04.11.1986
Sameinað þing: 11. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 551 í B-deild Alþingistíðinda. (443)

97. mál, öryggisfræðsla sjómanna

Fyrirspyrjandi (Árni Johnsen):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir markviss svör. Það er ljóst hvernig staðan er í þessum efnum en óljóst hvert framhaldið er. Þarna er búið að sinna grunnfræðslu fyrir nær þúsund sjómenn af 6-7 þúsund í landinu og ef það skipulag sem hefur verið gert gengur fram verða það um það bil 2 þús. á næsta ári o.s.frv. þar til þessu er lokið 1989, eins og hæstv. ráðh. hefur sagt. Það er reiknað með að kostnaður á mann sé um það bil 8 þús. kr. á næsta ári á slíku námskeiði. Það er auðvitað grundvallaratriði að fjármagn sé tryggt til þess að framkvæma þessa neyðarráðstöfun því að fyrst og fremst er þetta neyðarráðstöfun í landi sem hefur miklu meiri tíðni slysa á sjó en önnur nágrannalönd sem við þekkjum til. Það er því grundvallarspurningin hvernig fjármagn verður tryggt til þessarar framkvæmdar. Það væri í rauninni æskilegt að fá aðeins gleggri svör frá hæstv. ráðh. um hvernig á að brúa bilið í þessum 16 millj. og hvort fjárveitingavaldíð miðar við að ganga þar til leiks á fullri ferð eða hvort það á að búta eitthvað niður.