19.03.1987
Sameinað þing: 66. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4568 í B-deild Alþingistíðinda. (4476)

49. mál, lífeyrisréttindi heimavinnandi fólks

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég fagna því ákaflega að þessi tillaga, sem ég upphaflega flutti fyrir tveimur árum, skuli vera komin til afgreiðslu. Ég hefði raunar fremur kosið að ályktunin hefði verið alveg orðrétt útgáfa af tillögu hv. þm. Gunnars G. Schram. Þessi útgáfa er hér um bil orðrétt en þó er orðið „eingöngu“ komið úr útgáfu Jóhönnu Sigurðardóttur hv. þm. Mér finnst að þetta orð þrengi ályktunina óþarflega mikið og að ástæðulausu og ég treysti því að heimavinnandi húsmæður geti öðlast eftirlaunarétt samkvæmt þessu kerfi þótt þær hafi á einhverju æviskeiði sinnt öðru en heimilis- og umönnunarstörfum og e.t.v. öðlast með því óverulegan lífeyrisrétt.