19.03.1987
Neðri deild: 71. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4552 í B-deild Alþingistíðinda. (4428)

Afgreiðsla mála úr heilbr.- og trn. neðri deildar

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég get alls ekki látið ómótmælt þeim ummælum hv. 5. þm. Vestf. þar sem hann gefur í skyn að ekki hafi endurskoðun laganna um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit verið hagað með þeim hætti sem ætlast var til, svo notuð séu hans orð. Hann leggur til að endurskoðun verði lokið fyrir 1. ágúst með þeim hætti sem ætlast var til. Ég veit ekki hvað hv. þm. á við. Það er langt síðan þessi lög voru sett. Síðan hefur annað þing verið kosið. Það er Alþingi sjálft sem ákveður til hvers er ætlast í þeim lögum sem það setur. Þess vegna er ákvæði sett inn í lögin um að það beri að endurskoða þessi lög fyrir 1. ágúst en ekki einhverjir menn úti í bæ sem koma og tilkynna þingnefnd að það sé ætlast til einhvers annars en hinir færustu fagmenn leggja til við þingið og hafa þegar sent það til umsagnar fjölmargra aðila og ekki síst þeirra sveitarfélaga sem hafa með höndum framkvæmdir samkvæmt lögunum. Ég vil þess vegna mótmæla því að það hafi á nokkurn hátt verið kastað höndum til undirbúnings þessa máls. Það er þvert á móti óvenjulega vel vandað að undirbúningi til.