05.11.1986
Efri deild: 9. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í B-deild Alþingistíðinda. (483)

22. mál, framhaldsskólar

María Jóhanna Lárusdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil lýsa ánægju okkar Kvennalistakvenna með að frv. um framhaldsskóla skuli vera lagt fyrir hið háa Alþingi.

Framhaldsskólamenntun hefur tekið miklum breytingum, allverulegum á síðasta áratug, og er orðin fjölþættari en áður var og nemendafjöldinn hefur aukist að miklum mun. Skortur á heildarstefnu framhaldsmenntunar hefur leitt til margvíslegs vanda sem einkum hefur bitnað á nemendum og leitt til aukins álags á kennara og stjórnendur framhaldsskólanna og voru þó störf þeirra ærin fyrir.

Í útdrætti úr óbirtri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar um skólamál á Íslandi, sem greint var frá í Ríkisútvarpinu hér á dögunum og flm. ræddi um hér í framsögu sinni, kom fram að ástandið í menntamálum okkar er ekki glæsilegt. Voru tilgreindar margar ástæður fyrir þeim vandamálum sem blasa við hvarvetna í skólakerfinu. Ein þeirra var talin sú að hér væri engin heildarstefna í menntun á framhaldsskólastigi. Það er því löngu orðið tímabært að á Alþingi sé hafin umræða um skólakerfi okkar og menntamál almennt og fagna ég því þessu frv. sem vonandi á eftir að hleypa þeirri umræðu af stað. Frv. er mjög ítarlegt og viðamikið - m.a. er þar kafli um fjarkennslu en við Kvennalistakonur lögðum fram á síðasta ári frv. þess efnis. Það eru því mörg efnisatriði í frv. sem þarf að kanna vandlega og samræma. Frv. verður væntanlega lagt fyrir menntmn. en þar á þingkona okkar, Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, sæti. Ég tel því eðlilegt að frv. fái þar umfjöllun áður en við Kvennalistakonur tökum afstöðu til einstakra efnisþátta þess.