19.03.1987
Sameinað þing: 66. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4566 í B-deild Alþingistíðinda. (4473)

Svar við fyrirspurn um húsnæðismál Þjóðskjalasafns

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Vegna þessara ummæla hæstv. forseta um að hér sé eitthvað óvenjuleg fsp. á ferðinni þykir mér það einkennilegt að það sé verið að finna að því þó að það hafi nú kannske ekki legið beint í orðum hæstv. forseta. En ég held að viðbrögðin við fsp. sýni það og sanni að þörf hafi verið á að inna tvo ráðherra í ríkisstjórninni eftir stöðu þessa máls, þar sem það er ekki einn sem ræður. Ég tel sjálfur að það sé síður en svo nokkuð óeðlilegt að ganga þannig fram til að fá skýr svör varðandi mál sem heyra undir fleiri en eitt ráðuneyti. Ég held að það gæti verið til eftirbreytni í fleiri málum, þannig að ríkisstjórn og ráðherrar komist ekki upp með að bera fram loðin svör eða svör sem í rauninni segja takmarkað. Og það hefur reynst svo að viðkomandi ráðherrar hafa ekki komið sér saman um svar við þessari fsp.