04.11.1986
Sameinað þing: 12. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í B-deild Alþingistíðinda. (480)

104. mál, bifreiðakaup öryrkja

Flm. (Helgi Seljan):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um bifreiðakaup öryrkja.

Ég tek undir það með hv. síðasta frummælanda hér að það eru vissulega óhæfilega fáir hér í þingsal og þarf nú klukkan ekki að vera langt gengin sex til þess að svo sé, því að margt mætti betra um þm. segja, held ég, en það að þeir sætu kyrrir og rólegir hérna í salnum og hlýddu á mál manna, en síst þegar líður á fundartíma. Hitt segi ég svo að ég tel það miklu meira máli skipta að koma málum til nefndar

þannig að þau fái þar umfjöllun þó að ég hafi ekki svo marga áheyrendur, enda vanur því að mæla þannig fyrir málum nú ár eftir ár og segi það hv. frummælanda síðasta máls til huggunar að stundum hafa færri verið í salnum, eða aðeins forseti og frummælandi þegar svo hefur borið við og ég þekki þess nokkur dæmi, en það hefur þó orðið til þess að málin hafa komist til nefndar og til þeirrar vinnslu sem nauðsynleg er. En bót er því ekki mælandi engu að síður.

Þessi till. til þál. er flutt af okkur hv. þm. Karvel Pálmasyni, Guðmundi J. Guðmundssyni og Maríu Jóhönnu Lárusdóttur og er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að endurskoða lög og reglur um eftirgjöf bifreiðagjalda til öryrkja með það að leiðarljósi að öryrkjar njóti áfram samsvarandi fyrirgreiðslu og þeir hafa haft umfram almenna bifreiðakaupendur varðandi kaup þeirra á bifreiðum.“

Ég hirði ekki um að lesa grg. þá með þessari till. sem hér er og þau tildrög sem þar eru tilgreind, en í lok hennar segir þó að aðstæður öryrkja séu þær í dag að sjaldan hafi verið meiri nauðsyn en nú að viðhalda áður fengnum réttindum þessa fólks. Það þarf heldur ekki að rifja það upp eða rekja aðdraganda þessa máls. Tollalækkun á bifreiðum var á s.l. vetri sett upp sem almennt kjaraatriði, sem kjarabót jafnt yfir alla línuna. Það skal ekkert fjölyrt um það nú hversu jafnt þetta kom fram meðal launafólks almennt og annarra þeirra, er taka beint mið af almennum kauptöxtum í landinu, svo sem er um öryrkja og aldraða óumdeilanlega, með þeim annmörkum þó sem prósentubreyting hefur á svo lágan tekjugrunn sem þar er til viðmiðunar. En alla vega er það hverjum og einum dagljóst að hin almenna tollalækkun bifreiða var eða átti að vera hluti af kjarabót öryrkja ekki síður en annarra.

Það að eiga völ eða hafa átt völ á ódýrari bifreið en almennt gerist á undanförnum árum hefur reynst mörgum öryrkjanum ómetanleg hjálp, m.a. og sér í lagi til þess að öðlast betra hlutgengi til ýmissa verka í þjóðfélaginu, til ýmissa tómstunda og annars slíks og því kom það sem köld vatnsgusa í andlit þeirra að þessi almenna kjarabót í þjóðfélaginu ætti að þýða það að þeir sætu við sama borð og aðrir hvað varðaði kaup á bifreiðum sér til handa eða því sem næst. Mótmæli komu frá stærstu samtökum öryrkja í landinu þegar ljóst var að hámarksupphæð sú, sem fengist gat umfram hinn almenna bifreiðakaupanda, var aðeins 25 000 kr. og þaðan af lægri væri ódýrari bifreið keypt eins og vitanlega er mjög algengt hjá öryrkjum með þröngan kost þó ýmsir séu á þann veg settir að þeir verða að fá dýrari og fullkomnari gerðir og ýmiss konar aukaútbúnað til viðbótar.

Í umræðum um þessi mál á Alþingi í fyrra sagði hæstv. fjmrh. að heimildir skorti í lögum til að ganga lengra. Strangt til tekið mun það rétt. Ég veit að fulltrúar og forsvarsmenn öryrkjafélaganna voru og eru tilbúnir til að skoða ýmsar leiðir til þess að öryrkjar geti í einhverjum mæli búið við sambærileg hlunnindi við það sem áður hefur verið. Það var rætt og er enn þá rætt um vissa niðurfellingu söluskatts, hvort það sé leið. Það var og er rætt um ákveðna fasta upphæð sem greidd yrði. Það var og er rætt um ákveðna greiðslu í gegnum tryggingakerfið. Og m.a., eins og segir í grg., þá opnaði hæstv. fjmrh. sjálfur fyrir þá hugmynd í umræðum um þetta mál, að vísu í knöppu svari við fsp. frá okkur hv. 3. þm. Vestf., Karvel Pálmasyni.

Menn gætu sagt sem svo nú þegar þessi till. er flutt: Því gera flm. ekki till. um eitthvert ákveðið form? Af hverju flytjið þið ekki frv. um þetta mál, takið einhverja ákveðna leið út úr og óskið eftir lögfestingu á henni? Að sjálfsögðu var það hægt. En ég held að hér sé farin enn eðlilegri leið að virkilega sé kannað ofan í kjölinn hversu réttlátlegast og eðlilegast sé að koma til móts við öryrkja í þessu máli, hversu þessu megi sem best koma fyrir þannig að áfram megi öryrkjar hafa réttlátt og sjálfsagt forskot fram yfir hinn almenna bifreiðakaupanda, svo sem lengi hefur verið.

Löggjafinn hefur um langa hríð viðurkennt þörfina á þessum hlunnindum, ef svo má kalla, til handa öryrkjum og hér er nú um svo mikla og ótvíræða afturför að ræða að við svo búið má ekki lengur láta standa. Leiðina ber okkur að finna sem besta og skilvirkasta því að söm er þörfin sem áður og síst minni og forréttindi öryrkja, ef nota má það orð, eru ekki svo mörg eða mikil í samfélaginu að þeir megi við því að missa í neinu fótfestu þar.

Ég fullyrði enn og aftur að þessi umframaðstoð hefur verið ómetanleg fyrir marga og hún á að verða það áfram, umframhjálp samfélagsins þeim til handa sem mest þurfa á að halda. Við flm. teljum sjálfsagt að um þessi mál verði haft fullt samráð við samtök öryrkja því þar er áhugi mikill fyrir hendi að finna þessu máli eðlilegan farveg, farsæla lausn. Þar er engin óeðlileg kröfuharka á ferð fremur en í öðru hjá þeim samtökum. Aðeins það að þarna vilja samtökin tryggja umbjóðendum sínum sem sambærilegastan hlut við það sem um árabil hefur verið í gildi.

Ég treysti á atfylgi hv. alþm. að taka jákvætt á máli þessu, samþykkja þessa till. í einhverju því formi sem mönnum þykir aðgengilegast og sjálfsagðast og trúi engu öðru en því að stjórnvöld vilji leggja sig fram um að finna þessu máli, í framhaldi af ályktun Alþingis, unandi úrlausn. Eitt er víst, það er engin hætta á að það verði ofgert við þennan þjóðfélagshóp þó við tökum hér á til samræmis við það sem hefur áður verið gert um árabil.

Ég vil svo, herra forseti, að lokinni þessari umræðu leggja til að till. verði vísað til hv. félmn.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað