04.11.1986
Sameinað þing: 12. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í B-deild Alþingistíðinda. (467)

63. mál, bann við geimvopnum

Guðrún Agnarsdóttir:

Aðeins örstutt. Spurningin er ekki í raun um óþekktar niðurstöður í Auschwitz og spurningin er ekki í raun um nasisma þegar kemur að því að fjármagna rannsóknir í dag. Rannsóknir, og ég vil upplýsa hv. þm., eru yfirleitt þess eðlis að það er ekki vitað fyrir fram hver niðurstaðan verður. Ef það væri vitað, þá þyrfti ekki að gera rannsóknir. Þess vegna er það þannig að lögð eru fyrir ákveðin rannsóknarverkefni og forsendunum og verkefninu er lýst og því samhengi sem á að nýta niðurstöður þeirra er yfirleitt lýst líka. Hvort sem það eru Bandaríkin eða annar hluti heimsins, þá er um það að ræða að leggja fé til þess að fjármagna rannsóknir sem á að nota í vígbúnaðartilgangi. Það er alveg ljóst í hvaða tilgangi á að nýta þær. Ég vildi bara vekja athygli þm. á þessu, en ég ætlaði ekki að fara að ræða nasisma sem slíkan heldur kom ég með það sem dæmi til þess að benda á það að einhverjum fannst réttlætanlegt að fjármagna þær rannsóknir.