18.03.1987
Neðri deild: 70. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4524 í B-deild Alþingistíðinda. (4407)

405. mál, eftirlit með skipum

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég skrifaði undir nál. samgn. Nd. um frv. til laga um eftirlit með skipum með fyrirvara. Fyrirvari minn lýtur fyrst og fremst að því, sem reyndar kom fram í máli frsm., að samgn. hafði nánast engin tök á því að kynna sér þetta mál eins og skyldi. Það litla sem ég hef getað athugað þetta frv. sýnist mér það í raun og veru að flestu leyti þarft, en hér er verið að flytja frv., allmikinn lagabálk, til samræmingar á lögum og breytingum sem orðið hafa á lögum sem snerta siglingar og sjómennsku og síðustu tvö þing hafa eytt verulegum tíma í. Ég nefni þá miklu vinnu sem fór í siglingalög á sínum tíma, sjómannalög. Það er því að mínu viti mjög óheppilegt að þetta lagafrv., sem má heita fylgifiskur þeirra frv. og er að hluta til ætlað til að samræma ákvæði sem þar voru sett og þar var breytt, skuli eiga að ganga í gegnum hv. Alþingi á svo skömmum tíma sem raun ber vitni og ég skrifa fyrst og fremst undir með fyrirvara sem mér finnst skylt að hafa á þegar hv. alþm. verða að láta sig hafa það að vinna að málunum með þeim hætti sem hér er ætlast til.

Að öðru leyti held ég að frv. sé að flestu leyti til bóta að svo miklu leyti sem mér er innihald þess ljóst.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað