fyrir sér möguleikum á fjármögnun framkvæmdanna úr Norræna þróunarsjóðnum, en taldi að öðru leyti að varið skyldi fé af fjárlögum til þeirra.

Hv. fyrirspyrjandi spyr hvenær ráðgert sé að framkvæmdir hefjist við nýbygginguna. Það ætti ekki að þurfa að fjölyrða um það hér á Alþingi að ákvarðanir um fjárfestingar í flugmálum eru teknar frá ári til árs við afgreiðslu fjárlaga. Langtímamótun og stefnumörkun hefur ekki náð fram að ganga í þessum þætti samgöngumála líkt og gildir um vegamál. Mætti hér minna á ályktun Alþingis frá 1978, um markmið og leiðir í flugmálaframkvæmdum, sem varð á samri stundu að markleysu vegna fjárskorts.

Í skýrslu flugmálanefndar, sem áður er getið um, er að finna tillögur að frv. til l.um flugmálaáætlun og fjáröflun til framkvæmda í flugmálum. Frumvarpsdrög þessi eru nú til athugunar hjá ríkisstjórn og er stefnt að því að leggja þau fram á yfirstandandi þingi. Nái frv. þetta fram að ganga er von til þess að kjölfesta náist í uppbyggingu þessa mikilvæga málaflokks, kjölfesta sem leiðir til þess að unnt verði með skipulegum hætti að ganga svo frá flugvöllum og flugleiðsögutækjum að til sóma sé.

Ég vil aðeins bæta því við að ég tel að það sé nauðsynlegt að leggja fram langtímaáætlun í flugmálum þar sem verði komið inn á varaflugvöll fyrir landið, þar hefur helst komið til greina varaflugvöllur á Sauðárkróki, uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar, flugstöðvarbyggingu á Reykjavíkurflugvelli og lagningu bundins slitlags á helstu áætlunarflugvelli á landinu. En hvað sem líður fjáröflun, hvort sem samkomulag næst um það á þessu þingi eða ekki, hef ég mikinn áhuga á því að leggja fram till. um langtímaáætlun í flugmálum á þessu þingi líkt og gert var á sínum tíma í vegamálum.