04.11.1986
Sameinað þing: 11. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í B-deild Alþingistíðinda. (438)

110. mál, framkvæmdir við Egilsstaðaflugvöll

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir greinargóð svör við mínum fsp. þó að þar kæmi engan veginn fram neitt sem snerti framkvæmdir við Egilsstaðaflugvöll, en hins vegar áætlaðar kostnaðarupplýsingar og æskilegur framkvæmdahraði. Í ár mun reiknað með skv. frv. til fjárlaga að verja 60 millj. kr. til framkvæmda í flugmálum og er það heldur lægri upphæð í krónum talið en á síðasta ári. Þessi staðreynd gerir það auðvitað að verkum að menn gera sér litlar eða engar vonir um að tekið verði á brýnu verkefni og stóru eins og endurbyggingu Egilsstaðaflugvallar. Hæstv. ráðh. upplýsti að kostnaðurinn næmi á verðlagi í janúar s.l. 150 millj. kr., þ.e. tvisvar og hálfri þeirri upphæð í krónum talið sem er til ráðstöfunar samtals til framkvæmda á þessu sviði. Þetta talar auðvitað sínu máli um það hvernig hæstv. ríkisstjórn stendur að þessum málaflokki, þessum þætti samgöngumálanna, og er það sannast sagna hreint hörmulegt hversu lítið er gert fyrir þennan þátt samgangna, framkvæmdir í flugmálum innanlands. Þýðing þeirra er æ meiri fyrir landsmenn alla, en auðvitað sérstaklega íbúa landsbyggðarinnar sem búa við þessar samgöngur og þurfa meira á þeim að halda en höfuðborgarsvæðið.

Það segir síðan sitt um áherslur stjórnvalda hvernig staðið hefur verið að uppbyggingu nýrrar flugstöðvar í Keflavík á sama tíma og flugmálin innanlands hafa verið í algeru svelti og fyrir neðan allar hellur. Sú framkvæmd hefur verið keyrð áfram og til hennar varið í ár um 1 milljarði kr. sem er meira en samanlagt til allra verkefna ríkis og sveitarfélaga í landinu, sameiginlegra verkefna þeirra, sem gengur í þessa einu framkvæmd. Hafa menn þó bjargast við það sem er í Keflavík fram undir þetta. Stórveldafundur fór hér fram með mikilli umferð og ekki var sérstaklega að því fundið að menn kæmust ekki í gegn í Keflavík. Tel ég þó út af fyrir sig enga goðgá að hugað sé að slíkri framkvæmd, en hér er ekki staðið rétt að málum.

Það verður sýnilega nýrrar ríkisstjórnar að taka á fjármögnunarþætti flugmálanna. Ég geri ekki lítið úr áhuga hæstv. samgrh. sem fagráðherra þessara mála að þoka þeim fram, en hann orkar greinilega, herra forseti, afar litlu í þessum efnum. Það sýna þær tölur sem menn hafa búið við í framkvæmdum til þessara mála.