15.10.1986
Efri deild: 3. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í B-deild Alþingistíðinda. (48)

24. mál, lánsfjárlög 1987

Jón Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Ég vil leggja hér örfá orð í belg um frv. til lánsfjárlaga. Ég tek undir það sem fram hefur komið í umræðunni að það er mjög mikilvægt að hægt sé að leggja fram lánsfjárlög svona snemma að hausti. Það urðu þáttaskil á síðasta þingi í þessu efni. Ég get ekki látið hjá líða að þakka starfsliði fjármálaráðuneytisins og Fjárlaga- og hagsýslustofnunar fyrir þá miklu vinnu sem lögð hefur verið í þessi tvö frv., fjárlagafrv. og lánsfjárlagafrv.

Þetta frv. gengur að lokinni þessari umræðu til fjh.- og viðskn. Ég á sæti í þeirri nefnd og hef að sjálfsögðu tækifæri til þess að fjalla þar nánar um einstaka þætti frv.

Lánsfjárlögin eru veigamikil varðandi ríkisfjármálin og fela í sér nokkur stefnumarkandi atriði. Ég ætla ekki að ræða um þau langt mál en tvö atriði eru mjög þung á metunum í mínum huga í sambandi við lánsfjárlögin.

Þau þáttaskil verða með lánsfjárlögunum að opinberar erlendar lántökur eru minnkaðar og afborganir eru nú meiri en ný lán. Þetta er afar mikilvægt því að vaxtagreiðslur og afborganir af erlendum lánum hafa vaxið mjög á undanförnum árum og hafa verið þjóðarbúinu mjög þungbærar. Vaxtalækkun á erlendum mörkuðum hefur haft gífurlega þýðingu fyrir efnahagsþróunina í jákvæða átt og skuldastaða okkar gagnvart útlöndum hefur úrslitaáhrif í atvinnulífi okkar og efnahagslífi.

Í öðru lagi er sú stefna mörkuð að renna stoðum undir atvinnulífið í landinu og það er í rauninni eina færa leiðin í stöðunni, okkar skuldastöðu, að auka framleiðsluna til þess að við séum betur í stakk búin til þess að greiða upp okkar erlendu skuldir. Það er eina færa leiðin. Lánsfjárlög gera ráð fyrir að Byggðastofnun taki lán til þess að renna stoðum undir hraðfrystiiðnaðinn í landinu en hluti hans hefur átt í erfiðleikum og ég vil undirstrika mikilvægi þessarar lántöku.

Ég vil einnig benda á að í þessari áætlun er gert ráð fyrir lántöku til Þróunarfélags Íslands sem á að vinna að nýjungum í atvinnulífinu og efla þar nýsköpun. Þetta tel ég afar mikilvægt atriði til þess að treysta atvinnulífið í landinu sem er undirstaða batnandi hags og bættra lífskjara. Það er nokkuð leggjandi á sig fyrir þessi grundvallaratriði. Auðvitað hefði maður óskað sér hærri framlaga í þessari áætlun til ýmissa þarfra mála, til ýmissa sjóða. Eins og fram hefur komið eru hér skerðingarákvæði sem eru m.a. til komin vegna þess að þm. hafa í bjartsýni sett lög um ýmsa málaflokka sem síðan hefur reynst erfitt að standa við. Þessi skerðingarákvæði eru ekki ný af nálinni. Það er ekki nýlunda í þessu frv. að þau sjái dagsins ljós.

Ég verð þó að benda á ákvæði í 22. gr. um skert framlag til Ferðamálasjóðs og í 23. gr. um Félagsheimilasjóð. Varðandi Ferðamálasjóð má segja það að ferðamál eru vaxtarbroddur í atvinnulífinu víða og það er umhugsunarefni hvort rétt er að skerða þessi framlög ár eftir ár. Ég mun ræða þessi mál nánar í meðferð fjh.- og viðskn. og fá um þau nánari upplýsingar. Hvað Félagsheimilasjóð varðar eru þar mjög mikil verkefni og langur skuldahali. Það er spurning hvort hann getur haldið uppi starfsemi öllu lengur og hvaða möguleika hann hefur til að standa við sínar skuldbindingar. Ég mun óska upplýsinga um það í meðförum fjh.- og viðskn.

Ég sé ekki ástæðu til þess að setja á langa ræðu um frv. til lánsfjárlaga við þessa 1. umr. Ég hef tækifæri, eins og ég hef komið að, til að afla mér nánari upplýsinga um einstök atriði frv. í meðförum fjh.- og viðskn. og mun láta þetta nægja að sinni í umfjöllun um frv.