18.03.1987
Neðri deild: 69. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4521 í B-deild Alþingistíðinda. (4394)

Afgreiðsla frumvarps um almannatryggingar

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Á fundi Nd. í nótt vakti ég athygli á því að frv. til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, sem er 79. mál þingsins, flutt af hv. þm. Helga Seljan, og snertir aðild Þroskahjálpar og Öryrkjabandalagsins að Tryggingaráði ríkisins, hefði verið stöðvað að því er mér sýndist þá. Þá var því lýst yfir af formanni hv. heilbr.- og trn. Nd. að boðaður yrði fundur í þeirri nefnd núna í dag eða fyrir hádegi í dag til þess að afgreiða málið og taka það fyrir.

Nú sé ég dagskrá þessa fundar Nd. og þetta mál er ekki á dagskrá. Þetta mál fór í gegnum Ed. með fullu samkomulagi. Mér finnst það býsna sérkennilegt ef nú á að stöðva þetta mál og meðferð þess í þinginu og ég vil því spyrja hæstv. forseta í framhaldi af orðum hans í nótt þegar hann sagði að hann mundi fylgja málinu eftir hvað hann hefur gert til þess að tryggja að niðurstaða heilbr.- og trn. fáist í þessu máli þannig að þetta samkomulagsmál allra þingflokka í Ed. fáist afgreitt hér í hv. Nd.