04.11.1986
Sameinað þing: 11. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í B-deild Alþingistíðinda. (442)

97. mál, öryggisfræðsla sjómanna

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Svar við 1. spurningu:

a. Í áfangaskýrslu öryggismálanefndar sjómanna dags. í okt. 1984 var m.a. lagt til að komið yrði á fót námskeiðum í helstu verstöðvum landsins þar sem kenndar yrðu öryggis-, bruna- og slysavarnir, reykköfun, notkun björgunarbúnaðar og almenn sjómennska. Slysavarnafélag Íslands hófst þegar á árinu 1985 handa um að halda slík námskeið og var fyrsta námskeiðið haldið 29.-31. maí það ár. Áður eða á tímabilinu 1. febr. til 31. mars 1985 voru haldnir 17 fræðslufundir víðs vegar um landið. Alls voru haldin 12 námskeið á 6 stöðum.

b. Í framhaldi af tilvitnaðri tillögu öryggismálanefndarinnar skipaði ég í mars 1985 fjögurra manna nefnd til að fjalla um námskeiðahald um öryggismál sjómanna. Í nál. dags. 11. okt. 1985 var m.a. lagt til að haldið yrði þriggja daga farnámskeið fyrir sjómenn á öllum helstu útgerðarstöðvum á landinu á sama grundvelli og Slysavarnafélag Íslands hafði gert. Fjöldi sjómanna á landinu er nú 6-7 þúsund og taldi nefndin æskilegt að ná til allra íslenskra sjómanna með lágmarksöryggisfræðslu á 3-5 árum. Nefndin kom með ákveðnar tillögur um námsefni sem fylgt hefur verið.

Á þessu ári hafa verið haldin 28 námskeið á 8 stöðum. Námskeiðin úti á landi voru almennt þriggja daga löng en fjögurra daga í Reykjavík. Í þessum mánuði eru fyrirhuguð 6 námskeið og í desember er fyrirhugað almennt námskeið í Reykjavík og fyrir stýrimannaskólanema í Vestmannaeyjum.

c. Á næsta ári, 1987, er áætlað að halda 85 þriggja daga námskeið með 20-25 þátttakendum í hverju. Þau munu því ná samtals til 1700-2225 manna. Námskeiðin verða byggð upp á svipaðan hátt og undanfarin tvö ár. Töluverð reynsla er nú komin á námskeiðahald þetta sem þykir hafa tekist mjög vel. Reiknað er með tveimur kennsluhópum, þ.e. tveimur leiðbeinendum í hvorum hópi og einum til þess að annast skipulagningu og stjórnun. Auk þess mun einn maður annast viðhald og frágang búnaðar o. fl.

2. spurning: Fram til 1. okt. 1986 hafa alls 808 nemendur tekið þátt í námskeiðum og 253 verið veitt viðurkenningarskjöl árið 1985 og 555 árið 1986. Eru þá ótaldir þeir sem aðeins sóttu hluta námskeiðanna. Sóttu fræðslufundina 1985 685 manns og nemendur Stýrimannaskólans í Reykjavík.

3. spurning: Eins og ég sagði áðan er áætlað að fræðsluátak þetta taki 3-5 ár. Það er auðvitað háð fjárveitingu sem til starfsins fæst hvort unnt verður að halda þeirri áætlun og þá hvenær allir íslenskir sjómenn hafa fengið þá öryggisfræðslu sem hér um ræðir. Áætlaður kostnaður 1987 er 16,5 millj. kr. Í lok þessa árs munu 915 sjómenn hafa notið fræðslunnar á námskeiðunum og 2615-3140 í lok næsta árs. Miðað við 6-7 þús. starfandi sjómenn mun námskeiðahaldinu ljúka árið 1989.

4. spurning: Á þessari stundu liggur ekkert fyrir um fjárveitingar frá Alþingi til námskeiðahalds þessa. Verði aðeins veittur til þess verkefnis hluti af áætlaðri fjárhæð hlýtur að koma til álita að skipta kostnaði á einhvern hátt milli ríkisins og samtaka útgerðar eða sjómanna sjálfra, en þó auðvitað með frjálsu samkomulagi við þessa aðila.