04.11.1986
Sameinað þing: 12. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í B-deild Alþingistíðinda. (468)

63. mál, bann við geimvopnum

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Að mínu mati hafa gerst nokkur tíðindi í þeirri umræðu sem fer fram um þetta mál. Tíðindi sem ég hlýt að vekja hér sérstaka athygli á. Ég vil þá í upphafi nefna það varðandi hv. 9. þm. Reykv., sem hér talaði, að ég tel það góðra gjalda vert að það skuli þó rofa til í hans málflutningi varðandi þessi efni og koma fram skilningur í þá átt að ástæða geti verið til fyrir Alþingi að álykta um málið og reyna að ná breiðri samstöðu, og ég vænti að ég hafi skilið þm. rétt, í ályktun gegn geimvopnum. Hins vegar átti þm. kost á því að gerast aðili að þessari till. en hafnaði því, annaðhvort af persónulegum ástæðum eða vegna afstöðu eigin þingflokks, þingflokks framsóknarmanna, og rökin fyrir því að hann er ekki samferða okkur flm. þessa máls eru að hann taldi eðlilegt að kanna nánar viðbrögð við afstöðu Reagans á Reykjavíkurfundinum. Fylgjast með hvaða stefnu þessi mál taki í framhaldi af uppsetningu Reagans á Reykjavíkurfundinum. Þetta segir nú talsvert um viðhorf innan Framsfl. og kemur út af fyrir sig ekki á óvart. En þar með er ég engan veginn að slá hendi á móti stuðningi frá framsóknarmönnum fremur en öðrum til þess að ná skynsamlegu landi, og það helst sameiginlega hér á Alþingi Íslendinga í þessu máli.

En ég hlýt að vekja athygli á því að það horfir ekkert vel ef ráða má í afstöðu manna sem hér hafa talað og þagað undir þessari umræðu, því auðvitað vekur það athygli að hv. 4. þm. Norðurl. v., Eyjólfur Konráð Jónsson, formaður utanrmn., hefur ekki talað við umræðuna. (Gripið fram í.) En á því verður ráðin bót. Hv. þm. kveður sér hljóðs. En hann ætlaði að láta nægja, svipað og gerðist með hæstv. utanrrh. hér um daginn, að í þessum ræðustól birtust skjaldsveinar hans, talsmenn Alþfl. og nú hv. formaður þess flokks, 5. þm. Reykv., til þess að verja þá afstöðu sem fyrir liggur skjalfest frá hæstv. utanrrh. í skýrslu hans til Alþingis í apríl s.l. Hvað var hv. 5. þm. Reykv., Jón Baldvin Hannibalsson, að segja hér áðan? Hann sagði okkur það margoft sem sína niðurstöðu í þessu máli: Það er hvorki rétt né skynsamlegt að taka afstöðu til rannsókna stjörnustríðsáætlunarinnar á meðan ekki er ljóst til hvers þær rannsóknir muni leiða. Hann er að styðja það, og ég hygg að hann mæli þar fyrir sinn flokk því einnig fulltrúar hans áttu þess kost að verða saman með okkur flm. þessa máls hér, vera aðilar að málinu. Og auðvitað vorum við reiðubúin til að skoða orðalag og annað sem að því lyti áður en það var lagt fram, en við því var ekki orðið, tilboði um það. Þannig að afstaðan kemur ekki svo mjög á óvart.

En það er fróðlegt fyrir þjóðina að verða vitni að þessari afstöðu. Það er fróðlegt fyrir þjóðina. Hér talar formaður Alþfl. sem hefur verið að reyna að skreyta sig með skilgreiningunni vinstra megin við miðju í stjórnmálunum. Hvar í litrófinu ætli hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson sé staddur á mælikvarða jafnaðarmannaflokka heimsins þegar litið er til þessa máls? Ætli hann sé þar einhvers staðar miðja vega? Eða ætli hann sé þar í hægri kanti eins og margir mundu nú segja að lægi ljóst fyrir? Nei, hann er ekki á blaði í þeim hópi eins og ég þekki til flokka sem kenna sig við jafnaðarstefnu og hafa lýst eindreginni andstöðu við stjörnustríðsáform Reagans og öllum hugmyndum um það að færa vopnakapphlaupið út í himingeiminn, þar á meðal á ráðstefnum Alþjóðasambands jafnaðarmanna, á þjóðþingum Evrópu, þar sem jafnaðarmenn hafa verið í forustu fyrir ályktunum gegn stjörnustríðsrannsóknunum, sem nú hafa orðið sögulegum afvopnunartillögum að fótakefli hér í Reykjavík, jafnaðarmenn sem ásamt sósíalistum á danska þinginu hafa knúið fram samþykktir sem binda utanríkisráðherra Danmerkur í hægri stjórn Schlüters í afstöðunni á alþjóðavettvangi til þessa máls og þar sem ítrekað var samþykkt dagskrártillaga í tvígang í fyrra á danska þinginu gegn stjörnustríðsáformunum. Sama liggur fyrir hjá Jafnaðarmannaflokki Noregs. Sama liggur fyrir hjá Jafnaðarmannaflokki Vestur-Þýskalands, sósíaldemókrötum þar, öllum að ég hygg, þar á meðal frá Helmut Schmidt, skýrt og greinilega, manni sem þó varð viðskila við sinn flokk í sambandi við afstöðuna til að setja upp eða koma fyrir Pershing- og Cruiseieldflaugum í Evrópu. Einnig hann er með í hópi þeirra jafnaðarmanna á vestur-þýska þinginu sem einróma ganga fram í fordæmingu á þessum glæfralegum áformum. En hér kemur formaður Alþfl. upp í ræðustól og segir: Við verðum að bíða af okkur rannsóknirnar, sjá til hvers þær leiða. Árið 1989 hafa þessar rannsóknir, ef vilji Bandaríkjastjórnar nær fram að ganga, kostað bandaríska skattgreiðendur 32 milljarða bandaríkjadala, 1300 milljarða ísl. kr. að jafngildi. Það eru þessar rannsóknir sem eiga að fara fram og formaður Alþfl. ætlar ekkert að kveða upp úr um afstöðu sína fyrr en að þeim loknum. Og þetta er bara upphafið.

Ég er hér með greinar handa á milli úr virtum erlendum tímaritum og það má einnig lesa í fskj. með þessari till. þar sem staðhæft er og rökstutt að þetta kerfi stjörnustríðs verður aldrei sannprófað í formi tilrauna, heldur aðeins ef í harðbakkann slær og ragnarökin ganga yfir mannkyn.

Hv. 5. þm. Reykv. segir okkur: Þetta er ekki tæknilegt mál, þetta er pólitískt mál. Spurning um pólitískan vilja. Ég er honum sammála um það efni. Þetta er spurning um pólitískan vilja og um þann vilja er m.a. spurt, ekki bara á Alþingi Íslendinga heldur á þjóðþingum heimsins, á þjóðþingum þeirra ríkja sem búa við lýðræðisskipulag eru þessi mál til opinnar og víðtækrar umræðu. Á Bandaríkjaþingi hafa þau verið rædd og þar hafa menn náð saman um að skerða verulega fjárveitingar til þessarar áætlunar og það verður að vænta þess, eftir að ljóst er inn í hvaða samhengi forseti Bandaríkjanna setur þessi mál, að sú sterka andstaða sem ríkir á Bandaríkjaþingi gegn þessum vísindadraumum, eins og formaður Alþfl. nefndi þá, að sú andstaða verði til þess að girða fyrir fjárveitingar til þessara rannsókna sem forsetinn neitar að binda við tilraunastofur eða takmarka því að engin gagntilboð komu þar að lútandi.

Við heyrðum það líka frá formanni Alþfl. hver er bakgrunnur þessa málflutnings. Það eru viðhorf, ef ég hef skilið hann rétt, til þjóðfélagskerfa, til stjórnskipunar í einstökum ríkjum, þar á meðal í Sovétríkjunum, sem binda þm. í afstöðu til þessa máls. Binda formann Alþfl. í afstöðu til þessa máls og setja hann út af litrófinu á mælikvarða sósíaldemókrata í heiminum og gera hann einstakan, sem hann auðvitað er með allri sinni afstöðu, sem Alþfl. og talsmenn hans eru að túlka hér í hverju málinu á fætur öðru á Alþingi Íslendinga. Það er ekki bara í þessu stóra máli. Öll þau mál, utanríkismál, sem gætu verið ásteytingarefni gagnvart Sjálfstfl., sem er jú glórulaus í þessum málum eins og málflutningur hans hefur birst hér á Alþingi til þessa. Þess skal gætt vandlega af formanni Alþfl. að þar komist ekki einu sinni skugginn á milli. Jafnvel ályktanir Alkirkjuráðsins í málefnum þriðja heimsins mega ekki verða ásteytingarefni á þeim bæ. Því að vissulega gafst Alþfl. tækifæri til að gerast meðflutningsaðili á till. fulltrúa þriggja þingflokka sem leggja fram till. um að taka undir ályktun Alkirkjuráðsins í málefnum fátæks ríkis í Mið-Ameríku sem þrengt er að af forusturíki lýðræðisaflanna í heiminum, eins og þau eru stundum kölluð á bæ Jóns Baldvins Hannibalssonar, hv. 5. þm. Reykv. Þrengt að gegn alþjóðalögum eins og dómstóllinn í Haag hefur kveðið upp úr um. Og þannig er hægt að rekja eitt mál af öðru sem tengjast afvopnun. Alþfl. hleypur hér upp, talsmenn hans hér á Alþingi, sem skjaldsveinar íhaldsins, sem telur varla ástæðu til þess, hafandi þó utanrrn. í ríkisstjórninni, að taka til máls um mál af þessu tagi þó hér eigi eftir úr að rakna.

Ég hlýt, herra forseti, að lýsa yfir hryggð með þá afstöðu sem fram hefur komið af hálfu formanns Alþfl. í þessu örlagaríka máli og afstöðu þess flokks í máli eftir mál sem snerta vígbúnaðarkapphlaupið því að það hlýtur að vega þungt í hugum hvers einasta manns hver er afstaða íslenskra stjórnmálamanna í þessum efnum, ekki síst eftir að við höfum orðið vitni að togstreitu milli risaveldanna og skilyrðum sem urðu til þess að árangur varð ekki hér í Reykjavík í reynd og auðvitað vonum við öll að dyrum sé þar ekki lokað milli þeirra aðila sem þar ræddust við. En það er ljóst að af hálfu talsmanns Alþfl. hér á ekki að hjálpa til að tryggja framgang þeirra markmiða sem þar voru til umræðu og sem áttu aðeins að verða fyrsta skrefið, en þó stórt skref, í átt til afvopnunar, að slíðra kjarnorkuvopnin.

Fleiri orð þarf ég ekki hér að hafa. Ég vænti þess að virðulegur forseti gefi mér tækifæri til athugasemdar hér, ef ástæða er til síðar í umræðunni, en ég legg til að málinu verði vísað til utanrmn. og el enn þá von í brjósti í ljósi allra þeirra raka sem liggja að baki þessu máli að utanrmn. nái saman efnislega um ályktun eins og hér er mælt fyrir.