18.03.1987
Neðri deild: 70. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4524 í B-deild Alþingistíðinda. (4403)

363. mál, póst- og símamál

Frsm. samgn. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Þessu máli var vísað til nefndarinnar fyrir tveimur dögum. Þetta er nokkuð viðamikið frv. með 43 greinum. Það verður að játa að ekki hefur verið hægt að athuga þetta mál eins og skyldi á þessum tíma. Nefndin fékk Magnús Jóhannesson siglingamálastjóra og Ólaf Steinar Valdimarsson ráðuneytisstjóra á sinn fund og þeir skýrðu málið fyrir nefndinni. Við í samgn. Nd. höfum reynt að hafa þau vinnubrögð að fara nokkuð vel ofan í þau frv. sem okkur berast en í þeim önnum sem hafa verið hefur það bara alls ekki tekist. Slík vinnubrögð eins og hafa verið viðhöfð undanfarna daga er náttúrlega varla hægt að búa við.

Ég held að ýmis mál hafi farið hér í gegn án þess að menn hafi í raun og veru gert sér fulla grein fyrir því hvað þeir voru að gera. Þannig hefur það a.m.k. verið með þann sem hér stendur og ég hef orðið var við það að þeir sem í kringum mig hafa verið hafa ekki fylgst nægilega með þessari afgreiðslu.

Þrátt fyrir þetta leggur nefndin til að frv. verði samþykkt óbreytt. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon skrifar undir með fyrirvara.