18.03.1987
Efri deild: 71. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4517 í B-deild Alþingistíðinda. (4379)

416. mál, tollskrá

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Nefndarmenn úr fjh.- og viðskn. hafa komið hér hver á fætur öðrum upp í ræðustól til þess að fjalla um brtt. á þskj. 1040. Frsm. nefndarinnar hefur fjallað um það að málið hafi komið einkennilega fram í hv. Nd. en þeir hafa látið vera að láta okkur þm. deildarinnar vita um hvaða efni er verið að fjalla.

Við höfum heyrt hér talað um það að það gæti forðað skíðaslysum eða einhverju slíku. (Gripið fram í: Skíði og skíðabúnaður.) Skíði og skíðabúnaður. Já, þar kemur það frá formanni nefndarinnar að það sé verið að ræða um skíði og skíðabúnað. En hvað er það nákvæmlega útfært? Eru þetta bindingarnar, skíðin, stafirnir, peysurnar og sokkarnir og hvað annað í þessum efnum. (Gripið fram í: Og föðurlandið.) Og föðurlandið. Ég held nú að það sé æskilegt, fyrst farið er að fjalla svona rækilega um þessa brtt. að við fáum að vita hvað í henni felst. (Gripið fram í.) Formaður nefndarinnar ætlar nú að fara að fletta í þeim stóra doðrant sem hann upplýsti að hann væri vel kunnugur í. Það er erfitt að fá þessar upplýsingar.

En inn í þessa umræðu fléttast nokkuð annað og það voru fréttir af fundi hæstv. sjútvrh. norður á Sauðárkróki. Ég vildi nefnilega vekja sérstaka athygli á því að svo virðist sem fréttastofa útvarpsins a.m.k. og jafnvel fréttastofa sjónvarps telji sérstaka ástæðu til þess að fylgja ráðherrum Framsfl. hringinn um landið og taka upp hvað þeir segja á svona áróðursfundum eins og þeir hafa verið að halda síðustu daga vítt um landið, m.a. sjútvrh. Megum við aðrir frambjóðendur búast við því að Ríkisútvarpið sinni því sem við komum til með að segja vítt um landið svipað og þarna hefur átt sér stað í sambandi við áróðursfundi framsóknar? Ég held að við hljótum að verða að ætlast til þess að við fáum að heyra hvað við höfum að segja í sambandi við það hvað hnúfubakurinn t.d. innbyrðir mikið af loðnu. Það hefur verið tíundað í útvarpinu að hnúfubakurinn muni innbyrða um 1500 tonn á ári o.s.frv. samkvæmt upplýsingum hæstv. sjútvrh. Og að sjútvrh. sé mjög óánægður með það hvað fjmrh. hefur rekið ríkissjóð illa, og það eru náttúrlega fleiri, og ýmsar aðrar upplýsingar úr ræðum sjútvrh. hafa birst í ríkisfjölmiðlunum sérstaklega. Ég held að þetta séu einu pólitísku fundirnir sem eru tíundaðir sérstaklega á vegum ríkisfjölmiðlanna. Látum vera þó að Tíminn birti þetta eins og hann birti greinilega fréttir af þessum fundum. (StB: Enda nær hann til almennings.) En þegar farið er að nálgast kosningar þá finnst mér þetta óeðlilegur fréttaflutningur, nema þá að Ríkisútvarpið ætli að sinna á næstu dögum hverjum og einum pólitíska fundi eins og gert hefur verið í sambandi við þessa fundi hæstv. sjútvrh.

Ég ætti kannske ekki að lengja þessar umræður. (BD: Heyrði þm. ekki auglýsingar Skíðasambandsins?) Nei, því miður hef ég nú ekki heyrt auglýsingar Skíðasambandsins, er það þegar farið að auglýsa þessi tollfríðindi? (BD: Það sé tekið vel eftir því hvernig þeir greiða atkvæði í þessari deild.) Ja, það er ekki neinn vafi um það að ég mun greiða atkvæði með því ef verið er að undanþiggja skíðabúnað og tel það bara sjálfsagt. Það hefði kannske mátt vera um fleiri íþróttabúninga að ræða en þarna er nefnt, ég er einmitt að bíða eftir því að fá frekari upplýsingar um þetta. (EKJ: Þær eru að koma.) Þær eru komnar. Þá mun ég ekki hafa ræðu mína lengri og bíð eftir því að fá upplýsingar um hvað þetta er raunverulega.