19.03.1987
Neðri deild: 72. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4559 í B-deild Alþingistíðinda. (4451)

405. mál, eftirlit með skipum

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það er rétt, sem hæstv. samgrh. segir, að það er óvanalegt að alvarlegar athugasemdir komi fram við frv. við 3. umr. máls, en skýringin á því er sú að fundur í samgn. Ed. var ekki fyrr en í gær um þetta mál og þá kom í ljós samkvæmt þeim gögnum sem fyrir lágu að hvorki hafði verið haft samband við Samband ísl. kaupskipaútgerða né sjómannafélögin. Þetta varð til þess að ég hafði samband við Farmanna- og fiskimannasambandið, Sjómannafélag Reykjavíkur og Samband ísl. kaupskipaútgerða og sendi þeim frv. til yfirlestrar og bað þá um að koma til mín athugasemdum ef þeir hefðu við það að gera, en jafnframt var það sett inn í nál. um frv. að samgn. mundi hittast milli 2. og 3. umr. ef hún sæi ástæðu til. Það er heldur ekki venjulegt í meðferð máls á Alþingi.

Ég vil að það komi fram vegna ummæla hv. 3. þm. Norðurl. e. Stefáns Valgeirssonar áðan, um að gerð hefði verið tilraun til þess að ná sambandi við Samband ísl. kaupskipaútgerða en ekki tekist, að það hefur verið venja í þeim nefndum sem ég hef unnið í í þinginu að ef ekki næst samband við lítil sérgreinafélög er þess í stað haft samband við annaðhvort formann þessara félaga, í þessu tilviki Guðmund Ásgeirsson í Nesskip, eða þá t.d. Eimskipafélag Íslands þar sem málið varðar kaupskipin og biðja þá að sjá til þess að þeirra athugasemdum verði komið á framfæri. Ég tek það því ekki sem fullnægjandi skýringu þó ekki hafi verið svarað í tilteknum síma vegna þess að forstöðumaður skrifstofunnar var ekki staddur hér á landi.

Ég vil líka að það komi fram að Samband ísl. kaupskipaútgerða taldi sig hafa ástæðu til að ætla að þetta frv. mundi ekki ná fram að ganga á þessu þingi. Það hefur komið fram í þeirra máli. Það er skýringin á því að þeir hafa ekki undirbúið rökstuddar athugasemdir við frv., enda bárust þeim ekki þær fregnir að til stæði að afgreiða frv. fyrr en ég hafði samband við þá í gær.

Ég get heldur ekki fallist á að það sé rökstuðningur fyrir því að setja ákvæði í lög að þau standi í gömlum lögum því að það hlýtur að vera verkefni okkar að reyna að bæta lögin og breyta ef þörf krefur, ef við á annað borð erum að fjalla um lagabálk af því tagi sem um getur. Ég vil líka að fram komi, til þess að málið liggi fyrir úr því að farið er að ræða það efnislega, að Samband ísl. kaupskipaútgerða er ekki sammála um þau atriði að það sem í frv. standi og ágreiningurinn sé um sé í núgildandi lögum. Þeir telja að það sé álitamál og eru reiðubúnir að ræða það frekar.

Þetta vil ég að fram komi vegna þeirra orða sem hér hafa fallið, einungis til þess að þingheimur geti gert sér grein fyrir hvernig umræðan féll í samgn.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta. Ég tel eðlilegt að frv. bíði haustsins. Ég er á hinn bóginn þakklátur hæstv. samgrh. fyrir að hann skuli lýsa því yfir að hann muni gera ráðstafanir til þess að þegar í stað verði skipuð nefnd til að fara yfir þau ákvæði sem ágreiningur stendur um, með það fyrir augum að þær leiðréttingar gætu verið lagðar fyrir haustþingið og málið gæti þá fengið fyllri meðferð.

Ég tel óhjákvæmilegt að þetta komi fram. Það er laukrétt hjá hæstv. ráðh. að til stóð jafnan að afgreiða þessi lög á haustþinginu. Hitt vitum við að oft er það sem mál eru lögð hér fram snemma á þingi og það tekur nokkra mánuði að afgreiða málin og athuga í nefndum og svo hefði einnig orðið um þetta frv., ef það hefði verið fyrr á ferðinni, að þingið hefði að sjálfsögðu tekið sér tíma til að athuga einstök efnisákvæði þess.