04.11.1986
Sameinað þing: 12. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í B-deild Alþingistíðinda. (463)

63. mál, bann við geimvopnum

Haraldur Ólafsson:

Herra forseti. Það fer ekki milli mála að sú till. sem hér liggur fyrir til umræðu snertir geysilega mikilvæg mál á sviði vopnaframleiðslu og vopnabúnaðar í heiminum. Hér er hvorki meira né minna en um að ræða hvort halda eigi áfram ógnvænlegu vopnakapphlaupi eða hvort eigi að spyrna við fótum og reyna að snúa ofan af þessari snöru sem hefur að hert mannkyni undanfarna áratugi.

Af hálfu framsóknarmanna höfum við boðað að við munum koma með eða styðja tillögur sem ganga í svipaða átt sem þessa, en rétt til útskýringar vildi ég geta þess að okkur virtist að við þyrftum að kanna nokkru nánar þá niðurstöðu sem fékkst af viðræðum leiðtoga risaveldanna og eins að fylgjast með hvaða stefnu þessi mál tækju á alþjóðavettvangi áður en við legðum fram okkar tillögu. En við munum koma með till. sem gengur í mjög svipaða átt og þessi. Ég vil einungis á þessum vettvangi lýsa yfir að við munum gera okkar til þess að utanrmn. flytji sameiginlega till. um þetta efni. Ég held að þetta mál sé svo mikilvægt að allir flokkar þurfi að sameinast um eina till. sem gæti þá verið framhald af gagnmerkri tillögu frá 23. maí 1985.

Ég tek undir öll meginatriði sem hér koma fram, en ég held að það þurfi að orða þetta á annan hátt. En ég vænti þess að við getum í utanrmn. náð samstöðu í þessu máli.