19.03.1987
Efri deild: 73. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4537 í B-deild Alþingistíðinda. (4417)

119. mál, umferðarlög

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Allt orkar tvímælis þá gert er og ég held að það sem við ætlum að fara að gera núna orki mjög verulega tvímælis, að ekki sé meira sagt. Hér er um að ræða lagabálk, mikinn bálk sem snertir nánast alla, hvern einasta einstakling. Hér er um að ræða lagabálk sem búið er að leggja mjög mikla vinnu í, fyrst áður en málið kom til kasta Alþingis, síðan á Alþingi og síðan raunar milli þinga af sérstakri nefnd sem hæstv. dómsmrh. skipaði hér og var skipuð mönnum úr þessari hv. deild.Í þetta mál hefur verið lögð mikil vinna og undirbúningur þess og aðdragandi hefur tekið langan tíma.

Skemmst er frá því að segja að málið var afgreitt héðan frá þessari hv. deild í nokkuð góðu horfi, en síðan mætti kannske orða það svo að þessi lagabálkur hefði lent í umferðarslysi í hv. Nd. þar sem búið er að rekja hvernig með málið var farið. Mér sýnist nefndin sem um það fjallaði hreinlega hafa farið út af í sinni umfjöllun, hengt sig í smáatriði, um sumt nánast útúrsnúninga, hafa sýnt vinnubrögð sem eru hreint ekki til fyrirmyndar.

Að mínu mati sýnir þetta enn einu sinni og sannar að við afgreiðslu mála af þessu tagi - sem er enginn pólitískur ágreiningur um og á ekkert skylt við það, en sem um eru mjög skiptar skoðanir og sem allir nánast hafa skoðanir á og telja sig hafa réttar skoðanir á því hver og einn að sjálfsögðu - við afgreiðslu svona mála verður að viðhafa önnur vinnubrögð svo ekki komi upp þessi deildadeila, eins og átt hefur sér stað hér, þar sem hv. neðrideildarnefnd virðist leggja metnað sinn í það að breyta sem flestu og mestu frá því sem hér hefur verið gert uns málið er komið í tímaþröng og öllu er stefnt í óefni.

Mál af þessu tagi, og það er auðvelt að vera vitur eftir á, verður auðvitað að vinna í samvinnu beggja deilda og fá þar fram þá málamiðlun sem báðir aðilar geta sætt sig við. Eftir á að hyggja hefði kannske líka verið æskilegra að í þeirri nefnd, sem hæstv. dómsmrh. skipaði og lagði í þetta mikla vinnu, hefðu verið fulltrúar úr báðum deildum. En ég segi bara alveg hreint eins og er að mig óraði aldrei fyrir því að viðbrögð Nd. við því frv. sem afgreitt var héðan yrðu með þeim hætti sem raun hefur borið vitni. Ég verð að viðurkenna það. Mig óraði aldrei fyrir því. Mér finnst afar óheppilegt, að ekki sé sterkar til orða tekið, hvernig hér hefur til tekist. Hér er um mikilvæga löggjöf að ræða og það hefur tekist að klúðra þessu máli. Þar á þessi hv. þingdeild ekki sök.

Ég ætla bara að benda á tiltölulega fá atriði því að við höfum nauman tíma hér, en það er engu að síður óhjákvæmilegt að það komi fram við þessa umræðu málsins. Ég bendi á ákvæðin um torfærutækin, þessi torfæruhjól sem hafa komist í tísku og eru hin gagnlegustu farartæki, rétt notuð og rétt beitt og geta komið þeim til góða sem þurfa að ferðast um fjöll og firnindi. Auðvitað eru þau leikföng líka en þau geta verið nauðsynleg. Þau geta verið bændum nauðsynleg t.d. og þetta eru farartæki sem út af fyrir sig er engin ástæða til að hafa neitt gegn.

Það skal viðurkennt að ákvæðin um þessi farartæki fengu ekki mjög mikla umfjöllun hér vegna þess að mönnum varð hreinlega ekki ljóst umfang þessa vanda, bæði að því er varðar tryggingar- og skráningarskyldu þessara farartækja, fyrr en á síðustu stigum málsins. Nd. gerði ýmsar breytingar. Einhverjar þeirra eru áreiðanlega til bóta - og nú tek ég það fram að auðvitað eru ekki allar þær breytingar sem Nd. gerði á málinu á verri veg alls ekki. Sumar þeirra, fáar þó, eru áreiðanlega til betri vegar, en hinar eru miklu fleiri sem eru til verri vegar, en eftir að hv. Nd. hefur afgreitt málið, þá koma margvíslegar athugasemdir frá Náttúruverndarráði, mjög margar athugasemdir. Nú er ég hreint ekki að segja að það eigi að fara eftir öllum þeim ábendingum sem fram koma hjá Náttúruverndarráði, alls ekki. Ég hygg að þeir gangi nokkuð langt í sumum efnum. En það er hins vegar jafnvitlaust, jafnfjarstæðukennt og jafnrangt að hundsa allar þær athugasemdir sem koma frá Náttúruverndarráði, sem Alþingi kýs og hefur ákveðnar skyldur gagnvart náttúruvernd og því sem við öll viljum gera, að spilla ekki landinu. Það er jafnfáránlegt og vitlaust að hundsa þessar athugasemdir eins og verið er að gera, því miður. Þetta er bara mál sem þarf að athuga betur.

Í þriðja lagi varðandi vátryggingarkaflann. Þar hefur miklu verið breytt. Þar eru mörg álitamál. Þar hefur Nd. tekið mjög eindregið tillit til óska tryggingafélaganna. Ég skal ekki um það segja hvort þær breytingar eru allar á verri veg. Það kann vel að vera að einhverjar þeirra séu alveg réttmætar. Það hefur bara ekki gefist ráðrúm til þess að fjalla um það og ég vek athygli á þeirri ábendingu varðandi skráningu umferðaróhappa sem hv. 2. þm. Austurl. benti hér á.

Markmiðið m.a. með því að setja ný umferðarlög var að færa okkar löggjöf nær löggjöf grannþjóða, bæði á Norðurlöndunum og í Evrópu, m.a. til þess að íslensk ökuskírteini geti verið fullgild í Evrópu og á Norðurlöndunum. Ég sé ekki betur en Nd. hafi breytt þar ákvæðum varðandi réttindi til að aka flutningabifreiðum eða vörubifreiðum sem eru á skjön við það allt saman og kunna, ég fullyrði ekkert um það, kunna að hafa í för með sér einhverja erfiðleika fyrir handhafa íslenskra ökuskírteina sem vilja fá þau viðurkennd er þeir aka t.d. á meginlandi Evrópu. Þetta held ég að sé misráðið.

Það hefur verið vikið hér að ákvæðinu sem þeir í Nd. sáu sóma sinn í að fella út, að ökumenn skuli stöðva þar sem merkt skólabifreið hefur numið staðar til að hleypa farþegum, þá væntanlega börnum, inn eða út. Ég tel þetta háskalega breytingu. Ég tel að málið hefði verið í betra horfi eins og við afgreiddum það og öryggi barna hefði verið betur tryggt í umferðinni. Ég bara rifja það upp í einni setningu af því að mér er það svo minnisstætt þegar ég var að aka fyrst erlendis, í Bandaríkjunum, fyrir eitthvað aldarfjórðungi og skólabræður mínir leiðbeindu mér þar. Það jaðraði við að það gæti verið dauðarefsing við því, það er kannske djúpt í árinni tekið, að fara fram úr skólabifreið sem hafði numið staðar þar. Þar eru skólabifreiðar raunar miklu meira notaðar en hér. Það var það fyrsta sem mér var kennt: Gerðu það aldrei. Lögreglan tekur af þér skírteinið og sektar þig um leið.

Síðan koma hinir vísu menn hér og fella þetta ákvæði út. Um hagsmuni hvers er verið að hugsa? Er verið að hugsa um hagsmuni barnanna? Er verið að hugsa um að tefja ekki ökumenn í tvær eða þrjár mínútur? Ég satt að segja fæ ekki orða bundist. Hvað liggur að baki slíku?

Ég hafði einsett mér það, virðulegi forseti, að tala ekki mjög lengi um þetta mál enda þótt ég eigi margt ósagt og gæti talað töluvert langt mál um þetta. En það eru þó ýmis atriði enn sem ég tel nauðsynlegt að benda á. Ég ætla að sleppa því að fara út í ýmiss konar smáatriði, breytinguna á orðinu ásþungi sem við höfðum tekið upp hér, sem þeir hafa breytt aftur í öxulþungi. Ég skal viðurkenna það að öxulþungi er það orð sem hefur verið notað, en ég held að ásþungi mundi mjög fljótt vinna sér sess, enda gott orð. Og það er miklu, miklu réttara orð af því að það er ásinn sem ber þungann, ekki öxullinn. Það er öxullinn sem knýr og snýst, en ásinn er burðarás bifreiðarinnar og þunginn hvílir á honum. Þetta er rökfræðilega og málfarslega miklu réttara og betra orð og það hafa hinir vísustu menn bent okkur á sem fjölluðum um þetta mál á sínum tíma. Þetta var engin uppfinning okkar.

Síðan er fellt út, ef ég man rétt, þetta eru svo margar breytingar að það mundi æra óstöðugan að rekja þær allar, að sitja klofvega á bifhjóli, að farþegi skuli sitja klofvega. Þetta er gert að svona stráksskapar- og skemmtunarmáli í blöðum. Ef grannt er skoðað þá er þetta einfaldlega öryggisatriði. Það getur vel verið að mönnum finnist það hallærislegt orðalag að sitja klofvega. Það er það bara ekki. Þetta er góð íslenska sem allir skilja. Hvað gengur mönnum til að fella slík ákvæði út?

Það er ýmislegt fleira sem hefði átt að vera inni í þessum lögum. T.d. barst eitt í tal á nefndarfundi hér áðan, sem er áhugamál virðulegs forseta og þess sem þetta mælir, hjálmanotkun barna á reiðhjólum. Það ákvæði hefur ekki komist hér inn í þessi lög. Það ætti að vera inni í þessum lögum. Þau meiðsl sem börn verða fyrir í hjólreiðaslysum eru jafnaðarlega og oftast höfuðmeiðsl og það eru alvarlegustu meiðslin. Þetta vantar inn í lögin.

Þá var breytt ákvæðum um ljós og ljósanotkun. Það segir í frv. núna, eftir breytingarnar:

„Við akstur bifreiðar og bifhjóls skulu lögboðin ljós jafnan vera tendruð.“ Þetta þyrfti að orða með öðrum hætti. Ég er sammála því að ljós eigi að loga á bílum í akstri hvort sem er bjartur dagur eða svört nótt, rökkur, ljósaskipti, það eiga að vera ljós. Margir bílar eru þannig búnir núna að ljós kvikna um leið og þeir eru settir í gang. En eru það lögboðin ljós? Það eru ekki full ljós. Það er ekki lági geislinn, það er ekki hái geislinn, það eru ekki biðljósin, það eru ljós sem eru þarna á milli. Í sumum tilvikum eru það aðalljósin sem lýsa þá með minna ljósmagni en lági geislinn. Í sumum tilvikum eru það stöðuljósin sem lýsa þá bæði fram og til hliðar þar sem þau eru á hornum og eru bjartari en stöðuljósin venjulega. Þetta kemur bara til með að valda ruglingi. Þetta er kannske smáatriði, en þetta er engu að síður atriði sem ætti að huga betur að vegna þess að ég held að það muni gerast í mjög vaxandi mæli að allir bílar, sem eru fluttir til landsins, verða þannig að ljós, einhver ljós, kvikna um leið og þeir eru settir í gang. Það eru ekki háu ljósin og það eru ekki lágu ljósin, en það eru ljós og það er það sem dugar, þannig að hér er líka álitamál.

Áður en ég geri hér endanlega grein fyrir afstöðu minni, þá kemst ég ekki hjá því að víkja að þessu svokallaða númeramáli, sem á sér nokkra sögu hér á hinu háa Alþingi. Og nú skal ég, virðulegi forseti, reyna að gera langa sögu stutta. Ég er hér með a.m.k. þrjár skýrslur um Bifreiðaeftirlit ríkisins þar sem fjallað er um starfsemi þess og hún skoðuð. Það hefur nefnilega engin opinber stofnun verið skoðuð jafnrækilega og Bifreiðaeftirlitið, þessi skoðunarstofnun. Og hvað hefur gerst þegar menn hafa skoðað Bifreiðaeftirlitið, farið ofan í saumana á starfsemi þess? Það fyrsta sem menn reka augun í er að það eigi að breyta númera- og skráningarkerfi bifreiða, færa fyrir því rök.

Í skýrslu um starfsemi Bifreiðaeftirlitsins frá 1977, og áreiðanlega hefur þetta ekki breyst síðan, kemur fram að af starfstíma bifreiðaeftirlitsmanna og vinnu starfsmanna hjá Bifreiðaeftirlitinu fara 33,6% í umskráningar og eigendaskipti. Þriðjungurinn af tíma bifreiðaeftirlitsmanna fer í þetta.

Það hringdi til mín bifreiðaeftirlitsmaður vestan úr Stykkishólmi og það er ágætt að hv. þm. Friðjón Þórðarson heyri það, þó að hann eigi ekki sæti í þessari hv. deild, og hann sagði efnislega m. a.: Ætlið þið nú ekki að vera skynsamir og samþykkja þessa breytingu á númerunum til þess að við bifreiðaeftirlitsmenn getum gert það sem við eigum að gera, þ.e. fylgjast með því að ökutæki séu í lagi og ekki stafi frá þeim hætta? Ég sagði jú, ekki skortir okkur viljann í efri deild, en það sama verður ekki sagt um þá félaga okkar í neðri.

Í skýrslu um Bifreiðaeftirlit ríkisins frá árinu 1975 og greinargerð sem Hannar s.f. gerði er sagt frá þessu nýja númerakerfi. Samkvæmt þessu nýja kerfi verða eins og fyrr segir engar umskráningar, með leyfi forseta: „Hver bifreið fær númer sem hún heldur frá því hún er fyrst sett á skrá þar til hún er afskráð sem ónýt bifreið.“ Þetta er árið 1975.

„Helstu verkþættir sem falla niður við brottfall umskráninga eru:

1. Að úthluta númeri.

2. Að taka á móti skráningarspjöldum.

3. Að afhenda skráningarspjöld.

4. Að skrifa spjald í spjaldskrá, nema ef bifreiðin

er seld út á land.

5. Að skrifa umskráningarvottorð vegna bifreiðar sem seld er út á land.

6. Að taka við greiðslu fyrir skráningarspjöld.

Auk þess sparast verulega í númeravörslu. Bæði sparast vinna og húsnæði þar eð númer sem geyma þarf verða aðeins lítill hluti af því sem nú er.“ Hér er ekkert talað um þann tímasparnað sem þetta mundi leiða til hjá viðskiptavinum og bifreiðaeigendum.

Síðan segir hér í þessu 12 ára gamla áliti:

„Það er álit okkar að ofannefndar breytingar á núverandi umskráningu geti haft í för með sér fækkun á mönnum er nemur allt að sjö manns. Að jafnaði voru u.þ.b. tíu manns starfandi við umskráningar og eigendaskipti í Reykjavík á árinu 1974. Þá voru umskráningar og eigendaskipti 15 700.“ Þetta var frá 1975.

Næsta skýrsla er frá því í september 1978, áfangaskýrsla nefndar um minnkun ríkisumsvifa, Bifreiðaeftirlit ríkisins. Og hvað segir hér? Þar segir að 31% af starfstíma bifreiðaeftirlitsmanna fari í umskráningar og eigendaskipti. 31%.

Enn er hér skýrsla frá 1979, starfshóps um skipan Bifreiðaeftirlits. Þar segir, með leyfi forseta: „Starfshópurinn telur æskilegt að tekið verði upp nýtt fyrirkomulag á bifreiðaskráningum þannig að tekið verði upp fast númerakerfi fyrir allt landið og þar með felld niður umskráning vegna eigendaskipta, svo og skoðun í tengslum við hana.“

Síðan segir hér í áliti þessa starfshóps:

„Reiknað hefur verið út að hið breytta fyrirkomulag á skoðun og skráningu bifreiða geti sparað Bifreiðaeftirliti ríkisins samtals 13 mannár eða 68,9 millj. kr. ef öll rekstrargjöld eru meðtalin. Skoðunargjöld mundu lækka nokkuð og gjöld fyrir umskráningu og þess háttar falla algjörlega niður.“

Þá hef ég lokið lestri úr þessum skýrslum, virðulegi forseti. Ég gæti vissulega lesið miklu, miklu lengra mál til að rökstyðja þetta frekar, en þess gerist engin þörf. Allir aðilar, sem hafa skoðað þetta mál, nema hið háa Alþingi, hafa komist að þeirri niðurstöðu að það beri að breyta númerakerfinu og taka upp föst númer á hverja bifreið eins og alls staðar er gert.

Hér í Ed. hefur niðurstaða okkar orðið sú hin sama. Það eru hagkvæmnissjónarmið. Öll rök mæla með þessu. Það eru sparnaðarsjónarmið, það eru skynsemissjónarmið. Þetta sparar öllum tíma og peninga.

En hvað gerist svo í hv. Nd.? Þar ræður hégómaskapurinn ríkjum. Lágu númerin. Því miður. Þar bara taka menn ekki rökum. Þar er þetta tilfinningamál og ef hægt er að tala um tilfinningarök, sem er vissulega hægt, þá ráða þau ferðinni. Menn vilja ekki draga úr kostnaði, hvorki fyrir bifreiðaeigendur né hið opinbera. Menn vilja ekki spara. Menn vilja viðhalda gamla kerfinu. Og mér er það satt best að segja gjörsamlega óskiljanlegt hvers vegna menn taka ekki rökum. En þegar tilfinningar eru annars vegar eins og þarna, og auðvitað getur maður sett sig í spor þeirra sem hafa átt eitthvert fallegt númer, tveggja stafa númer í 20-30 ár, það er svo sem mannlegt að skilja að þeir vilji ekki farga því. En það er líka erfitt að skilja það hvers vegna menn ekki taka rökum í málinu þegar rökin eru jafnborðliggjandi og raun ber hér vitni.

Ég ætla ekki að segja mikið meira um þetta. Þó má bæta því við að fyrir þessa menn, sem hafa gaman af því að eiga svona sérstæð númer, hver sem þau eru, ég ætla ekkert að fara að skemmta neinum með því að nefna hér númer, það er af nógu að taka hér úti á bílastæðum þingsins, en ég ætla ekki að gera það. En ef menn vilja vera með eitthvert svona kerfi, þá er það einfaldasti hlutur í heimi með tölvuskráningu. Þá geta menn bara næstum því að vild valið sér númer. Þannig er þetta víða erlendis, í Kaliforníu t.d. Þar geta menn valið sér bókstafi, menn geta valið sér upphafsstafina sína, menn geta valið sér nafnið sitt jafnvel. En þeir borga bara fyrir það extra af því að það kostar aukaumstang hjá hinu opinbera. Það mætti alveg taka upp svona kerfi þannig að hégómaskapnum væri þá fullnægt og menn gætu búið sér til einhver sérstök númer, hvort sem það er 111 eða 222 eða 333 eða 123 eða 321. Menn hafa næstum því - ég segi, næstum því óendanlega valmöguleika í svona kerfi og nútímagagnaskráning gerir það kleift að halda utan um þetta allt saman. Þetta gætu menn gert og komið til móts við þessi nátttröll, því miður, verð ég að segja, sem vilja halda í þetta gamla kerfi sem er löngu sprungið.

Hafið þið tekið eftir því, hv. þm., að það er ekki lengur hægt að koma númeraspjöldunum á sumar bifreiðir, það verður að beygja þau í U og þá er ekki lengur hægt að lesa númerin. Þetta er náttúrlega einfalt framkvæmdaatriði. Bifreiðaeftirlitið gæti auðvitað búið til minni spjöld, en það er ekki gert af því að þeir eru kannske svolítið steinrunnir líka. En þetta er orðið þannig að það er ekki hægt að lesa númer þegar búið er að beygla þau í U. Þetta mál er bara allt tóm vitleysa og veldur mér satt að segja sárum vonbrigðum hvernig þingbræður okkar, og systur væntanlega þó að ég viti nú ekki um afstöðu þeirra í þessu máli eða hvort hún er yfirleitt fyrir hendi, hafa brugðist við í Nd. Þetta er satt best að segja alveg með ólíkindum.

Virðulegi forseti. Ég hafði einsett mér að tala alls ekki lengur en til kl. 12 með tilliti til þeirra annarra sem hér eiga eftir að tala og með tilliti til þess tíma sem hér er til umráða. Það hefur vegið mjög salt í mínum huga hvaða afstöðu ég ætti að hafa til þessa máls nú þegar búið er að forklúðra því svona gjörsamlega. Ég hef unnið töluvert mikið að þessu máli ásamt fleiri hv. þm. í þessari ágætu deild. Samviska mín og skynsemi segja mér að þetta sé stórlega gölluð löggjöf sem við ætlum að fara að afgreiða og í rauninni til vansa. Hins vegar segir samviska mín og skynsemi líka að það væri sömuleiðis til vansa ef við kæmum þessu máli ekki frá okkur og afgreiddum það ekki eftir alla þá umfjöllun sem það er búið að hljóta. Ég dreg ekkert úr því að það er auðvitað ýmislegt til bóta í þessu frv., það er ýmislegt til bóta alveg tvímælalaust, en það er líka margt sem hefur farið aflaga, því miður.

Þess vegna, virðulegi forseti, er það niðurstaða mín að ég mun greiða atkvæði með samþykkt þessa frv. En ég geri það í rauninni bæði með hundshaus og hangandi hendi. Ég segi það alveg hreint eins og er, að ég ætla að gera það samt vegna þess að mér finnst hitt í rauninni vera verri kostur að stefna málinu í tvísýnu, láta það daga uppi og leggja því lið að málið stöðvist. Ég treysti mér einfaldlega ekki til þess að gera það. Ég veiti þessu máli atbeina og brautargengi, ekki með glöðu geði, langur vegur frá, en ég geri það m.a. vegna þess að gildistökuákvæðin eru 1. mars 1988 og þeir sem hljóta kosningu til setu á nýju Alþingi geta tekið þetta mál upp í haust og lagað það svolítið til áður en lögin taka gildi. Það geta þeir gert. Nú veit enginn um sína pólitísku framtíð hér í þeim efnum, hverjir munu taka hér sæti á nýju þingi, en ég mun beita mér fyrir því að þeir, sem sitja hér á þingi fyrir minn flokk er þing kemur saman í haust, taki þetta mál upp að nýju og af því verði sniðnir nokkrir annmarkar og að reynt verði að ná um það miklu breiðara samkomulagi en tekist hefur til þessa.

Ég tek að lokum undir það sem hv. þm. Helgi Seljan sagði hér áðan að þessi endurskoðunarákvæði sem miðast við 1991 eru náttúrlega gjörsamlega út í hött. Það hefði, eins og hv. þm. sagði, alveg eins mátt vera 2001 þess vegna.

En það er tæpt ár þangað til lögin eiga að taka gildi. Það er enn ráðrúm til að laga þau áður en þau taka gildi og í trausti þess að það verði gert og að þetta mál verði lagað, þá mun ég greiða því atkvæði nú þó ekki sé það með glöðu geði gert, en stundum er það nú svo í þessu starfi eins og öðru að maður verður að gera fleira en manni aldeilis gott og kannske allra best þætti.