15.10.1986
Efri deild: 3. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í B-deild Alþingistíðinda. (49)

24. mál, lánsfjárlög 1987

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Frú forseti. Ég ætla að víkja í örfáum orðum að nokkrum þeirra athugasemda og spurninga sem fram hafa komið í umræðunum. Það er rétt sem bent hefur verið á í þessari umræðu, bæði af hv. 5. landsk. þm. og hv. 3. þm. Norðurl. v., að undirbúningur fyrir þessa umræðu af hálfu stjórnarandstöðunnar hefur eðli máls samkvæmt verið skammur, en það er hins vegar svo að meira hefur verið deilt á ríkisstjórnir á undanförnum árum fyrir það að koma of seint fram með lánsfjárlagafrv. en of snemma. Nú er lánsfjáráætlun lögð fram með fjárlagafrv. og frv. til lánsfjárlaga kemur fram á sama tíma. Ein er sú gagnrýni, sem fram hefur verið sett af þeim sökum að lánsfjárlagafrv. hefur komið seint fram, að þar með gæfist nefndum skemmri tími til þess að fjalla um frv. En með því móti að það kemur nú fljótt fram og er tekið strax til umræðu vinnst á móti því að undirbúningstími fyrir þessa umræðu er skammur að nefndin hefur rýmri tíma til umfjöllunar og við eigum síðan eftir að fjalla um frv. við tvær umræður.

Formaður fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar hefur tjáð mér að hann ætli að kalla nefndina saman eftir helgi, þannig að það sýnir eitt með öðru að góður tími gefst til umfjöllunar um málið á þeim vettvangi áður en til 2. umr. kemur. Enn fremur er rétt að taka fram að af hálfu Fjárlaga- og hagsýslustofnunar hefur þingflokkum verið boðið að sérfræðingar komi á fund þingflokkanna til þess að skýra tæknilega frá atriðum sem felast bæði í fjárlaga- og lánsfjárlagafrv. Ég geri ráð fyrir, eins og fram kom hjá hv. 5. landsk. þm., að þeir fundir byrji í dag.

Hv. 8. þm. Reykv. taldi að þetta frv. bæri sérstök einkenni þess að ríkisstjórnin væri ríkisstjórn kerfisins og að hún vildi í engu slá af miðstjórnartökum á efnahagslífinu. Fyrir þessari fullyrðingu voru að vísu engin rök færð fram heldur einungis hefðbundin upphrópun af hálfu hv. þm. Ég vil þó benda á eitt atriði, sem fram kemur í þessu frv. og er stefnumarkandi að þessu leyti, að fjárfestingarsjóðirnir hafa nú frjálsræði með hvaða hætti þeir taka þau lán erlendis sem þeir fá heimild til skv. þessum lögum. Fram til þessa hafa lántökur þeirra verið bundnar við Framkvæmdasjóð, þeir hafa verið neyddir til þess að taka lán sín í gegnum Framkvæmdasjóð. Nú hafa þeir frjálsar hendur í þessu efni. Þeir geta falið Framkvæmdasjóði þetta, þeir geta óskað eftir því að ríkissjóður annist þessar lántökur og þeir geta tekið þessi lán sjálfir erlendis ef þeir telja sér það hagkvæmt. Þetta er eitt af þeim fjölmörgu atriðum sem færa má fram og sýna einmitt það að markvisst hefur verið unnið að því að slaka á miðstjórnartökum á efnahagslífinu og auka frelsi á peningamarkaðinum.

Hv. 8. þm. Reykv. hélt því enn fremur fram að enginn árangur hefði orðið af því að draga úr erlendum lánum. Þó kemur það mjög skýrt fram að þetta hlutfall langra erlendra lána af landsframleiðslu hefur lækkað úr 55% frá því í fyrra niður í 49,4% skv. frv.

Hv. 3. þm. Norðurl. e. hélt því að vísu fram að þetta hefði enga þýðingu, það skipti akkúrat engu máli þó að skuldahlutfallið lækkaði af þessum sökum, vegna þess að meginástæðan fyrir því væri aukin framleiðsla og lægri vextir og gengisbreytingar á erlendum mörkuðum. Auðvitað er það rétt að þessar aðstæður allar hafa hjálpað til við að lækka erlendu skuldirnar, en við höfum jafnan talað um erlendar skuldir sem ákveðið áhyggjuefni fyrst og fremst vegna þess hversu stór hluti þær voru orðnar af þjóðarframleiðslunni og eru reyndar enn. Og það hversu alvarleg þessi staða er byggist auðvitað á því hvert hlutfallið er á milli skuldanna og framleiðslunnar. Við hljótum að fagna því að framleiðslan hefur aukist og hættan er því minni sem þetta hlutfall verður lægra. Á undanförnum árum hefur markvisst stefnt í þá veru og mun svo áfram á næsta ári þegar skuldahlutfallið lækkar verulega, en auðvitað á það rætur að rekja til þess m.a. að framleiðslan hefur verið að aukast. Þó höfum við náð þeim árangri núna að opinberir aðilar eru að grynnka á erlendum skuldum, þeir borga nú meira af erlendum lánum en sem nemur nýjum lánum og það hefur ekki gerst árum saman og er þess vegna tímamótaviðburður.

Hv. þm. spurði einnig um ríkisábyrgðir, hversu mikið þær hafi aukist á undanförnum árum, hverjum arði þær hafi skilað og að hve miklu leyti þær hafi lent á ríkissjóði. Upplýsingar um þetta koma fram í athugasemdum með fjárlagafrv. og í töfluviðauka sem fylgir með þeim athugasemdum á bls. 312 og 313 kemur fram hverjar breytingar hafa orðið, hver aukningin hefur verið á veittum ríkisábyrgðum. Þar kemur m.a. í ljós að á ríkissjóð féllu árið 1985 34 millj. kr. Í vanskilum voru 1984 353 millj., en 454 millj. 1985. Auðvitað kann það að vera matsatriði hverjum arði þau lán hafa skilað sem þannig hafa verið tekin með ábyrgð ríkissjóðs, en ég hygg að í flestum tilvikum hafi verið um að ræða lántökur sem hafi skilað arði fyrir þjóðarbúið í heild sinni.

Hv. 3. þm. Norðurl. e. vék að því að með þessu fjárlagafrv. og frv. til lánsfjárlaga væri ekki spá um verðbólgu á næsta ári, það væri breyting frá því sem áður hefur verið. Að vísu var það svo að á síðasta þingi voru fjárlög og lánsfjárlög miðuð við desemberverðlag og síðan við lokaafgreiðslu var verðlagsforsendum breytt miðað við nýjustu upplýsingar. Auðvitað eru aðstæður allar aðrar nú en þegar óðaverðbólga geisaði sem mest í tíð síðustu ríkisstjórnar og ég hygg að það hafi ekki verið til mikils hagræðis þó að menn hafi sett einhverjar reiknitölur inn í frv. þá sem voru langt frá verðbólgustiginu. Nú höfum við náð þeim árangri að verðbólga hefur færst verulega niður og þegar kemur að lokaafgreiðslu þessara frv. á með nokkurri vissu að vera hægt að færa frv. til áætlaðs verðlags á næsta ári og heppilegast að það sé gert sem næst lokaafgreiðslu þegar þær forsendur liggja ljósar fyrir.

Hv. þm. hélt því enn fremur fram að hann hefði við umræðu um lánsfjárlög í fyrra haldið því fram að hallinn yrði meiri en þar var ráð fyrir gert og að vísu er það svo að það hefur komið fram, en ástæðurnar eru augljósar. Fyrst og fremst þær að ríkissjóður tók þá ákvörðun í byrjun árs að taka með þeim hætti sem alkunnugt er þátt í lausn kjarasamninganna og í framhaldi af því samkomulagi tók ríkisstjórnin ákvörðun um að ganga lengra í ýmsum efnum til þess að halda niðri verðlagi en beint var samið um við verkalýðsfélögin. Það skýrir að hluta til að hallinn varð meiri og enn fremur að launaþróunin á þessu ári hefur verið með þeim hætti að laun opinberra starfsmanna hafa hækkað nokkuð meira en ráð var fyrir gert á þeim tíma. Þetta skýrir þennan mismun að fullu.

Hv. þm. hélt því síðan fram að í frv. fælist mikill feluleikur með því að ríkissjóður ætlaði að taka lán hjá lánastofnunum og á hinn bóginn kæmi það fram að lánastofnanir væru að auka erlendar lántökur. Á þann veg væri ríkið með óbeinum hætti að taka erlend lán. Þetta er auðvitað mikill misskilningur og stafar eðlilega af því að hv. þm. hafa ekki haft nægan tíma til að brjóta frv. til mergjar. Ríkissjóður tók á þessu ári lán hjá bankastofnunum fyrir rúmar 800 millj. kr. og það er talið eðlilegt og mögulegt að halda þeim lántökum áfram á næsta ári. Þau auknu lán sem atvinnulíf og lánastofnanir taka erlendis samkvæmt þessari lánsfjáráætlun fara fyrst og fremst til stofnfjársjóðanna. Hér er um það að ræða að Fiskveiðasjóður er að taka meiri erlend lán, Byggðasjóður er að taka meiri erlend lán og ríkissjóður tekur auðvitað ekki eina krónu að láni hjá þessum aðilum. Hins vegar er áætlað að hann taki að láni hjá bankastofnunum þannig að þessi fullyrðing á ekki við nein rök að styðjast en skýrist vafalaust af því að tími til þess að kynna sér frv. hefur ekki verið nægur.

Að því er varðar fsp. hv. þm. um 18. gr. frv. er þar um að ræða að skil á tekjum af erfðafjárskatti voru ákveðin með samkomulagi á þeim tíma sem ákveðin krónutala. Það fórst hins vegar fyrir að gæta formsatriða í því efni og tekjurnar urðu nokkru meiri, en um það hafði verið samkomulag að miða við þá tölu sem samið var um í upphafi og því er nú leitað formlegrar staðfestingar á þeirri ákvörðun. Það er skýring á þessu ákvæði.

Hv. 5. landsk. þm. beindi til mín spurningum varðandi orkuframkvæmdir og frestun Blöndu. Henni hefur verið frestað. Þar hefur þegar verið lagt í verulega fjárfestingu og þessarar spurningar hefði kannske fremur átt að spyrja þegar menn hófust handa. En menn hafa frestað þessari framkvæmd eins og föng eru talin vera á og við það er miðað í þessum lánsfjárlögum og þeim lánsfjárheimildum sem Landsvirkjun fær með þessum lögum.

Að því er varðar hitaveiturnar tók ég fram í framsöguræðu að ekki væri um að ræða á þessu stigi tillögu um skiptingu á þessum fjármunum. Ég hygg að óumdeilt sé að sumar hitaveituframkvæmdir hafi verið svona í hæpnara lagi miðað við arðsemi. Ég er kannske ekki út af fyrir sig að gagnrýna það að menn hafi farið út í þær framkvæmdir. En eigi að síður verða menn að horfast í augu við að þær hitaveitur eru til þar sem sala á heitu vatni stendur ekki undir fjárfestingu og við því verða menn með einhverjum hætti að bregðast. Í mörgum tilvikum er það hægt með skuldbreytingum, að dreifa greiðslu á fjárfestingarkostnaði yfir á lengri tíma. Varðandi skort á upplýsingum er það í flestum tilvikum frá hinum minni hitaveitum sem fjmrn. hefði viljað fá fyllri upplýsingar en þegar eru komnar. Það stafar ekki af því að þessar upplýsingar séu ekki fyrir hendi. Það er einfaldlega þannig að fjmrn. vill gjarnan fá fyllri upplýsingar en þegar eru komnar fram. En áður en frv. er tekið til lokaafgreiðslu þarf auðvitað að liggja fyrir með hvaða hætti þessum fjármunum verður skipt á milli hitaveitna.

Varðandi spurninguna sem hv. 5. landsk. setti fram, hvort það væri góð lögfræði að leggja fram árlega og samþykkja skerðingarákvæði með lánsfjárlögum, get ég tekið undir að það er ekki góð lagasetning að standa á þann veg að. Þetta hefur á hinn bóginn verið gert um alllangan tíma og kannske fyrst og fremst fyrir þá sök að við allir þm. höfum tekið þátt í því að samþykkja lög sem við síðan treystum okkur ekki til að standa undir með því að leggja byrðar á skattborgarana. Ég býst við að allir hv. þm. séu undir sök seldir í þessu efni og auðvitað færi miklu betur á því að við tækjum með öðrum hætti á frómum óskum um útgjöld, þannig að við þyrftum ekki að standa frammi fyrir því að samþykkja skerðingarákvæði af þessu tagi, og kannske rís sá dagur einhvern tíma að við tökum okkur saman í andlitinu og tökum á því verkefni.

Varðandi Ríkisútvarpið hefur hæstv. menntmrh. þegar svarað þeirri fsp. Um þá skerðingu sem getið er um er samstaða í ríkisstjórninni. Það er ekki ætlunin að knésetja Ríkisútvarpið á einn eða annan hátt. Ég ætla ekki að fara við þessa umræðu út í umfjöllun um stöðu þess, en hún er auðvitað á margan hátt á annan veg en frjálsu útvarps- og sjónvarpsstöðvanna. Á marga lund hefur Ríkisútvarpið auðvitað miklu betri aðstöðu, m.a. með afnotagjöldum, en á móti hvíla auðvitað á því meiri skyldur en hinum frjálsu útvarpsstöðvum. Það er hins vegar spursmál hvort ástæða er til þess að Ríkisútvarpið haldi úti allri þeirri starfsemi sem það hefur haldið úti eftir að útvarpsrekstur var gefinn frjáls. Til að mynda má alveg spyrja að því hvort Rás 2 sé nauðsynleg í ríkisrekstri eftir að útvarpsrekstur er orðinn frjáls. Ég hygg að það sé alveg efni til þess að spyrja þeirra spurninga, án þess að ég ætli að kalla á frekari umræður um Ríkisútvarpið.

Það hefur verið vikið að því að batnandi efnahagur og betri staða þjóðarbúsins sé ekki ríkisstjórninni að þakka heldur hafi ytri skilyrði skipt þar sköpum. Það er auðvitað laukrétt að ytri skilyrði í þjóðarbúinu hafa skipt sköpum í þessu efni. Aflabrögð hafa farið batnandi, viðskiptakjör hafa batnað og allt þetta hefur bætt okkar hag, en í þessu efni gildir það auðvitað eins og áður að öllu skiptir hvernig á er haldið. Oftar en ekki höfum við glutrað góðum efnahagsárangri úr höndum okkar þegar góðærið hefur fallið okkur í skaut. Og ég fullyrði það að ef ekki hefði tekist sú þjóðarsátt á vinnumarkaðinum í vetur sem raun varð á værum við ekki að tala um það núna að geta búið við viðvarandi stöðugt verðlag, við værum ekki að tala um það að kaupmáttur væri að aukast um 7 eða 8% umfram það sem samið hefur verið um, annað árið í röð. Við værum að tala um óðaverðbólgu, við værum að tala um rýrnandi kaupmátt. Ég ætla síður en svo að vanmeta þátt aðila vinnumarkaðarins í þeirri þjóðarsátt. Auðvitað hvíldi sú samningagerð fyrst og fremst á þeirra herðum. Ég þarf ekki að rifja það upp að um það urðu miklar deilur á hausti 1984 þegar það var boðið fram af hálfu ríkisstjórnarinnar að taka þátt í lausn kjarasamninga með skattalækkunum til þess að ná þeirri samstöðu sem þá varð ekki en tókst í byrjun þessa árs.

Ríkisstjórnin vildi vinna það til að reka ríkissjóð með halla, hún vildi fórna markmiðinu um jöfnuð í ríkisrekstri til þess að ná þessum markmiðum. Ég hef sagt og held því fram að þátttaka ríkissjóðs í lausn kjaradeilnanna hafi verið lykillinn að því að við búum núna við lægra verðbólgustig og aukinn kaupmátt. Ef sú stefnumörkun hefði ekki verið fyrir hendi værum við að tala um allt annars konar efnahagslegar aðstæður. Um þetta þarf í sjálfu sér ekki að hafa mörg orð en auðvitað höfum við orðið fyrir því láni að allar ytri aðstæður hafa gengið okkur í hag og það skiptir sköpum að okkur hefur borið gæfa til að nýta það sjálfum okkur til framdráttar og til þess að auka þau verðmæti sem við höfum til skipta með þjóðinni.