04.11.1986
Sameinað þing: 12. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í B-deild Alþingistíðinda. (455)

23. mál, nýting heimavistarhúsnæðis í þágu aldraðra

Flm. (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þær ágætu undirtektir sem þessi hugmynd hefur fengið hjá þeim hv. þm. sem hér hafa látið álit sitt í ljós. Ég gat þess m.a. í framsöguræðu minni að ég teldi að það mætti hugsanlega skoða nýtingu á öðru húsnæði en skólahúsnæði í þeim tilgangi sem hér er hreyft og get þess vegna tekið undir með hv. þm. Helga Seljan og þeirri tillögu sem hann hefur hreyft hér á þingi um að nota í þessu sama skyni bújarðir sem vel eru hýstar og gætu hentað til heimilis fyrir aldrað fólk í nágrenni þéttbýlis og þeirrar þjónustu sem nauðsynleg er. Ég hefði ekki á móti því að það yrði skoðað í nefnd að eitthvað yrði breytt texta tillögunnar á þann veg að hún tæki ekki eingöngu til skólahúsnæðis eins og hér er þó reyndar gert ráð fyrir.

Ég gat þess líka að ég teldi að eitt af því brýnasta sem þarf að skoða, þegar athugað er hvaða skólar kynnu að henta í þessu skyni, væri hvers konar félagslega þjónustu er þá að fá á því svæði eða í nágrenni þeirra og lagði þar einmitt sérstaka áherslu á hjúkrunarþáttinn. Ég held að ég hafi því ekki litið fram hjá því eða gleymt því neitt, en mér heyrðist þó á máli hv. þm. Kolbrúnar Jónsdóttur að hún teldi að ég hefði ekki tekið það með inn í dæmið.

Hvað varðar möguleika á því að fá starfsfólk á hjúkrunarstofnanir almennt finnst mér það vera út af fyrir sig annað mál. Þó að það kunni að vera vandamál er það óskylt till. þeirri sem hér er flutt eða því sem hér er verið að tala um. Ég lagði sem sagt sérstaka áherslu á að það yrði að líta til með því að hægt væri að fá þessa nauðsynlegu þjónustu á þessu svæði og einnig, sem hv. þm. Kolbrún Jónsdóttir nefndi og ég tók sérstaklega fram í minni framsögu, að það þyrfti að skoða hver þörf er á þjónustu á viðkomandi svæði og hvernig eru þessir skólar eða það húsnæði sem til greina kemur að nota í sveit sett varðandi aðra nauðsynlega þjónustu.

Ég get svo að lokum tekið undir það, sem kom fram í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, að sjálfsagt er að nýta húsnæði sem byggt er sem skólar fyrir skólahald ef þörf er fyrir það til slíks. Það hlýtur að eiga að sitja í fyrirrúmi. En hitt er staðreynd að við höfum á undanförnum árum verið að byggja fjölbrautaskóla í þéttbýli og einnig nýtt og stærra grunnskólahúsnæði sem hefur þýtt að unglingar úr nærliggjandi þéttbýlisstöðum hafa hætt að sækja heimavistarskóla til sveita og þessir skólar standa í dag lítt notaðir. Þetta eru staðreyndir sem við blasa og það er einmitt fyrst og fremst það húsnæði sem ég er að tala um og beina athyglinni að með þessum tillöguflutningi. Hitt get ég að sjálfsögðu tekið undir að fyrst ber að huga að því hvort hægt er að nýta þetta húsnæði sem skólahúsnæði.

Ég vil svo ítreka að ég vona að þessi till. fái ítarlega meðferð og að Alþingi nái svo langt að samþykkja hana jafnvel þó að þar verði einhverjar breytingar á frá því sem hér er lagt fram.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.