04.11.1986
Sameinað þing: 12. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 557 í B-deild Alþingistíðinda. (452)

23. mál, nýting heimavistarhúsnæðis í þágu aldraðra

Helgi Seljan:

Herra forseti. Aðeins örfá orð um þessa þörfu till. Hér er athyglisvert mál á ferðinni sem kallar á vandlega athugun. Ég held að kostirnir séu ótvíræðir þó að að ýmsu þurfi að gæta eins og hv. fyrri flm. kom inn á í ræðu sinni. Ég held að fáir nýtingarmöguleikar séu farsælli og betri gagnvart þessu húsnæði en þeir sem þarna er einmitt verið að fitja upp á. Og ekki þarf að taka það fram, eins og oft hefur verið tíundað í þessum ræðustól þótt þess sjáist kannske ekki eins mikil merki úti í samfélaginu, að hinir öldruðu eiga sannarlega skilið að allir möguleikar séu nýttir til þess að þeir geti unað sínum hlut sem allra best í ellinni. Og þeirri hugmynd sem hreyft er hér um tengsl við nemendur skólanna hlýt ég að fagna því að allir vita það, sem hafa komið nálægt þessum málum, að einangrunin er kannske einhver erfiðasti vandinn sem aldraðir glíma við.

Ég held hins vegar að við þyrftum að taka okkur nokkuð góða umræðu í það að þótt við höfum gert margt vel á liðnum árum og séum að gera sé margt athugavert við stefnu okkar almennt í málefnum aldraðra. Ég neita því ekki að dvalarheimili séu nauðsyn og stundum eru þau raunar eina óhjákvæmilega lausnin, m.a. alveg sérstaklega þegar heilsubrestur er annars vegar. En ég held að við höfum allt of lítið hugað að því að gera fólki kleift að búa að sínu eða hjá sínum sem allra lengst og inn í það kemur tryggingakerfi okkar á átakanlega fátæklegan hátt. Og í því efni getum við litið bara beint til hinnar hörðu peningahliðar miðað við kostnaðardæmið sem oft er vitnað til og oft litið á og þá fer ekki á milli mála að við höfum gengið allt of skammt í það að greiða umönnun heima fyrir þegar hún er fyrir hendi, þegar fólk er fúst til þess að hafa aldraða heima hjá sér. Ég hef það fyrir satt að ef litið er til kostnaðar á vistun á t.d. dýrustu dvalarheimilum, sem getur orðið margfaldur ofan á fullan lífeyri á hjúkrunardeildum, sé hann himinhrópandi miðað við umönnunargreiðslur sem greiddar eru inn á heimili í dag þó að þær séu í hámarki. Ég hygg jafnvel að þar geti verið um tífaldan mismun að ræða. Ef það er rétt sýnir það auðvitað best að við höfum vanrækt þennan þátt að færa þetta inn í tryggingakerfið í enn ríkara mæli því að ég er ekki búinn að trúa því enn að ekki sé til talsvert af fólki í þessu landi sem vill gjarnan hlúa að sínum heima fyrir ef það fær til þess nauðsynlega aðstoð og þarf þá ekki í staðinn að fara út á hinn almenna vinnumarkað til þess að sjá fyrir sér og sínum að öðru leyti. Svo er auðvitað alveg sér á parti, og þarf auðvitað ekki að taka það fram, hin mannlega hlið í þessu efni, að þetta fólk geti verið sem allra lengst heima eða búið annaðhvort að sínu eða hjá sínum.

Í sambandi við þetta vildi ég svo aðeins minna enn á tillögu sem ég hef gefist upp á að flytja hér á Alþingi. Ég hef oftlega hreyft henni hér. Hún er að vísu nokkuð lík þessari tillögu að hluta til en undirtektir hafa verið sorglega litlar og engin leið að fá hana afgreidda hér. Það er tillaga sem ég fékk í hendur einu sinni frá öldruðu fólki austur á Egilsstöðum, tillaga um nýtingu vel hýstra bújarða í nánd við heilsugæslustöðvar fyrir aldrað fólk sem gæti haft þar ekki aðeins athvarf heldur og ákveðna starfsemi sem veitti því lífsfyllingu og - mætti nú benda á það í sambandi við allan landbúnaðarvandann sem tíundaður er - auðveldaði m.a. öldruðu fólki í sveit að yfirgefa eigin jarðir fyrr en búa engu að síður áfram í svipuðu umhverfi og með tengsl við sína fyrri atvinnu. Ég held einmitt að núna á þessum tíma óvissu um framtíð fjölmargra bújarða í landinu, vel hýstra margra hverra, í nánd við þéttbýli þar sem heilsugæsla er fullnægjandi, væri full ástæða til þess að huga enn að þessari lausn en ég hreinlega nenni ekki núna á mínu síðasta þingi að vera að flytja þessa tillögu enn þá einu sinni svo litla umfjöllun sem hún hefur fengið hér, litlar undirtektir og auðvitað enga afgreiðslu. Ég veit ekki hvort þetta er vegna þess að þetta þykir fjarstæðukennt. Ég held að einmitt það að þessi tillaga er komin frá fólki sem veit og þekkir af eigin raun hvernig það er að flytja á elliheimili og rjúfa öll tengsl við umhverfi og fyrri iðju - þessa tillögu fékk ég á elliheimilinu á Egilsstöðum frá þessu fólki - segi nokkuð um það að þetta sé lausn sem a.m.k. beri að athuga.

Ég hlýt líka að minna á að þetta form hefur verið nýtt. Norðmenn hafa gert talsvert af þessu með mjög góðum árangri og ég veit ekki betur en að hér austur í sveitum hafi merkileg tilraun, sem minnir mjög á þessa úrlausn, heppnast mjög vel og reynst hið besta.

Að öðru leyti styð ég þessa till. heils hugar og vil að hún fái vandlega athugun og vona að hún fái ekki svipuð örlög og þessi tillaga sem ég minntist á áðan að vera svæfð æ ofan í æ án þess að væri einu sinni hugað að því á sama tíma og menn hafa staðið hér á öndinni í ræðustólnum hver á fætur öðrum um nauðsyn þess að gera eitthvað fyrir aldraða.