18.03.1987
Neðri deild: 70. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4526 í B-deild Alþingistíðinda. (4411)

430. mál, framleiðsla og sala á búvörum

Frsm. minni hl. landbn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Virðulegur forseti. Þetta mál, 430. mál sem kemur frá Ed., frv. til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, svonefndum búvörulögum, gengur út á það að lengja um tvö ár ákvæði 36. og 37. gr. gildandi laga um greiðslu útflutningsbóta annars vegar og hins vegar fjármagn sem renna skal í Framleiðnisjóð landbúnaðarins. Afstaða minni hl. landbn. er sú að þessar breytingar gangi til réttrar áttar, en þær gangi of skammt, eða tíminn sem þarna er ætlaður sé of skammur. Auk þess er það skoðun minni hl. að í ljósi þeirrar gagnrýni, þeirra athugasemda sem komið hafa fram vegna framkvæmdar búvörulaganna, sérstaklega ákvæða um fjárveitingar úr Framleiðnisjóði, væri rétt, úr því að verið er að breyta lögunum á annað borð, að flytja ákvæði sem kveða skýrar á um hvernig ráðstafa skuli fjármagni úr Framleiðnisjóði.

Sú gagnrýni hefur m.a. lotið að því að það brjóti gegn þeim anda sem lagður var til grundvallar við samþykkt búvörulaganna og m.a. var notað til að fá ýmsa aðila innan landbúnaðarins til að fallast á eða láta góða heita þá lagasetningu sem unnið var að á vormánuðum 1985 út á það fjármagn sem renna ætti í Framleiðnisjóð landbúnaðarins og nota skyldi til uppbyggingar og til að mæta áhrifum af samdrætti í búvöruframleiðslunni. Þetta hafa menn skilið þannig, og sá sem hér talar m.a., að þar með væri verið að ákveða að það fé skyldi notað samkvæmt orðanna hljóðan til uppbyggingar og til að mæta áhrifum samdráttarins, en ekki, eins og raunin hefur orðið á, til að kalla fram enn frekari samdrátt, jafnvel til þess að kaupa upp framleiðsluréttinn eða taka á Framleiðnisjóð miklar byrðar vegna samninga ríkisvaldsins við bændur.

Því er flutt um það sérstök brtt. á þskj. 1050 að þarna verði breytt um orðalag og kveðið afdráttarlaust upp úr um það að ekki sé heimilt að nota það fé sem í Framleiðnisjóð rennur til að stuðla að frekari samdrætti búvöruframleiðslunnar en leiðir af öðrum ákvæðum laganna og jafnframt að ekki skuli heldur lagðar á Framleiðnisjóð byrðar vegna samninga ríkisvaldsins við samtök bænda um verðábyrgð á tilteknu magni mjólkur- og sauðfjárafurða, sbr. 30. gr. þessara laga.

Væri orðalagi 37. gr. breytt með þessum hætti þa væri það væntanlega orðið ótvírætt að ráðstöfun fjár úr Framleiðnisjóði á borð við það sem átti sér stað á s.l. ári væri óheimil og ólögleg og bryti klárlega gegn anda laganna. Ég er reyndar þeirrar skoðunar og hef haldið því fram áður úr þessum ræðustóli að þessar ráðstafanir brjóti gegn ákvæðum gildandi laga. En orðalag þeirra er þó óljósara hvað þetta varðar og þar eru ekki tekin af tvímæli með málsgreinum sem beinlínis banna slíka ráðstöfun þó að ég kjósi og hafi kosið að skilja ákvæði 37. gr. laganna á þann hátt að þetta sé í raun óheimilt.

Brtt. mínar ganga svo auk þess út á það að lengja þennan aðlögunartíma sem 36. og 37. gr. gera ráð fyrir og í stað þess að lengja hann um tvö ár, eins og frv. meiri hl. landbn. Ed. gerir ráð fyrir, yrði hann lengdur um fimm ár og næði fram á og með árinu 1995 í báðum tilfellum.

Enn fremur er svo að lokum flutt brtt. á þskj. 1050 um að við lögin bætist svofellt ákvæði til bráðabirgða, með leyfi forseta:

„Alþingi felur ríkisstjórninni að láta þegar hefja undirbúning að heildarendurskoðun laganna og skipa nefnd með fulltrúum allra þingflokka sem í samráði við hagsmunaaðila vinni það verk og leggi fyrir næsta þing.“

Ég hygg að þær breytingar, sem stjórnarmeirihlutinn er einmitt hér að gera á búvörulögunum, sanni það í raun og veru betur en mörg orð og langar ræður að æskilegt hefði verið að mönnum hefði gefist meiri tími til að vanda sig betur þegar lögin voru sett á sínum tíma og þá hefðu menn þegar í upphafi sett niður fyrir sér lengri aðlögunartíma eins og reyndar var klárlega á bent á þeim tíma að nauðsynlegt og óhjákvæmilegt væri. Jafnmiklar breytingar á högum bænda og landbúnaðarins og boðaðar voru í lögunum vorið 1985 á jafnskömmum tíma gætu ekki gengið fyrir sig nema með meiri háttar röskun og vandræðum og því hefði verið nauðsynlegt að lengja þegar í stað aðlögunartímann, einnig til þess að við stjórnun búvöruframleiðslunnar væri hægt að leggja til grundvallar lengri samninga og gefa bændum þannig fast land undir fætur til lengri tíma svo að þeir væru ekki nánast frá ári til árs að skipuleggja sinn búrekstur út í óvissa framtíð.

Ég held að ég þurfi ekki að hafa um þetta fleiri orð, herra forseti, en vísa aftur til þess að í raun og veru er tilvist þessa frv. sönnun á því að þær gagnrýnisraddir, sem hafðar voru uppi um þetta atriði laganna, hafa reynst á rökum reistar.

Það er enn fremur ástæða til að halda því til haga, eins og reyndar gert er í nál. minni hl. landbn. Ed. þar sem birt eru nál. 1. minni hl. landbn. frá því við afgreiðslu laganna vorið 1985, að Alþb. varaði harðlega við þeim vinnubrögðum sem þar voru viðhöfð þegar búvörulögin voru sett á mjög knöppum tíma á vordögum. Eins og ég hef þegar sagt hefur það margoft komið í ljós að þá hefði verið heppilegra að menn hefðu haft meiri tíma og e.t.v. ráðlegra að menn hefðu þá farið að ráðum minni hlutans og lagt þau lög fyrir betur undirbúin að hausti en ekki unnið að setningu þeirra með þeim hætti sem raun bar vitni.

Það er engin spurning að það er til bóta að framlengja þennan aðlögunartíma. Og þó það væri ekki neitt annað en það, burtséð frá innihaldi frv., að við þann tíma sem bændur sjá í lögum að þeir hafa bætast tvö ár, þá er það kostur í sjálfu sér. Mér liggur við að segja án tillits til þess hvað þar væri boðað að öðru leyti, þ.e. það er strax til bóta að stefnumörkun liggi fyrir lengra fram í tímann þannig að menn viti að hverju þeir ganga og að hverju þeir eiga að stefna. Það er auðvitað alveg ljóst að í sambandi við allar fjárfestingar og ákvarðanir um meiri háttar framkvæmdir, mannvirkjagerð og annað af því tagi, þá er það óviðunandi fyrir þá sem standa í þessum atvinnurekstri, eins og reyndar öðrum, að vita nánast ekkert hvað þeirra bíður handan við sjóndeildarhringinn eða innan tiltölulega mjög fárra ára.

Þegar tekin hefur verið upp stjórnun í atvinnuvegi með þeim hætti sem þessi lög og ákvæði á grundvelli þeirra hafa gert, þá er það enn mikilvægara að sú stjórnun styðjist við einhverja yfirlýsta markaða eða lögbundna stefnu sem liggi fyrir eitthvað fram í tímann þannig að menn geti frekar aðlagað sinn rekstur að þeim horfum sem þar koma fram.

Það hefði verið freistandi, herra forseti, að ræða ofurlítið um stöðu landbúnaðarmálanna almennt þegar þessi lög eru hreyfð hér á þinginu og opnuð upp, en ég býst ekki við að það yrði mjög vinsælt ef sett yrðu á mjög löng ræðuhöld um það tiltekna efni nú á þessum síðasta sólarhring þinghaldsins, ef guð lofar. Ég vil þó segja það að birgðamál, þrátt fyrir þá samninga sem gerðir hafa verið, eru ekki í jafngóðu lagi og æskilegast væri og í raun og veru er ófrágenginn mikill vandi sem velt hefur verið á undan, einkanlega í sauðfjárbúskapnum alla tíð frá því að þessi lög voru sett og reyndar lengur. Og það er auðvitað mjög bagalegt þegar verið er að lengja þennan tíma með þessum hætti að ekki skuli þá liggja neitt fyrir um það hvernig eigi að taka á þeim vanda.

Ég hygg að það væri öllum til bóta að viðurkenna það að þar verður í eitt skipti fyrir öll, ef þess er nokkur kostur, að grípa til ráðstafana þannig að birgðahaldið komist í eðlilegt horf og menn haldi ekki áfram að rúlla á undan sér með tilheyrandi kostnaði og tjóni og neikvæðum áhrifum á markaðsog sölumál afurðanna birgðavanda af því tagi sem gert hefur verið undanfarin ár. Auðvitað þyrfti þá til að koma viðbótarfjármagn þegar gert væri sérstakt átak til að koma þessum málum í eðlilegt horf.

Eitt af því sem ég gagnrýndi líka á sínum tíma, herra forseti, var það að ekki lægi fyrir nein stefnumörkun um niðurgreiðslustig og stefnumörkun um æskilegt vöruverð í búvöruframleiðslunni. Sama staða, nákvæmlega sama staða er uppi á teningnum enn þann dag í dag. Niðurgreiðslur hafa verið rokkandi, reyndar lengst af jafnt og þétt lækkandi í tíð þessarar ríkisstjórnar, en þó hafa þar verið tekin ýmis stökk, gjarnan með skyndiákvörðunum þegar bjarga hefur þurft tilteknum vandamálum fyrir horn, annaðhvort í sambandi við kjarasamninga og búvöruverðshækkanir eða af einhverju öðru tagi. Þetta er auðvitað afar óheppilegt og ég tel mér ekki fært annað en víkja að þessu nokkrum orðum vegna þess að það er mjög bagalegt að enn skuli þessi háttur vera hafður á, að í raun og veru liggi engin stefnumörkun fyrir um niðurgreiðslustig og æskilegt opinbert aðhald eða opinbera þátttöku í því efni að halda búvöruverðinu innan hóflegra marka og tryggja að það sé í einhverju eðlilegu samræmi við kaupgetu almennings í landinu.

Ég held að þessum málum verði aldrei komið í farsælt horf nema að þar sé tryggt eitthvert tiltekið jafnvægi eða samhengi á milli, að verðlagning búvaranna sé þannig að þessar daglegu neysluvörur séu ekki dýrari en svo, eða það ódýrar skulum við segja, að hvert og eitt heimili í landinu geti veitt sér að kaupa af þeim nægjanlegt magn og helst sem mest.

Ég held, og það er stefna okkar þm. Alþb., að með því að lengja þennan aðlögunartíma um fimm ár og þannig að fyrir lægi átta ára tímabil sem væri til ráðstöfunar til að grípa til margvíslegra skipulagsráðstafana í landbúnaðinum, þá mætti að slíku tímabili loknu gera sér vonir um að staða þessara mála væri komin í mun vænlegra horf en nú er. Það er ekki í samræmi við þær alvarlegu horfur sem eru m.a. í byggðamálunum að hér skuli vera flutt á síðustu dögum þingsins þegar lítill tími er til umfjöllunar, frv. um þessa viðbót við aðlögunartímann án nokkurra annarra fylgiráðstafana og án þess að tími gefist þá til ítarlegra umræðna um stefnumörkun í landbúnaðarmálum að öðru leyti.

Þess er e.t.v. varla von að þessi ríkisstjórn fari á síðustu ævidögum sínum að leggja fram mjög bitastæða hluti í þessum málaflokki. Það hefur verið heldur magurt sem frá henni hefur komið að mínu mati og margt heldur mislukkað, enda gjarnan gagnrýnt af engum mönnum jafnharðlega og hv. þm. stjórnarliðsins, einstökum þm. stjórnarliðsins. Forseti kannast eflaust við það, a.m.k. forseti sameinaðs Alþingis að þegar hér eru umræður um landbúnaðarmál, þá eru engir jafntíðförulir í ræðustólinn og hv. þm. stjórnarliðsins, ýmist til að þvo hendur sínar eða til þess að gagnrýna eitt og annað í framkvæmd landbúnaðarstefnunnar. Og það er skiljanlegt vegna þess að þessar aðgerðir hafa valdið margvíslegum erfiðleikum og það eru óveðursblikur á lofti svo ekki sé meira sagt um framtíð íslensks landbúnaðar, ekki síst sauðfjárbúskaparins.

Það er ekki þar með sagt að ég telji þessa lagasetningu og stjórnun hæstv. landbrh. alla ómögulega og til einskis góðs maklega, og það kemur m.a. fram í því að ég mun styðja þetta frv. af því að ég tel það til bóta. Ég tel það þó ekki ganga nógu langt og mun fyrst láta á það reyna hvort menn geta fallist á brtt. sem ég flyt um að aðlögunartími verði lengdur og tvær aðrar brtt. sem ég hef gert ráð fyrir, en miðað við þá stöðu sem þessi mál eru í í dag þá væri það til bóta að mínu mati að fá framlengingu, hversu lítil sem hún er, á aðlögunartíma laganna og það get ég út af fyrir sig stutt.

Ég held ég þurfi þá ekki, virðulegur forseti, að hafa um þetta fleiri orð. Ég vísa í nál. á þskj. 1049 og ég vísa í nál. 1. minni hl. landbn. Ed. þar sem birt voru sem fskj. með nál. gögn þar sem fram kemur stefna Alþb. í þessum málum og þær tillögur sem við höfum flutt, bæði á þessu þingi og áður, til lausnar á þeim margvíslegu erfiðleikum sem við er að glíma í íslenskum landbúnaði.