04.11.1986
Sameinað þing: 12. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 581 í B-deild Alþingistíðinda. (469)

63. mál, bann við geimvopnum

Haraldur Ólafsson:

Herra forseti. Ég held að það hljóti að koma mjög á óvart hve hv. 5. þm. Austurl. gerir lítið úr stuðningsyfirlýsingum sem hann fær við sínar till. Ég hélt að ég hefði í örfáum orðum skýrt afstöðu mína og afstöðu flokksins til þessarar till. Við erum samþykkir efni hennar. Við höfðum í undirbúningi aðra till. sem gengur í sömu eða svipaða átt þannig að okkur þótti ekki ástæða til að vera á þessari till., töldum að það mundi hægt í utanrmn. að samræma sjónarmið og helst að fá samhljóða till. úr nefndinni. Það tel ég langtum heppilegra í málum en hver standi eins og reiður hani framan í öðrum og rífist um það sem er raunverulega ekki þess virði að rífast um. Það er hægt að gera öll mál að deilumálum. Það er mjög lítill vandi. En það getur verið dálítill vandi og menn þurfa að gefa dálítið eftir til að ná samkomulagi sem er langtum hagstæðara en ætla að berja fram með offorsi einhver mál sem í raun og veru er mjög auðvelt að leysa.

Ég endurtek einungis að við í Framsfl. erum sammála efni þessarar till., við viljum athuga fleiri atriði í sambandi við hana og við erum reiðubúnir til sem víðtækasts samkomulags um þetta efni. Persónulega tel ég að þetta sé eitt af hinum stóru málum sem nú eru efst á baugi í heiminum og það er í raun og veru ekki spurning um rannsóknir eða ekki rannsóknir. Það er spurning um stefnu. Hv. 5. þm. Reykv. segir: Þetta er spurning um pólitík. Það er alveg rétt. Hér er spurning um pólitík risaveldanna að ræða sem þjóðir heims hafa fullan rétt á að skipta sér af og koma í veg fyrir þá röngu stefnu sem ég tel að fylgt sé og fylgt hafi verið í þessu máli.

Hér er ekki einungis um að ræða gífurlegt fjármagn sem beinist að því einu að búa til kerfi sem þegar grannt er skoðað er raunverulega kerfi til þess að vera öruggur fyrir gagnárás. Að því leyti virkar þetta kerfi öfugt við það ógnarjafnvægi sem þó hefur haft ákveðin áhrif á undanförnum áratugum. Þetta er röskun á ógnarjafnvæginu og það er einmitt þessi röskun sem ég tel hættulegasta atriðið í þessu máli. Með því að stefna að slíku kerfi er í raun og veru verið að koma málum þannig fyrir að eitt ríki geti varist gagnárás. Sem sagt: þetta styður möguleika eins ríkis til að gera árás á annað án þess að hljóta það svar sem þýði eigin eyðingu.

Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta meira. Þetta er pólitískt mál. Þetta er mál sem þjóðir heims láta sig skipta. Ég tel algerlega fráleitt að draga menn í dilka eftir hægri eða vinstri í þessu máli. Hér er raunverulega um að ræða: Eigum við að raska því jafnvægi sem er eða eigum við að vinna að því að annar aðilinn, hvort sem hann er í austri eða vestri, nái þeirri yfirburðastöðu að hann geti ráðið málefnum heimskringlunnar?