05.11.1986
Efri deild: 9. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í B-deild Alþingistíðinda. (484)

22. mál, framhaldsskólar

Davíð Aðalsteinsson:

Hæstvirtur forseti. Ég vil fyrst láta það koma fram að mér finnst þakkarvert þegar þm. flytja frv. og ekki síst af þessum toga.

Hv. þm. Ragnar Arnalds kvartaði mikið yfir fréttaflutningi og ekki síst því að fréttamaður hefði látið í það skína að þm. hefðu engan áhuga fyrir þessum málum. Nú er það mála sannast að frv. um framhaldsskóla hafa áður verið lögð fram og þá af menntamálaráðherrum, frv. sem væntanlega hafa verið undirbúin í samvinnu við viðkomandi þingflokka, þannig að hinir almennu þm. hafa fyrr komið að þessum málum en nú.

Þetta frv. er, eins og hv. 1. flm. hefur komið að, nokkuð frábrugðið þeim frv. sem hingað til hafa verið flutt. Ég ætla ekki að fara djúpt í sakir en ég satt að segja efast um þær kosningaaðferðir sem lagðar eru til í frv. og þá er ég með í huga kjör fræðsluráðanna.

Eins og þessar frvgr. koma mér fyrir sjónir óttast ég að þarna geti orðið um að ræða mjög harða og óvæga kosningabaráttu, jafnvel það að pólitík verði með óvægari hætti blandað inn í skólamálin en þó nokkurn tíma er nú. Ég óttast það.

Ég get að ýmsu leyti tekið undir orð hv. 1. flm. þess efnis að það beri að færa völd og ábyrgð til sveitarfélaganna sem næst vettvangi og að það fari sem mest saman fjárhagsleg og verkleg ábyrgð. Ég get tekið undir það. Hitt vil ég jafnframt taka undir að það er óþolandi misræmi varðandi stofnun framhaldsskólanna eins og hún hefur verið hingað til. Þá er ég m.a. með í huga menntaskólana og fjölbrautaskólana.

Áfram varðandi stjórnunarfyrirkomulagið. Ég efast jafnframt um að það sé hið heppilegasta fyrirkomulag að skólastjóri einn hafi með höndum ráðningu kennara. Þar finnst mér hv. flm. ganga þvert á þá stefnu sína að auka lýðfrelsi, lýðræðislegar ákvarðanir. Í grunnskólanum er þetta þannig eins og allir vita að skólanefndir hafa með höndum ráðningu kennara, að vísu er þeim skylt að bera slíkar ráðningar undir skólastjóra. Reyndar er það menntmrn. sem staðfestir þá ráðningu endanlega, en það eru skólanefndirnar sem hafa afskaplega mikið um það að segja og ég hygg að í langfæstum tilvikum, í undantekningartilvikum, gangi ráðuneytið yfir viðhorf skólanefnda í þessu efni. Þegar slíkt hefur gerst er það býsna áberandi og sporin hræða í hverju slíku tilviki.

Hæstv. forseti. Ég sagðist ekki ætla að fara djúpt í sakir varðandi þetta frv., en ég mun heils hugar taka þátt í þeirri umræðu sem óhjákvæmileg er vegna tímabærrar löggjafar um framhaldsskólann. Að ýmsu leyti er sá dráttur sem orðið hefur á setningu löggjafar um framhaldsskólann skiljanlegur. Við skulum viðurkenna að vegna örra breytinga og vegna óvissu að ýmsu leyti um þróun okkar samfélags höfum við alþm., og kannske ekki síst af þeim sökum, alls ekki verið tilbúnir að festa í lög þessi mál. Í þessu efni er spurning að hve miklu leyti slík lagasetning bæri vott um framtíðarsýn og að hve miklu leyti hún væri staðfesting á orðnum hlut, reynslu liðinna ára varðandi stofnun, rekstur og allt fyrirkomulag framhaldsskólans.

En ég endurtek: Ég er tilbúinn að ræða þessi mál, taka þátt í umræðu um þau. Þetta frv. verður að sjálfsögðu til meðferðar í menntmn. Reyndar á ég ekki sæti í þeirri nefnd, en mér þykir ólíklegt að frv. verði afgreitt frá nefndinni án þess að slíkt kæmi fyrir þingflokka.