19.03.1987
Neðri deild: 71. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4551 í B-deild Alþingistíðinda. (4427)

Afgreiðsla mála úr heilbr.- og trn. neðri deildar

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Eins og kom fram í minni fyrri ræðu eða skýringu tók ég fram að það eru tveir dagar síðan við ákváðum í heilbr.- og trn. að við mundum ekki taka mál til afgreiðslu í nefndinni nema það næðist samkomulag. Við höfðum þá í huga þá ákvörðun þingsins að reyna að ljúka þingstörfum í dag. Þetta var áréttað enn betur í fyrrinótt af hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur þegar hún skammaði mig og aðra fyrir að hafa gert þetta fram að því. Þess vegna kom það mér þægilega á óvart þegar hún hóf máls á því í gær við mig og auk þess hv. þm. Svavar Gestsson í sambandi við mál sem kom frá Ed. að við þyrftum að hafa fund til viðbótar til að ræða ákveðið mál. Þar á meðal var þetta mál um hollustuhætti og heilsuvernd. Við reyndum þetta í morgun, en það náðist ekki samkomulag. Það er ekki rétt að fara með það stóra mál hér inn og þær deilur sem fylgja því máli og jafnframt því máli sem hv. formaður og þm. Alþb. hefur réttilega bent á og ítrekað sem alls ekki er samkomulag um hjá okkur í heilbr.- og trn. og það er ekkert frekar formaður tryggingaráðs, hv. þm. Ólafur Einarsson, en aðrir. Það vantar mikið á að það frv. fullnægi óskum allra. Alla vega, þótt öryrkjar komi þar við sögu, eru þar hvorki aldraðir eða sjónlausir eða allir þeir sem gætu gert hina sömu kröfu.

Ég vildi láta þetta koma fram að gefnu tilefni einfaldlega vegna þess að ef við ætlum að ljúka þinginu í dag er ekki tími til að taka þessi mál upp nema með fullri samstöðu. Það kom í ljós á fundinum í morgun að fulltrúi Framsfl., sem þar var mættur, var ekki fáanlegur til að taka þátt í afgreiðslu málsins jákvætt þannig að við gætum komið málinu frá okkur sem ég vakti máls á í minni fyrri ræðu.