05.11.1986
Efri deild: 9. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 614 í B-deild Alþingistíðinda. (492)

89. mál, grunnskóli

Menntamálaráðherra (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Það er ekki sjaldheyrt að heyra hv. þm. vitna til hinnar köldu staðreyndar sem við stöndum frammi fyrir um slys á börnum í umferðinni. Ættum við nú ekki þess vegna, hv. þm., að taka okkur á og athuga um til að mynda stórlækkaðan hámarkshraða í þéttbýli og í íbúðarhverfum eins og við höfum dæmi til um aðeins í örfáum hverfum Reykjavíkurborgar? Ættum við ekki að hætta að láta við það sitja að vitna til þessarar hörmulegu staðreyndar og gera ökulögin okkar varðandi bílbelti virk? Hvernig væri nú að við tækjum okkur á í þessu falli og hafandi það í huga að öll tölfræði sannar okkur óvefengjanlega að dánartíðni og slysatíðni stórminnkar við almenna notkun bílbelta.

En þetta var ekki erindið sérstaklega, heldur að gefnu tilefni að minnast á þetta mál að þetta frv., sem hér er til umræðu, er flutt með vitund minni. Ég bað þess aðeins að hv. flm. kynnti málið formanni endurskoðunarnefndar laga um grunnskóla. Þess hefur verið gætt og um leið og ég lýsi yfir stuðningi mínum við frv. ítreka ég beiðni mína um að fyllsta samráðs verði gætt og fyllsta samráð haft við endurskoðunarnefndina svo samræmi verði í störfum hennar og í því sem hér væntanlega verður að lögum.

Ég vil svo aðeins að lokum bæta því við að ég vonast til að fleiri atriði úr niðurstöðum áminnstrar nefndar um tengsl heimila og skóla verði tekin til umræðu og framkvæmda.