15.10.1986
Efri deild: 3. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í B-deild Alþingistíðinda. (45)

24. mál, lánsfjárlög 1987

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég skal ekki vera langorður um þetta mál sem þegar er búið að ræða allítarlega. Það er sjálfsagt oft vandlifað fyrir ráðherra. Þó að ég hafi ekki átt sæti mjög lengi á Alþingi rekur mig minni til þess að fjmrh. hafi verið gagnrýndir mjög harkalega fyrir að leggja ekki fram lánsfjáráætlun fyrr en undir jól eða kannske þegar komið var fram á nýtt ár. Nú hefur verið gagnrýnt hversu fljótt þetta mál er tekið til umræðu. Ég þakka ráðherra fyrir að hafa lagt þetta fram með frv., en ég tek undir þær ábendingar, ég lít á það frekar sem ábendingar en beina gagnrýni, að það hefði mátt gefa stjórnarandstöðunni örlítið meira ráðrúm til að átta sig á þessum hlutum en gert hefur verið. Það er ekkert smáverk fyrir stjórnarandstöðuna, sem fær þessa 400 bls. bók sem fjárlagafrv. er, að setja sig inn í það að einhverju leyti. Það gerist ekki á einum sólarhring. Til þess þarf lengri tíma. Til þess þarf að fá tækifæri til að ræða við embættismenn. T.d. að því er varðar þingflokk Alþfl. er það fyrst í dag sem við höfum tækifæri til að fá embættismenn úr Fjárlaga- og hagsýslustofnun til að svara ýmsum spurningum okkar og það er vissulega góðra gjalda vert að þeir skuli vera til þess reiðubúnir, en við hefðum þurft að hafa örlítið meira ráðrúm. Sjálfsagt er rétt og skylt að viðurkenna að það er að ýmsu leyti í þjóðarbúinu björgulegra um að litast en verið hefur áður. En það er svo sem ekki vegna þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr. Ástæðurnar fyrir því eru tíundaðar mjög rækilega í inngangi að þjóðhagsáætlun fyrir árið 1987 sem forsrh. hefur lagt fram á Alþingi. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þennan góða árangur má einkum þakka þrennu: Hagstæðum ytri skilyrðum, samræmdri efnahagsstefnu og kjarasáttmála ríkisstj. og aðila vinnumarkaðarins.“ Síðan segir: „Batnandi ytri skilyrði, einkum aukinn fiskafli og lægra olíuverð, hafa skipt sköpum um hagþróun á þessu ári.“

Þetta eru þau atriði sem ríkisstjórnin hafði engin áhrif á hvorki til né frá. Þetta eru þau atriði sem segir í inngangi að þjóðhagsáætlun að hafi skipt sköpum, svo og hitt að það var verkalýðshreyfingin sem knúði ríkisstjórnina til skynsamlegra aðgerða í kjaramálum. Það hefur líka haft sín áhrif. Þannig má vissulega með sanni segja að verulegu leyti sé sá árangur sem hefur náðst ekki vegna þeirrar ríkisstjórnar sem verið hefur í landinu heldur er það miklu fremur þrátt fyrir hana.

Það eru fáein atriði í þessu frv. til lánsfjárlaga sem ég vildi gjarnan spyrja hæstv. fjmrh. um. Það eru í fyrsta lagi lánsheimildir til Landsvirkjunar. Nú kemur það fram, ef ég man rétt, í þessari þjóðhagsspá, en þar segir, með leyfi forseta:

„Á sviði orkubúskapar hafa aðstæður breyst ekki síst vegna mikilla breytinga á orkuverði í heiminum. Orkunotkun vex nú hægar en áður og orkuframleiðsluna þarf að laga að þessum nýju aðstæðum. Framkvæmdir við rafvirkjanir og hitaveitur eru minni en áður og hefur því dregið úr fjárþörf til þeirra málaflokka.“

Ég spyr: Er ekki til athugunar að fresta framkvæmdum við Blönduvirkjun enn frekar en orðið er? Bara hreinlega vegna þess að það er enginn markaður sýnilegur fyrir þessa orku, og hennar er engin þörf. Það er dýrt sport fyrir þjóðina, og hefur reynst henni dýrt, að virkja út í bláinn án þess að hafa nokkurn kaupanda að orkunni. Þessu vildi ég beina til hæstv. fjmrh.

Síðan varðandi 5. gr. frv. til lánsfjárlaga. Þar er fjallað um vandamál hitaveitna sveitarfélaga og þeim heimilaðar lántökur. Þar segir í athugasemdum, með leyfi forseta:

„Á undanförnum árum hafa lántökur sveitarfélaga nær eingöngu verið tengdar fjármögnun framkvæmda og skuldbreytingum hjá hitaveitum. Margar þessara veitna eiga í miklum rekstrarerfiðleikum. Fyrirliggjandi upplýsingar um fjármál þessara fyrirtækja eru í mörgum tilvikum ónógar.“

Nú vildi ég spyrja hæstv. fjmrh.: Frá hvaða hitaveitum skortir upplýsingar? Mér er kunnugt um að þær sem verst standa, Hitaveita Akureyrar og Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar, eða ég veit ekki betur en að þaðan hafi komið þær upplýsingar sem um hefur verið beðið. Og í framsöguræðu hæstv. fjmrh. áðan þegar hann var að tala um hitaveiturnar þá talaði hann öðrum þræði um óarðbærar fjárfestingar. Og ég vildi spyrja hæstv. fjmrh.: Hvaða óarðbærar fjárfestingar eru það sem hann á við? Er það hitaveitan á Akureyri? Er það Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar? Framkvæmdir sem ráðist var í, ekki aðeins fyrir atbeina heldur fyrir áeggjan ríkisvaldsins til að spara gjaldeyri.

Og fyrst hæstv. iðnrh. er hér í salnum þá gæti ég vel hugsað mér að beina til hans þeirri spurningu hann flýr ekki af hólmi, sá kappi sem hann er, þó hann standi við dyrnar, hæstv. ráðherrann - beina til hans þeirri spurningu: Hvaða ráðstafanir hefur ríkisstjórnin á döfinni til að leiðrétta eða laga fjárhag þessara orkufyrirtækja sem eiga í miklum vandræðum? Og í öðru lagi: Hyggst hæstv. iðnrh. núverandi standa við það loforð sem forveri hans í embætti, hæstv. núverandi menntmrh., Sverrir Hermannsson, gaf um beint fjárframlag til Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar? Þetta loforð var gefið á sínum tíma en við það hefur ekki verið staðið og nú spyr ég hæstv. iðnrh.: Hyggst hann standa við þetta loforð?

Það er ekki hægt að láta fjárhagsmálefni þessara hitaveitna, sem sjá fjölmennum byggðum fyrir orku, reka á reiðanum eins og gert hefur verið. Það er heldur ekki hægt að ætlast til þess að íbúar þessara svæða greiði langtum hærra orkuverð en aðrir íbúar landsins vegna þess hver þróunin hefur verið í gengismálum og vegna þess hvert, og í hvaða myntir lánum hefur verið beint.

Þá vildi ég beina þeirri almennu spurningu til hæstv. fjmrh. varðandi II. kafla þessara laga, hvort honum þyki það góð lögfræði eins og þar er sett upp, þ.e. fyrst setur Alþingi lög og síðan setur Alþingi önnur lög þar sem segir: Það er ekkert að marka þau lög sem við settum áður. Ég er ekki mjög menntaður í lögfræði, en það mikið veit ég að þetta er ekki góð lögfræði, og ég vona að hæstv. ráðherra sé mér sammála um það. Ég hef áður minnst á það hér að þessi vinnubrögð eru mjög til vansa. Útvarpslög voru samþykkt á Alþingi ekki alls fyrir löngu, á vordögum 1985. Og hér er komið inn í 27. gr. lánsfjárlagafrv. ákvæði sem snýr að útvarpslögunum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir ákvæði 22. og 23. gr. laga nr. 68/1985, úrvarpslaga, skulu tekjur á árunum 1986“ - taki menn eftir því, það er afturvirkt. Þetta er afturvirkt. Er það ekki rétt skilið hjá mér hæstv. ráðherra? Hér eru afturvirk lög gagnvart Ríkisútvarpinu - „og 1987 vegna aðflutningsgjalda af hljóðvarps- og sjónvarpstækjum ásamt fylgihlutum renna í ríkissjóð.“ Það er rík ástæða til að gera þetta mál að sérstöku umtalsefni hér vegna þess að fyrr á þessu ári óskaði Ríkisútvarpið eftir 10% afnotagjaldahækkun. Því var synjað.

Nú er það svo að það er ekki menntmrh. lengur, skv. gildandi útvarpslögum, sem ákveður afnotagjöldin, heldur á hann að staðfesta þau. Og það var almennur skilningur manna hér í fyrra þegar þessi lög voru afgreidd að með þessu fengi Ríkisútvarpið aukið sjálfræði um sínar tekjur. Það kom fram hér í umræðum ef ég man rétt. Engu að síður hefur ríkisstjórnin, að ég hygg, synjað um þessa 10% hækkun sem um var beðið og vitnar til þess að samið hafi verið við verkalýðsfélög um það að þjónustugjöld opinberra stofnana hækkuðu ekki á árinu. Gott og vel. Hvað gerist svo? Núna situr Ríkisútvarpið ekki lengur eitt að þeim auglýsingamarkaði á öldum ljósvakans sem það hefur setið eitt að í 55 ár. Hvað gerist? Það verður hrun í auglýsingatekjum Ríkisútvarpsins og ég fullyrði það hér og nú að á þessu ári stefnir í gífurlegan hallarekstur hjá Ríkisútvarpinu. Gífurlegan hallarekstur. Og ég get nefnt það sem dæmi að bara þau gjöld sem skv. þessari 27. grein á að taka afturvirkt af Ríkisútvarpinu - og oft hef ég heyrt talsmenn Sjálfstfl. tala um það hér að skattalög mættu ekki virka aftur fyrir sig - og ég sé ekki betur en að það gildi nákvæmlega það sama um þetta. Hvaða röksemdir mæla fyrir því að þessi lög séu afturvirk gagnvart þessari ríkisstofnun? Á fyrri helmingi þessa árs námu tekjur af innflutningsgjöldum sem áttu að renna til Ríkisútvarpsins, bara fyrstu 6 mánuði þessa árs, 60 millj. kr.

Eins og ég minntist á áðan þá eru nú komnir tveir aðilar sem keppa beint við Ríkisútvarpið, hin nýja „frjálsa“ útvarpsstöð og hin nýja „frjálsa“ sjónvarpsstöð, sem er byrjuð að senda út nú. Það fjármagn, sem fyrirtækin hafa til umráða til að auglýsa, eykst ekki við það að fjölmiðlum fjölgar. Auglýsingafjármagnið eykst ekki. Það kemur bara minna í hvers hlut. Augljós sannindi. Og það stefnir í verulegt hrun auglýsingatekna Ríkisútvarpsins. Nú spyr ég hæstv. fjmrh. og formann Sjálfstfl.: Er það, mér sýnist það, stefna Sjálfstfl. að knésetja nú Ríkisútvarpið í fjármálalegu tilliti á kostnað hinna svokölluðu „frjálsu“ stöðva sem hafa engar skyldur, bara réttindi? En Ríkisútvarpið, á það að hafa aðeins skyldur og engin réttindi? Mér sýnist það vera stefna þessarar ríkisstjórnar og það er satt að segja furðulegt ef öll ríkisstjórnin stendur óskipt að því - og hefði nú verið ástæða til að biðja hæstv. menntmrh. um að koma hér í salinn. Ég mælist til þess ef forseti getur sinnt þeirri minni ósk, vegna þess að ég vil heyra hann tjá sig um þetta líka. Hér er um að ræða stórmál sem varðar alla landsmenn. Hér er um að ræða mál sem varðar landsbyggðina. Hér er um að ræða öryggismál. Ríkisútvarpið er aðalöryggistæki íslensku þjóðarinnar ef til einhverra alvarlegra eða válegra tíðinda dregur hér á landi. Það nær um allt land. Þeir sem eru í þessum störfum, útvarpi og sjónvarpi, til að græða peninga, þeir hafa engan áhuga á útvarpi fyrir Djúpavog. Þeir hafa engan áhuga á útvarpi fyrir Búðardal. Þeir hafa áhuga á útvarpi fyrir þetta Stór-Reykjavíkursvæði og ekkert annað. Sem sagt: Réttindi. Engar skyldur. Þetta er mál sem varðar alla þjóðina og alla landsbyggðina. Spurningin er: Á nú að koma Ríkisútvarpinu, þessum fjölmiðli okkar allra, á kné með því að setja Ríkisútvarpið í fjárhagslega spennitreyju, eins og mér sýnist allt benda til að núverandi stjórnarflokkar séu að gera? Ég endurtek það, og bið þm. að hlusta grannt, að hér er um mjög alvarlegt mál að ræða.

Menn hafa sjálfsagt gaman af því að hér er komin ný útvarpsstöð, sem spilar létta tónlist allan daginn, og það er komin ný sjónvarpsstöð, sem sýnir einhvers konar framhaldsþætti og sápuóperur, sem svo eru kallaðar, löðurþætti og afþreyingarefni af svona heldur léttvægara tagi. Jú, jú, menn hafa sjálfsagt gaman af þessu. En ég spyr: Er þetta nú mikill menningarauki allt saman? Ég er ekki að vanmeta gildi afþreyingar með neinum hætti en, hafandi séð og heyrt, hef ég vissar efasemdir. Og æ finnst mér koma betur í ljós hversu góð dagskrá Ríkisútvarpsins og fjölbreytt í raun og veru er. - Ég geri ráð fyrir, virðulegur forseti, að hæstv. menntmrh. sé ekki í húsinu. (Forseti: Hæstv. menntmrh. er í húsinu. Það er verið að athuga hvort það næst samband við hann. Nú gengur hann í salinn.) - Ég var, hæstv. menntmrh., að óska eftir nærveru þinni hér vegna þess að mér sýnist uggvænlega horfa um hag mestu menningarstofnunar íslensku þjóðarinnar, Ríkisútvarpsins.

Hér í lánsfjárlögum er gert ráð fyrir að taka með afturvirkum hætti - og ég spyr nú hvernig ráðherranum falli það í geð - í 27. gr. lánsfjárlaga á að taka af Ríkisútvarpinu allar tekjur vegna aðflutningsgjalda af hljóðvarps- og sjónvarpstækjum ásamt fylgihlutum fyrir árin 1986 og 1987. Á fyrri helmingi þessa árs eru þetta 60 millj. kr. Og ég spyr, m.a. með tilliti til þess að fyrr á þessu ári var Ríkisútvarpinu synjað um hækkun afnotagjalda: Er það stefna ríkisstjórnarinnar og er það með samþykki hæstv. menntmrh. að koma þessari stofnun nú á kné eða a.m.k. að setja hana í fjárhagslega spennitreyju þannig að hún megi sig hvergi hræra? Mér þætti vænt um að fá svar við þessu.

Ég spurði líka áðan, og snertir nú málið einnig þennan hæstv. ráðherra, þá beindi ég því til eftirmanns hans í embætti, hæstv. iðnrh. , hvort ætlunin væri að standa við það loforð sem hæstv. núverandi menntmrh. gaf, sem iðnrh., um fjárframlag til Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar. Ég spurði hæstv. núverandi iðnrh., hvort hann hygðist standa við það loforð. Og ég spyr þá hæstv. núverandi menntmrh. hvort hann hafi í huga að hjálpa hæstv. eftirmanni sínum að standa við þetta loforð sem hann gaf á sínum tíma á fundi og ég hygg að hann muni vel eftir.