04.11.1986
Sameinað þing: 12. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 585 í B-deild Alþingistíðinda. (473)

63. mál, bann við geimvopnum

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Viðbót hv. 5. þm. Reykv. breytti út af fyrir sig engu í því mati sem ég lagði á hans málflutning. Ég vil aðeins segja það við lok þessarar umræðu að ég þakka þeim sem tekið hafa þátt í henni um þetta afar þýðingarmikla mál. Mér sýnist að það hafi komið fram skoðanir manna, skiptar enn sem komið er í þessu efni, en vonandi leiðir það ekki til þeirrar niðurstöðu að menn geti ekki sameinast með skynsamlegum hætti um efnislega niðurstöðu í anda þeirrar tillögu sem hér er flutt.

Varðandi málflutning virðulegs formanns utanrmn., þá kemur hann mér vissulega nokkuð á óvart, en kannske er það aðeins af hinu góða að það sé lýst inn í hugarfylgsni manna hér á Alþingi og það komi fram í orðum manna úr þessum virðulega ræðustól. Ég vona samt að þau viðhorf sem endurspegluðu sig í máli hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar verði ekki til að loka þeim gluggum sem ég hélt að hann ætti til að líta út um og á stundum vilja til vissrar víðsýni. Ég álykta sem svo að það sé eitthvað í þessum tillöguflutningi og þeim bakgrunni sem varðar geimvopnin sem hleypi hv. þm. kapp í kinn til varnar þeim hugsjónum sem hann telur sig vera að mæla fyrir. E.t.v. er þó einnig að nokkru leyti um vanþekkingu að ræða eða að menn hafi ekki kynnt sér mál til þeirrar hlítar sem þörf er á í svo stóru og þýðingarmiklu máli sem þessu. Það hlýtur auðvitað að vera skylda okkar sem veljumst til setu í utanrmn. Alþingis að við leggjum okkur þar alla fram um að átta okkur á samhengi mála því að ég er þeirrar skoðunar að rödd Íslands þurfi að heyrast og eftir henni verði væntanlega meira tekið en áður á alþjóðavettvangi, nú í bili a.m.k., eftir að við höfum með ágætum verið gestgjafar fyrir leiðtogafund stórvelda sem hér réðu ráðum sínum um daginn.