19.03.1987
Neðri deild: 72. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4557 í B-deild Alþingistíðinda. (4449)

405. mál, eftirlit með skipum

Frsm. samgn. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Eins og kom fram í nál. við þetta mál var gert ráð fyrir að það yrði rætt í nefnd á milli umræðna um málið. Til fundar nefndarinnar komu Einar Hermannsson og Hörður Sigurgestsson. Það kom fram að þeir hefðu lítið eða ekki fjallað um frv. og höfðu ýmsar athugasemdir fram að færa í sambandi við þessa lagasetningu. Hins vegar virtist þeim ekki ljóst að þarna var ekki um endurskoðun á lögunum í heild að ræða og aðalatriðið sem fram kom í þeirra máli var í lögum sem hafa verið allt frá 1959. Þegar við gengum frá siglingalögunum á sínum tíma var gefin yfirlýsing um að þessi lög mundu verða endurskoðuð með hliðsjón af þeim breytingum sem gerðar voru á þeim lögum. Það var þetta sem sú nefnd sem fjallaði um endurskoðunina átti að gera en ekki heildarendurskoðun.

Ég vil taka fram að ég bað Birgi Guðjónsson að hafa samband við Samband ísl. kaupskipaútgerða, þ.e. Einar Hermannsson, en þrátt fyrir að hann reyndi það dag eftir dag svaraði aldrei á skrifstofu þessa manns. Ég vil líka segja það hér að þetta mál kom fyrir í Ed. Það voru þeir sem áttu að senda þetta til umsagnar. Við höfðum mjög lítinn tíma, eins og kom fram í máli mínu í gær, að fjalla um þetta mál. Ég er ákaflega óánægður yfir því að fá ekki tækifæri til þess. En þegar búið er að athuga þetta mál allt sé ég ekki ástæðu til annars en samþykkja frv. eins og það liggur fyrir vegna þess sem ég hef á undan sagt. Hins vegar mundi ég óska eftir því að hæstv. samgrh. sæi nú þegar til þess að heildarendurskoðun færi fram á lögunum vegna þess að það er ljóst að gömul ákvæði, jafnvel allt frá 1959 eða eldri, eru orðin úrelt og standast kannske ekki. Það var aldrei ætlunin að taka þessa endurskoðun á þann hátt. Það eru skiptar skoðanir í nefndinni um þetta og nefndarmenn munu sjálfsagt hver og einn tjá sig um málið. En meiri hl. vill standa að því að frv. verði samþykkt eins og það liggur fyrir, þ.e. ásamt mér Eggert Haukdal, Karvel Pálmason og Steingrímur J. Sigfússon.