19.03.1987
Neðri deild: 71. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4550 í B-deild Alþingistíðinda. (4425)

Afgreiðsla mála úr heilbr.- og trn. neðri deildar

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Í þeim önnum sem verið hafa að undanförnu hafa flestir haft ærið að starfa og í heilbr.- og trn. hafði ég talið að búið væri að halda lokafund um málefni sem þar voru. Í umræðum hér í Alþingi var það að frumkvæði hv. 3. þm. Reykv. að spurst var fyrir um ákveðið mál og þess óskað að nefndin tæki afstöðu til þess máls. Formaður heilbr.og trn. gat þess að hann mundi boða til fundar. Miðað við þá umræðu sem átt hefur sér stað í nefndinni hafði ég ekki varið meira af mínum tíma til að kynna mér frekar þau mál sem þar lágu fyrir. Það kom mér nokkuð á óvart þegar ég mætti svo til fundarins í morgun klukkan 10 að það mál sem hér var rætt í þinginu skyldi ekki vera það dagskrármál sem var til umræðu í nefndinni heldur annað mál og tveir fulltrúar boðaðir til að ræða það mál.

Það var mikill ágreiningur hjá þeim tveimur fulltrúum, sem voru boðaðir til að ræða þetta mál, um heildarafstöðu til málsins. Ég lít svo á að endurskoðun laganna megi gjarnan vera lokið fyrir 1. ágúst, þar á ég við laganna um hollustuvernd og heilbrigðishætti, og endurskoðunin verði lögð fyrir næsta þing, enda verði endurskoðuninni hagað að nokkru í samræmi við það sem til var ætlast samkvæmt lögunum.