18.03.1987
Efri deild: 71. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4512 í B-deild Alþingistíðinda. (4372)

422. mál, almannatryggingar

Frsm. heilbr.- og trn. (Helgi Seljan):

Virðulegi forseti. Þetta frv. kom frá Nd. þar sem það hafði verið flutt af hv. heilbr.- og trn. þeirrar deildar. Þetta frv. er flutt til að tryggja öryrkjum áfram ákveðið forskot fram yfir hinn almenna bifreiðakaupanda svo sem verið hefur um langt árabil. Í fyrra varð á þessu veruleg breyting vegna almennrar lækkunar tolla og aðflutningsgjalda af bifreiðum, en í formi ákveðinnar eftirgjafar þessara gjalda fólst sú réttarbót öryrkjum til handa sem gilt hafði.

Breytingin var vegna skorts á lagaheimildum til annarrar ívilnunar en þessarar eftirgjafar svo upphæðin fór niður í og niður fyrir 25 þús. kr. á bifreið eftir heildarverði og allt niður undir 12 þús. kr.

Ég rek ekki gang þessa máls hér á þingi varðandi þetta, en ákvörðun ríkisstjórnarinnar liggur nú fyrir um ákveðna mjög viðunandi úrlausn öryrkjum til handa en með mjög breyttri skipan mála. Þessi hlunnindi, ef svo má kalla, miðast nú við 600 bifreiðir á ári handa öryrkjum almennt og ég hygg að sú upphæð, sem kemur skv. 1. gr. þessa frv., muni verða um 80 þús. fyrir hvern öryrkja.

Hitt ákvæðið varðar svo meira fatlaða, meira hreyfihamlaða og þar er um 50 einstaklinga að ræða á ári og þar mun upphæðin nema að því er ég best veit, eða mun trúlega verða niðurstaðan, um 250 þús., enda dýrar bifreiðir einar sem til greina koma með miklum sérbúnaði.

Þessi skipan mála mun verða afturvirk eins og kemur fram í frv. og eiga við þá sem fengu sínar bifreiðir í fyrra og bjuggu þá við skarðan hlut. Breyting verður á úthlutun þessari frá því sem verið hefur, en nefnd lækna undir forsæti fulltrúa fjmrn. hefur tekið umsóknir til afgreiðslu og valið úr.

Það skal tekið fram að umsóknir hafa ætíð verið miklu fleiri en unnt er að veita úrlausn og því er viðbótin nú, um 50 bifreiðir, frá 550 upp í 600, og úr 40 upp í 50 sem ákvörðun mun hafa verið tekin um, mjög kærkomin og leysir örugglega vanda margra en eins og menn þekkja eru leyfi einungis veitt á fjögurra ára fresti minnst til hvers einstaklings.

Nefndin hefur fjallað um þetta frv. og vísar mjög til þess sem sagt var í Nd. um þetta. Ég vísa sérstaklega til framsögu hv. þm. Ólafs G. Einarssonar sem var frsm. heilbr.- og trn. en sem um leið er formaður tryggingaráðs og var þar að lýsa þeim áhyggjum öryrkja sem eru varðandi þessar breytingar, m.a. hvað snertir væntanlega reglugerðarsetningu sem nú eru þegar til drög að og ég hef reyndar vitnað í varðandi upphæðir hér áður og þær reglur sem settar verða hjá tryggingaráði varðandi frekari útfærslu. Út af fyrir sig skilur maður það að uppstokkun þessi og ákveðin óvissa valdi áhyggjum.

Hins vegar held ég að við getum verið þess fullviss að þetta verði gert í fullu samráði við samtök öryrkja og að fulltrúar þeirra komi þarna inn, svo sem ég hygg og raunar veit að uppi eru áform um, og m.a. í þeirri úthlutunarnefnd sem mun fjalla um þessi leyfi í framtíðinni.

Sama er að segja um það að öryrkjar hafa nokkrar áhyggjur af því að þær upphæðir sem nú er verið að tala um verði ekki nægilega vel verðtryggðar í framtíðinni. Ég held að við höfum einnig fullvissu um það að svo verði enda ekkert annað í raun mögulegt og engum á því stætt að standa ekki að fullu hér við, m.a. til að mæta verðsveiflum á kaupverði bifreiða upp á við, ef þær væru miklar, og eins ef verðbólguþróun færi mjög úr böndum.

Nefndin vill því lýsa því yfir að í öllu mun verða tekið fyllsta tillit til sanngjarnra óska öryrkja um reglugerðarsetningu, svo og reglur tryggingaráðs og vitnar þar beinlínis í annars vegar hæstv. heilbr.- og trmrh., sem kom inn á þetta mál í Nd., og eins og ekki síður í formann tryggingaráðs, hv. þm. Ólaf G. Einarsson, en ræður þeirra er ég með hér undir höndum og staðfesta þær þetta samráð við öryrkja um bæði reglur tryggingaráðs, reglugerðarsetningu ráðuneytis og í þriðja lagi það hvernig úthlutun fer fram í framtíðinni.

Að öðru leyti hljótum við að leggja þann skilning í framkvæmd og framtíðarmeðferð þessa máls að núverandi tollaívilnun, sem er eitthvað á bilinu 12-15 til 25 þús. kr. að viðbættum söluskatti, gildi áfram og sú upphæð sem hér er verið að tala um, 80 þús. kr., sé bein greiðsla til viðbótar. Þó að endanleg ákvörðun hafi ekki verið tekin hér um, þá eru vitanlega lög gildandi hér um tollaívilnunina og þetta hlyti þá að koma til beinnar viðbótar.

Nefndin mælir sem sagt með samþykkt frv. óbreytts frá því að það kom frá Nd. í trausti þess að reglur verði settar um nánari framkvæmd alveg á næstunni, enda komið að því að leyfi þessa árs verði send út.